Útilega við Peter Hope vatn

Kyle og Tyler við varðeldinn

Ég er búin að draga það allt of lengi að segja ykkur frá útilegunni við Peter Hope vatn. Ég slóst í för með Brynjofson fólkinu, frændfólki mínu hér í Vancouver. Bróðursonur langafa, Sigurður Brynjólfsson fluttist með sitt lið til Kanada fyrir löngu og afkomendur hans búa flestir hér á Vancouver svæðinu. Reyndar er ein dóttirin í Alberta og ein í San Diego, en hin systkinin eru öll í BC og velflest þeirra börn.

Ég keyrði uppeftir á föstudagskvöld með Gerry, eiginmanni Diana Brynjolfson en hún er dóttir Bens, elsta sonarins. Við komum að vatninu einhvern tímann á milli tíu og ellefu um kvöldið og þar voru fyrir Diane með strákana þeirra, Carol systir hennar og pabbi þeirra, Ben, og konan hans Angie. Carol og strákarnir voru búin að tjalda fyrir mig en því miður alveg uppvið tjaldið hennar Carol og hún hrýtur.

Laugardagurinn fór í eiginlega ekki neitt. Borða, slappa af, sofa, borða meira. Svo fór ég með Ben útá vatnið. Hann reyndi að fiska en ég naut þess nú bara að vera úti á vatninu í góðu veðri og las inni á milli þess sem ég spjallaði við Ben. Hann talar ágætis íslensku og finnst alltaf gott að fá tækifæri til þess að æfa sig.

Um kvöldið fór ég í göngutúr með Diane og strákunum og við sáum meðal annars uglu. Það var great horned owl eða stórhyrnd ugla, eða eitthvað svoleiðis (við höfum ekki svoleiðis á Íslandi þannig að ég veit ekkert hvað íslenska orðið myndi vera). Þegar ég kom til baka flutti ég tjaldið enda hafði ég ekki sofnað nóttina áður fyrr en einhvern tímann undir morgunn. Ég hafði spilað píanó variötur Bachs (með Glenn Gould) á iPodnum mínum, og vonaðist til að ég gæti sofnað út frá því en það gekk ekki heldur. Jafnvel þótt ég hafi hlustað á verkið þrisvar sinnum. Og ég vildi ekki aðra svefnlausa nótt. Það var hins vegar ekki mikið um tjaldstæði þarna enda meira ætlast til að menn væru með hjólhýsi og aðra slíka vagna. Ég fann hins vegar fínt tjaldsvæði inni í hálfgerðum runna sem var alveg upplagður. 

Ég fór að sofa einhvern tímann um ellefu leytið eftir að hafa setið fyrir framan varðeld með Brynjolfsons liðinu, og ég söng meira að segja 'Komdu og skoðaðu í kistuna mína' (óskalag frá Ben) og 'Kveikjum eld' við mikla hrifningu (þótt ég segi sjálf frá). Ég steinsofnaði fljótlega og rumskaði ekki fyrr en um hálffjögur um morguninn við það að nefið var stíflað og mig klæjaði í framhandlegginn. Ég hafði með mér ofnæmistöflur svo ég tók þær og reyndi svo að kúra mig niður enda enn mið nótt og svarta myrkur. En ég var ekki svo heppin. Ég var varla löggst fyrir þegar ég heyrði eitthvert skrjáf fyrir utan tjaldið mitt. Ég stífnaði öll upp og hreyfði hvorki legg né lið. Skrjáfið hélst áfram og innan skamms færðist það eftir tjaldinu og nær höfuðlaginu. Ég þorði ekki að anda. Ýmindunaraflið rauk af stað. Ég er ekki heima lengur. Hér eru alls konar dýr á ferli á nóttunni. Það hættulegasta á þessu svæði augljóslega björninn. Það eru reyndar engir Grizzly á þessu svæði en töluvert af svartbjörnum. Ég fór í gegnum það í huganum hvort ég væri nokkuð með mat í tjaldinu og sannfærði mig um að svo væri ekki. Björn ætti því ekki að hafa áhuga á mér eða tjaldinu. Þar að auki var ég nokkuð viss um að hvað sem þetta væri væri það ekki nógu stórt til að vera björn. Það ættu ekki að vera nein fjallaljón á þessu svæði, en hvað veit maður. Við erum komin býsna nálægt Klettafjöllunum þarna og ég veit að það eru fjallaljón þar. En þrátt fyrir það að innst inni vissi ég að hvað sem þetta væri þá væri það ekki nógu stórt til að ráðast á mig, þá róaðist ég ekkert við það. Meðal annars vegna þess að ég fór að hugsa um birni og fjallaljón og allt það og ég vissi að þótt þetta væri ekki björn fyrir utan þessa stundina þá gæti hann komið hvenær sem væri. Og hvað myndi ég gera. Hversu nálægt var ég hinum? Myndu þau heyra í mér ef ég orgaði. Til að bæta gráu ofan á svart heyrði ég sléttuúlfa góla í fjarska. Gæti verið sléttuúlfur fyrir utan? Þeir ráðast ekki á fólk, en alvöru timburúlfur gæti gert það - ef hann væri svangur. Málið er að það var miklu líklegra að þetta væri eitthvað ennþá minna. Kannski refur, kannski otur úr vatninu. Skunkur? Varla íkorni, þetta dýr fór allt of hljóðlega og rólega til þess. Íkornanir hlaupa um eins og vitlausir, og þar að auki sofa þeir á næturnar. Fyrir ofan tjaldið heyrði ég í fugli, en það tók nokkurn tíma áður en ég var viss um að þetta væri fugl. Reyndar hefði þetta getað verið leðurblaðka líka. Ég var stjörf af hræðslu og þar sem ég lá þarna hreyfingarlaus reyndi ég að hugsa möguleikana í stöðunni. Ég gæti legið þarna og vonað að allt róaðist og ég gæti sofnað. Ég gæti farið út og reynt að sjá hvað væri fyrir utan. Ef þetta væri eitthvert meinlaust dýr gæti ég ábyggilega sofnað. Ég gæti skriðið inn í tjald hjá einhverjum öðrum, eða inn í hjólhýsi hjá Ben og Angie sem voru næst mér. Ég ákvað að kíkja út. Skjálfandi renndi ég upp rennilásnum og skimaði í kringum mig. Ég var með ljós á höfðinu sem lýsti býsna vel en ég sá ekkert. Ég ákvað að reyna bara að sofna. En ég var varla lögst niður aftur þegar ég heyrði hljóð aftur fyrir utan. Ég vissi að ég myndi ekki sofna úr þessu. Allt í einu sá ég lausnina. Bíllin hennar Carol. Ég var með lykla að bílnum. Ég tók svefnpokann minn og fór út í svarta nóttina. Ég reyndi að hugsa ekki um hvað var þarna í kring heldur hraðaði mér að bílnum. Þar hrúgaði ég öllu drasli úr aftursætinu og skreið inn. Ég hafði engan kodda svo þetta var óþægilegt en ég var svo þreytt að ég sofnaði umsvifalaust. Ég vaknaði um klukkutíma síðar við það að sólin var komin upp. Allt virðist miklu betra í dagsbirtu svo ég áréð að fara aftur inn í tjald. Ég endaði á því að sofa til um klukkan tíu þannig að þrátt fyrir um klukkutíma þar sem ég var stíf af hræðslu fékk ég samt mun meiri svefn en hrotunóttina áður.

Á sunnudeginum hélt ég áfram að borða, sofa, lesa. Ég lærði líka að spila Canasta og komst að því að ég er ekki mjög heppin í því spili fremur en öðrum. Ég færði tjaldið mitt til þannig að það var beint fyrir utan vagninn hjá Ben og Angie, úti á auðum bletti en ekki inni í rjóðrinu, og þrátt fyrir að þar væri halli og að ég sigi stöðugt niður á við í tjaldinu svaf ég eins og steinn næstu nótt og fór ekki á fætur fyrr en sólin var farin að sjóða tjaldið. Um hádegið keyrði ég til baka með Gerry en hin voru áfram í einhverja daga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband