Góð strandferð

Ég er komin heim af ströndinni. Lét tæpa fjóra tíma vera nóg, sem var líklega gáfulegt því sólaráburðurinn sprautaðist eitthvað ójafnt á mig þannig að ég er með rauða bletti svona hér og þar, þar sem ekki nógur áburður lenti á skinninu. Og ég sem á að passa mig á að brenna ekki—segir læknirinn. Eftir að bróðir minn fékk sortuæxli fékk ég hörð tilmæli frá heimilislækninum að passa mig. Reyndar las ég í morgun að þótt búið væri að sýna fram á tengsl sólarbruna við flestar tegundir húðkrabbameins þá væri ekki búið að sýna fram á óyggjandi tengsl sólbruna og sortuæxlis. Sterkari tengsl hafa verið sýnd á milli sortuæxlis og fæðingarbletta.

Aðalástæðurnar fyrir því að ég var ekki lengur á ströndinni voru hins vegar aðrar. Annars vegar var býsna hvasst og maður fékk sandgusurnar yfir sig, og þetta virtist vera að versna. Hins vegar var fólki farið að lacarnofjölga og friðurinn úti. Þegar ég kom niður á strönd um hádegi var ekkert mál að finna góðan stað þar sem maður var einn með eina þrjátíu fermetra, alveg útaf fyrir sig. Þótt maður heyrði í fólki tala saman og börnum að leika sér þá voru þessar raddir veikar og bara hluti af náttúrunni. Þetta hentaði mér mjög vel af því að ég var í raun að vinna. Ég var að lesa yfir greinar sem þurfa að fara í prentun helst í lok vikunnar. Þegar ég var komin með fimm unglingsstráka við hliðina á mér var erfiðara að einbeita sér. Og nei, ekki af því að þeir hafi verið svo miklir kroppar. Þeir hafa varla verið nema sextán sautján ára sem þýðir að þeir eru bara börn og ekki einni sinni nógu gamlir til þess að maður hafi gaman af að kíkja á vöðvana. Það eru nú takmörk fyrir því hvað kallast karlmaður. Það var einfaldlega erfitt að einbeita sér vegna þess að þeir töluðu með einhverjum undarlegum framburði sem ég átti erfitt með að átta mig á. Og af því að ég er málfræðingur gat ég ekki annað en hlustað á þá og reynt að greina sérhljóðin. Helst minnti framburðurinn mig á Ástrala en það var líka einhver breskur hreimur þarna. Held  þeir hafi ekki verið Nýsjálendingar. Alla vega, mér gekk ekkert með síðustu greinina eftir að þeir settust beinlínis tveimur metrum frá mér, svo ég ákvað að fara heim. Ég þarf hvort eð er að fara bráðum og hitta eina stelpuna úr fótboltaliðinu mínu og borga henni þátttökugjald fyrir mót sem við ætlum að taka þátt í. Það er strandfótbolti þar sem leikið er berfættur í sandinum. Ætti að vera skemmtilegt.

Set inn mynd sem ég tók niðri á Lacarno á sunnudaginn. Í dag var ég um tvöhundruð metrum vestar á mörkum Lacarno og Spanish Banks. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er ekki mikill sólarmaður, nema það að ég elska að liggja úti í hita og gera ekki neitt, nema lesa, drekka bjór/svaladrykk  ... en húðin mín er slæm þannig að ég nota alltaf hæstu sólarvörn. Einhvern vildi það þannig til (úti í Portúgal) að ég taldi mig hafa borið vel á mig, en þegar leið á daginn (um kvöldið) kom í ljós að helmingurinn af hægri löppinni var rauður og hinn hvítur (minn litur) og á rauða flekknum var mynd af handarfari ... 

lærdómur? : dreifa betur úr sólarvörninni og ekki leggjast með hendur einhvers staðar annars staðar á búknum. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 23:55

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hehe, einmitt, dreifa betur úr vörninni. Það er þess vegna sem ég er með nokkra rauða flekki. En ekkert handarfar. Er að hugsa um að fara aftur á ströndina á morgun og reyna þá að búa til karlmannshandarfar á brjóstið, hehe.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.7.2007 kl. 00:03

3 Smámynd: Halla Rut

Guð hvað þú hefur það gott...Njóttu

Halla Rut , 11.7.2007 kl. 01:19

4 identicon

Mundu bara að hafa handarfarið nógu stórt, því oftast eru hendur kvenmanna örlítið minni en karlmanna ...

Láttu svo vita hvort þú fáir einhver viðbrögð

Gangi þér vel í lestri, hvort sem það verður í sól eða undir ljósaperu inni - eða við kertaljós ... 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 12:25

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ó, þú misskilur Doddi. Ég ætla ekki að búa til handarfarið sjálf. Ég ætlaði að fá einhvern annan til að leggja höndina þarna. Það er miklu skemmtilegra.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.7.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband