Elskulegheit makkanotenda

Í gærkvöldi var ég að dunda mér fyrir framan tölvuna þegar skjárinn varð allt í einu svartur. Ég athugaði að allar snúrur væru vel tengdar en þegar það breytti engu endurræsti ég tölvuna. Allt var við það sama. Eitthvað slæmt var í gangi. Mín fyrsta hugsun var um peninginn sem það myndi kosta að láta gera við þetta og hugsun númer tvö var um alla vinnuna sem myndi tapast ef ég næði ekki í efnið sem ég hef verið að vinna við undanfarna daga. Það er ekki langt síðan ég bakkaði upp öll skjöl en ég geri það ekki á hverjum degi. Ætti kannski að gera það en hef aldrei komist upp á lagið. Ég mundi hins vegar að ég gæti tengt saman borðtölvuna og fartölvuna og fært efni á milli en ég mundi líka að ég þurfti að starta annarri hvorri tölvunni upp á einhvern sérstakan hátt og spurningin var hvort ég þurfti að gera eitthvað á skjánum.

Svo ég gerði það sem allir gáfaðir makka eigendur gera þegar þeir eru í vanda, ég skrifaði inn á umræðusíðu apple.is. Það hefur aldrei klikkað að ég fái góð og skjót svör frá fólki á þeim bæ. Ég veit ekki alltaf hvort þetta eru starfsmenn fyrirtækisins að skrifa eða bara aðrir makkanotendur sem vita meira en ég, en ég hef grun um að hvort tveggja eigi við. Sumir eru starfsmenn, aðrir eru óbreyttir notendur með mikla þekkingu og gott hugarfar. Þrátt fyrir að nú sé laugardagur var ég búin að fá svör frá tveimur, Þór Sigurðssyni og Hans Róbert. Takk kærlega strákar. Ég get alltaf treyst á að makkanotendur séu hjálpsamir.

Þeir sögðu mér báðir að ég yrði að fara með tölvuna í viðgerð því það væri ómögulegt að segja um hvað gæti verið að. Þeir gáfu mér líka upplýsingar um það hvernig ég á að tengja tölvurnar saman. Sem betur fer þurfti ég ekki á skjánum að halda. Ég þurfti bara að ræsa þá biluðu á meðan ég hélt inni t-takkanum og svo birtist diskurinn hennar á skjáborði fartölvunnar og þar fékk ég aðgang að öllu því sem á tölvunni var. Þannig gat ég fært yfir öll þau skjöl sem ég taldi mig þurfa á að halda. Ég færði meira að segja yfir nokkur lög sem ég vil helst geta hlustað á á meðan tölvan er í viðgerð.

Ég held eiginlega að það sé nauðsynlegt fyrir námsmenn á ritgerðarstigi að hafa svona aðgang að tveimur tölvum. Það þýðir að maður getur haldið áfram að vinna þótt ein tölva bili. Fyrr í vetur bilaði tölvan hjá Marion og var í viðgerð í einar sex vikur. Hún gat ótrúlega lítið unnið á meðan. Vann eitthvað uppi í skóla en hafði engan aðgang að ýmsu sem hún þurfti úr tölvunni, svo sem efnið sem hún hafði verið að vinna með áður en tölvan bilaði. Þar komum við auðvitað aftur að því að maður á að bakka upp á hverjum degi. Ég verð að gera eitthvað í því. En það er eins erfitt að muna að bakka upp á kvöldin og það er að taka vítamín á morgnana. Hvort tveggja er mjög mikilvægt en samt meira en að segja það.

Og núna þegar ég er komin með allt mikilvægt yfir í fartölvuna get ég aftur farið að hugsa um hvað þetta mun nú kosta. Æ æ æ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Unnar

Mac, hvað? En þú getur fengið forrit sem sjá sjálf um að bakka up reglulega, án þess að þú komir nálægt því.

Þröstur Unnar, 14.7.2007 kl. 16:34

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þetta er soldið fyndið. Alltaf þegar eitthvað gerist í tölvunni minni fylllist allt af Makkanotendum í kommentakerfinu mínu sem segja "Hí á þig!" Gott að vita að makkatölvur eru mannlegar eins og aðrar ... 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.7.2007 kl. 16:48

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þröstur, á hvað bakkar maður upp? Geisladisk? En þá þarf hann alltaf að vera í tölvunni! Ég er ekki með utanáliggjandi drif. Ætti kannski að hugsa um það.

Gurrí, þeir hía á þig? Mikið hrikalega er það fáránlegt. Reyndar er oft ekki annað hægt en að stríða PC fólki þegar það fær vírusa, því þá fáum við ekki á makkanum (alla vega hef ég aldrei fengið slíka) en makkatölvur bila alveg eins og aðrar tölvur. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.7.2007 kl. 16:51

4 Smámynd: Þröstur Unnar

Þú getur fengið þér svokallaðann Flakkara. Það er utanáliggjandi diskur sem þú tengir með USB. Nauðsynlegt tæki, en þarft samt að taka afrit af honum annað slagið á geisladiska. Vesen, ekki satt?

Þröstur Unnar, 14.7.2007 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband