Með því be

Það er fátt eins gott og glænýjar kartöflur. Það er meira að segja hægt að borða þær sem aðalrétt, þær eru svo góðar. Ég hef oft soðið nýjar kartöflur, sett svolítið smjör út á og svo salt og pipar og borðað það sem kvöldmat. Hver þarf kjöt eða fisk þegar kartöflurnar eru ferskar upp úr jörðinni? Maður þarf ekki einu sinni að flysja þær.

Ég prófaði einu sinni að borða kartöflu hráa. Reif upp kartöflugras í garðinum heima, þreif af mestu moldina og át kartöfluna. Hún var ekki slæm en þó betri soðin. Mér fannst þetta samt mjög skrítið því yfirleitt er allt grænmeti mun betra hrátt en soðið. Kartöflur falla ekki í þann flokk.

Frændi minn var með stórt kúabú á Einarsstöðum í Eyjafirði og þar var hann líka alltaf með kartöflugarða. Fyrir utan eigin kartöflurækt leigði hann (eða lánaði - ég hef aldrei vitað hvort fólk borgaði honum) vinum og ættingjum sérstaka reiti þar sem viðkomandi gat séð um sínar kartöflur. Mamma og pabbi eru með slíkan reit og tvisvar á ári, eins lengi og ég man eftir mér, hefur því allt liðið verið sent í kartöflur. Fyrst að setja niður á vorin og svo að taka upp á haustin. Ég var því pínulítið kríli þegar ég var farin að fara í kartöflur. Og maður var ótrúlega nýtilegur ef maður bara nennti að hjálpa til. Á tímabili þegar ég var of mikill óviti til að finna allar kartöflurnar undir grösunum var ég sett í það að ganga á undan einhverjum öðrum og rífa upp grösin. En fljótlega var maður farinn að gera það sama og hinir eldri, rífa upp grös, finna allar kartöflurnar, henda móðurinni (illa farið með mæður þar). Ég var samt yfirleitt seinvirkari en aðrir og pirraði það mig ógurlega. Alltaf sama keppnismanneskjan. Eitthvert haustið þegar ég var um 12 ára samdi ég við pabba um að hann tæki mig í kartöfluvinnu. Vanalega fékk ég aldrei neitt borgað fyrir að hjálpa til, og ekki heldur neinn vasapening, í staðinn sáu foreldrar mínir um að kaupa það sem ég þurfti og svo fékk ég pening svona þegar ég þurfti á því að halda. Ef mig langaði í bíó, t.d. Annars gerði ég aldrei neitt sem krafðist peninga (keypti t.d. aldrei nammi) þannig að peningar voru eitthvað sem skipti mig engu máli. Og því var það þannig að við krakkarnir hjálpuðum til af því að til þess var ætlast, og af því að það var hluti af því að vera í þessari fjölskyldu. Maður þurfti ekki alltaf að fá eitthvað fyrir sinn snúð. En þetta sumar samdi ég sem sagt um einhver laun og svo keyrði mamma mig  út í garð og ég dundaði þar við upptöku. Hafði bara með mér kassettutæki, nóg af mat og svo þegar ég var orðin þreytt labbaði ég niður á Einarsstaði, hringdi heim og bað um að láta sækja mig. Þetta gerði ég í nokkra daga. Það voru fínir dagar.


mbl.is Kartöflurnar í aðalhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband