Hvað gerist í síðustu bókinni?
13.7.2007 | 20:25
Síðasta bókin um Harry Potter kemur út eftir átta daga og hefur bókin nú þegar selst í hærra upplagi en nokkur önnur bók hefur gert í forsölu. Út um allt hafa verið skipulagðar sérstakar Harry Potter hátíðir þar sem fólk getur keypt sitt eintak um miðnætti aðfararnótt 21. júlí. Marion vinkona mín er búin að kaupa bókina og fékk miða sem hún mun fara með í bókabúð í nágrenninu og svo getur hún lesið bókina um nóttina og því vitað endinn áður en nokkur leið er að frétta hvað gerist frá öðrum. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég geri en ég hugsa að ég kaupi hana nú á fyrsta degi.
Fram að því er hægt að leiða getum að því sem mun gerast.
Í fyrsta lagi, Snape er ekki illur. Þótt hann hafi drepið Dumbledore þá held ég að það hafi verið plott á milli Dumbledores og Snapes. Þeir vita hvað þeir eru að gera og ég hef aldrei trúað því að Snape sé ennþá deatheater (veit ekki hvað það kallast á íslensku - hef aldrei lesið íslensku útgáfuna).
Í öðru lagi, Harry er ekki drengurinn sem véfréttin talaði um. Það er Neville sem á eftir að bjarga heiminum. Neville er fæddur í lok júlí, rétt eins og Harry, og foreldrar hans voru einnig drepnir. Þegar ég sá nýju myndina pirraði það mig þegar Dumbledore sagði við Harry að hann hefði haldið sig fjarri honum (Harry) allan veturinn til þess að draga athyglina frá Harry. Hann hélt að Voldemort myndi síður fara á eftir Harry ef hann væri látinn í friði. Þetta pirraði mig líka þegar ég las bókina. Nú sé ég þetta hins vegar í öðru ljósi. Þetta er algjör lykilsetning því hún segir okkur miklu meira en ég hafði áður talið. Þetta segir okkur að það er Neville, ekki Harry, sem er drengurinn í spádómnum. Dumbledore hefur einmitt látið Neville algjörlega í friði og öll athyglin hefur beinst að Harry. Þannig hefur hann fengið Voldemort til þess að trúa því að Harry sé drengurinn umræddi. Voldemort mun því ekki vita hvað gerðist þegar Neville kemur fram á sjónarsviðið. Þetta segir okkur líka að Harry muni ekki deyja. Spurningin er hvort Neville deyr.
Margir hafa velt því fyrir sér hvort Hogwarts muni opna aftur. Svarið við því er einfaldlega já. Af hverju ekki? Þegar búið er að ráða niðurlögum Voldemorts og dauðaétaranna er ekkert því til fyrirstöðu að opna skólann. Þegar Neville, Harry, Hermione, Ron og öll hin taka virkan þátt í bardaganum er sýnt fram á hversu góður skólinn er og hve mikið nemendur læra og þroskast þarna.
Er Dumbledore virkilega látinn? Ég á erfitt með að vita það en ég held ekki. Ég held að hann sé sterkari galdrakarl en Voldemort og fyrst Voldemort lést ekki á sínum tíma er engin ástæða til að Dumbledore sé dáinn. Þar að auki var hann "drepinn" af Snape sem hluta af plotti þeirra tveggja þannig að ég held að hann muni koma aftur, en líklega ekki fyrr en í lok bókarinnar.
Ron og Hermione eiga eftir að verða hjón og líklega Harry og Ginny líka.
Hverjir deyja? Voldemort deyr, það er pottþétt. Hinn aðilinn gæti verið Neville. En ég hef í raun engar haldbærar getgátur um það hver annar deyr. Það er reyndar mögulegt að Harry sé síðasti horcrux-inn (annað orð sem ég veit ekki hvernig var þýtt yfir á íslensku). Horcrux er hlutur eða manneskja þar sem galdramaður eða norn hefur falið hluta úr sál sinni. Viðkomandi getur ekki dáið ef einhver horcrux er enn á lífi. Það er vegna þessa sem Voldemort dó ekki á sínum tíma. Ef Harry er horcrux, sem er ekki ólíklegt miðað við að það virðast vera tengsl á milli hans sálar og sálar Voldemorts, þá verður Harry að deyja svo Voldemort geti dáið. Spurningin er hvort Voldemort hafði tíma til að gera Harry að horcrux. Þið munið að hann ætlaði að drepa hann! Ég tel þetta því ekki líklegt og finnst því líklegra að Harry muni lifa.
Þetta er það sem ég held að muni gerast. Skiljið endilega eftir athugasemdir og segið mér hvað ykkur finnst líklegt.
Athugasemdir
Oh, ég hlakka til.
"Þannig hefur hann fengið Voldemort til þess að trúa því að Harry sé drengurinn umræddi. Voldemort mun því ekki vita hvað gerðist þegar Neville kemur fram á sjónarsviðið. Þetta segir okkur líka að Harry muni ekki deyja. Spurningin er hvort Neville deyr."
Ég fatta þetta ekki alveg hjá þér. Af hverju gæti þetta ekki alveg eins þýtt að Harry deyji, en alls ekki Neville? Eða þeir báðir bara?
Ég held reyndað að Harry deyji alls ekki, þetta er barnabók líka, það yrði of átakanlegt.
Ég gæti hins vegar vel trúað því að annað hvort Hermonie eða Ron deyji. Það yrði svona smekklega sorglegt, ekki óbærilegt.
Páll Ingi Kvaran, 13.7.2007 kl. 21:17
Einhvers staðar í fyrri bókum kom fram að margir trúi því að bæði Harry og Voldemort verði að deyja. En ef Harry er ekki sá sem margir halda að hann sé, og að í raun sé það Neville, þá gæti það þýtt að það séu Neville og Voldemort en ekki Harry og Voldemort sem verða að deyja. Hins vegar sagði spádómurinn að "one cannot live if the other one survives" sem þýðir auðvitað að annar hvor verður að deyja, ekki endilega báðir. Þannig að það passar ekki við þessa hugmynd um að hvorugur geti lifað af.
ég er hins vegar sammála þér í því að ein helstu rökin fyrir því að Harry lifi eru þau að þetta er barnabók og það er mjög erfitt fyrir börn að sætta sig við dauða annarra barna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.7.2007 kl. 23:19
Gaman að lesa þetta Ég bíð spennt eftir bókinni og ætla rétt að vona að Harry verði á lífi í bókarlok ! En annars líst mér nokkuð vel á það sem þú segir um Neville held einmitt líka að hann geti verið drengurinn úr spádómnum.
Ólöf , 13.7.2007 kl. 23:21
Ég er ekki alveg sammála um að þetta séu barnabækur.
Í 1.bókinn byrjaði á að tvær manneskjur voru drepnar.
Mér finnst meira að myndirnar séu fyrir börn þar sem hlutunum(morð,pintingar og fleira) er ekki lýst jafn vel.
Haldór (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 11:48
Ég ætlaði nú ekki að pirra þig meira með svörum frá mér en ég einfaldlega get ekki annað en að taka þátt í Potter-umræðu.
Til að byrja með er íslenska heitið fyrir Death Eater Drápari og fyrir Hrocrux er það Helkross. Flottar þýðingar.
En Stína, þú ættir að lesa næst-seinasta kaflann í Order of the Phoenix aftur, The Lost Prophecy.
The one with the power to vanquish the Dark Lord approaches... born to those who have thrice defied him, born as the seventh month dies... and the Dark Lord will mark him as his equal, but he will have power the Dark Lord knows not... and either must die at the hand of the other for neither can live while the other survives... the one with the power to vanquish the Dark Lord will be born as the seventh month dies...
Þetta er spádómurinn. Taktu eftir því sem ég hef feitletrað. Dumbledore segir: "I'm afraid, that there is no doubt that it is you" þegar hann útskýrir fyrir Harry í kaflanum The Lost Prophecy að það sé mun líklegra að spádómurinn eigi við um Harry en ekki Neville.
Voldemort valdi Harry. Hann merkti hann með örinu. Þetta eru orð Dumbledore's og ég er "Dumbledore's man through and through" rétt eins og Potter.
Einngi trúi ég því að Ron deyi ekki, því í fyrstu bókinni eru bæði Ron og Ollivander kynntir til sögunnar og "Ollivanders" (búðin heitir það, með S-i) er anagram fyrir "Ronald lives".
Einar Jóhann Geirsson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.