Um asnaskap og áhættu

Þeir sem klifra án öryggisbúnaðar hafa alltaf pirrað mig. Kannski er það vegna þess að ef eitthvað kemur fyrir þá eru það aðrir sem þurfa að eiga við það. Fyrir tveimur árum var ég að klifra annað hvort í Check eða Calchek og sé þá eldri mann sem er eitthvað að skoða klettinn við hliðina á okkur. Hann var í klifurskóm og með krítarpoka en ekkert belti. Allt í einu rýkur hann bara af stað upp klettinn, aleinn og án nokkurs öryggisbúnaðar. Við Doug fussuðum bæði og bölvuðum karlinum því ef hann hefði dottið þá hefðum við þurft að hlaupa til og huga að honum, kalla eftir sjúkrabíl og almennt eiga við þetta. Sumum finnst ég kannski hljóma sjálfselsk hér en mér fannst hann fremur sjálfselskur. Ef hann vill klifra án öryggisbúnaðar ætti hann samt sem áður að hafa einhvern kunningja með sér sem getur gert viðkomandi ráðstafanir ef á þarf að halda. Þetta er áhættusamt og maður getur dottið út af alls konar ástæðum. Það þarf til dæmis ekki nema einn lausan stein til þess að maður geti dottið á auðveldri leið, ef maður hefur t.d. treyst á gripið. Eða þá að fugl flýgur allt í einu út úr gjótu (það kom fyrir Anne-Marie þegar við vorum að klifra í Smith Rock - henni dauðbrá).

Einn kunningi minn sagði mér frá því eitt sinn að hann hefði verið að klifra á svæði sem var nokkuð þekkt klifursvæði þegar hann heyrir kallað einhvers staðar í nágrenninu. Hann og félagi hans runnu á hljóðið og finna loks tvo náunga fasta uppi í miðjum kletti á stað sem var algjörlega óklifrandi. Allt of mikið um laust berg til þess að nokkur heilvita maður geti klifrað þetta. Þeir voru greinilega búnir að klifra upp eina reipislengd eða svo fyrst þeir voru báðir þarna uppi. Þarna sátu þeir sem sagt og gátu hvorki farið upp né niður. Tek það fram að þessir voru með öryggisútbúnað, þeir voru ekki að klifra solo. Kunningi minn og félagi hans sáu að það myndi taka allt of langan tíma til að kalla út hjálparsveit svo þeir klifruðu upp þarna til hliðar þar sem bergið var öruggara (en þó ekki svo gott að þeir hefðu nokkurn tímann klifrað þarna ef þeir hefðu ekki þurft þess), settu upp almennilegt öryggiskerfi og náðum ösnunum niður. Þeir spurðu strákana hvernig þeim hefði dottið í hug að klifra þarna upp og svarið var: "Það hefði verið fyrsta klifur. Það hefur enginn farið þarna upp." Dah! Það er ástæða fyrir því að enginn hefur farið þarna upp. Kunningi minn var álíka reiður yfir þessu og við Doug vorum yfir asnanum sem klifraði án öryggisbúnaðar nálægt okkur. Sumt fólk á bara ekki að stunda íþróttir.


mbl.is Heimsfrægur klifrari týndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

að mínu áliti er hverjum sem er frjálst að setja sig í lífshættu.. það er partur af því að vera lifandi að finna adrenalín rushið flæða um líkamann...

að einhver annar þurfi að tína upp leifarnar er ekkert nýtt.. slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, hjálparsveitarmenn og lögregla gera slíkt á hverjum degi...

Óskar Þorkelsson, 14.7.2007 kl. 19:15

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, en þeir hafa atvinnu af því (eða sem áhugamál, sbr. hjálparsveitarmenn). Aðrir klifrar sem eru þarna til að sinna sínu áhugamáli hafa engan áhuga á því að bjarga málunum þegar áhættufíklarnir hafa slasað sig eða drepið sig, en geta hins vegar ekki skorast undan ef þannig stendur á. Hins vegar sagði ég aldrei að þessu fólki sé ekki frjálst að setjast sig í lífshættu, ég sagði bara að það pirraði mig þegar fólk setur sig í lífshættu fyrir framan mig. Ég vil ekki þurfa að vakna upp af martröðum í mörg ár af því að einhver féll til dauða beint fyrir framan mig.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.7.2007 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband