Ný myndavél
15.7.2007 | 23:13
Fyrir rúmri viku keypti ég mér nýja myndavél. Þetta er Canon PowerShot S3. Mig hafði lengi langað í þessa vél en sagði sjálfri mér að ég gæti ekki farið að eyða peningum í nýja myndavél á meðan gamla vélin væri enn nothæf. Sú vél var hins vegar orðin 6 ára og svolítið úr sér gengin. Hún var aðeins tveggja pixla vél með 2x optical zoom og 4x digital zoom (sem er auðvitað gagnslaust - maður getur allt eins stækkað myndina á tölvunni). Litirnir eru heldur ekkert miðað við það sem nú er hægt að fá. Eftir að ég kynntist vélinni hans Martins í fyrra hef ég betur og betur gert mér grein fyrir því hvað mín vél var léleg miðað við nýju vélarnar. Mér finnst ofsalega gaman að taka myndir en gamla Canon vélin hreinlega gerði ekkert fyrir mig lengur. Ég hafði samt samviskubit yfir því vegna þess að ég elskaði þá vél þegar ég fékk hana. Það var ein fyrsta Digital Elph vélin frá Canon, pínulítil vél úr ryðfríu stáli. Hún var þá minnsta vélin sem hægt var að fá. Sú vél hefur líka þjónað mér vel í sex ár. En nú var sem sagt kominn tími á yngri systur.
Ég er búin að vera að dunda mér við að læra á vélina en það er svo margt hægt að gera við hana að ég á enn langt í land með að læra allt. En það er alltaf skemmtilegast að læra með því að prófa sig áfram. Eitt af því sem hægt er að gera er að taka myndina í svarthvítu nema maður skilur eftir einn lit. Sýni hér eitt dæmi af plöntu sem ég sá niður við Granville Island. Ég hef ekki hugmynd hver plantan er en hún er flott. Hér má sjá eina mynd í lit og aðra svarthvíta með rauða litinn skilinn eftir.
Annað sem er frábært við þessa nýju myndavél er hversu fljót hún er að taka myndir. Gamla vélin var mikið hægari þannig að stundum ætlaði ég t.d. að taka mynd af fugli en áður en það tókst var fuglinn floginn. Nú get ég náð þeim þar sem þeir blaka vængjunum. Set eina slíka inn. Mér finnst þessi alveg frábær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.