Tölvuvesen og moskítuvesen

Ég eyddi megninu af morgninum í að bakka upp tölvuna mína ef ske kynni að ekki væri hægt að gera við hana. Ég þurfti að færa öll gögn yfir á fartölvuna og þaðan brenndi ég síðan diska. Ég þorði ekki að brenna á diska beint af borðtölvunni því ég las einhvers staðar að þegar maður tengdi svona tvær tölvur saman væri best að engin önnur firewire tengi væru í gangi. Ég veit ekki hvort það er rétt en ég vildi ekki taka sénsinn. Fartölvan hefur ekki mikið geymsluminni þar sem ég hef engöngu notað hana til þess að geta skrifað þegar ég er á ferðalögum, og því varð ég að fylla fartölvuna, brenna, fylla fartölvuna, brenna, o.s.frv. Þetta tók óratíma.

Marion kom og sótti mig laust fyrir klukkan eitt og við keyrðum með vélina í viðgerð. Þar er tveggja tíma biðtími eftir því að litið verði á hana. Það er því vissara fyrir mig að venjast því að hafa bara fartölvuna. Kannski ég verð að stækka minnið í henni. Eftir að vélin var komin í viðgerð fórum við og klifruðum. Ég náði að klára V3 sem ég var að vinna að og Marion kláraði V2 sem hún hafði átt í vandræðum með. Báðar kláruðum við svo eitthvað sem við höfðum aldrei prófað áður. Ég er pottþétt að verða betri og betri klifrari. Gallinn er að mér finnst svo skemmtilegt í grjótglímunni að ég klifra orðið alltof sjaldan með reipi.

Marion keyrði svo beint til Mission þar sem hún kennir Lilloet mál en ég skrapp upp á Commercial Drive og fór í svolítinn gluggaverslunarleiðangur (hvað kallast window shopping á íslensku?). Ég settist loks niður við ítalskt bakarí, borðaði nokkurs konar ítalskt vínarbrauð, drakk kaffi og las í bókinni sem ég á að skrifa um. Ég er næstum því búin með hana og þarf því fljótlega að fara að skrifa. Ég hef aldrei skrifað ritdóm áður svo þetta verður svolítið erfitt.

Nóttin sem leið var fimmta eða sjötta nóttin í röð þar sem ég berst við moskítur. Ég hafði sett á mig lavander olíu því moskítum á að finnast lyktin af því vond, en mín eiginlega sæta líkamslykt var greinilega of góð því ég var samt bitin. Ekkert virðist virka á þessi helvíti. Ég er viss um að þær eru enn hér einhvers staðar. Því miður getur venjuleg moskíta lifað í um tvær vikur þannig að það er vel hugsanlegt að sama moskítan sé alltaf að stinga mig.  

P.S. Um það bil sem ég ætlaði að ýta á 'vista og birta' sá ég tvær moskítur útundan mér. Ég náði annarri, hin er enn einhvers staðar. Þá veit ég það, helvítin eru enn á sveimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ættir að skrifa bók um baráttu þínar við moskíturnar.  Ég er aldrei bitin af svona vargi.  Sennilega vegna nikótíneitursins í kroppnum á mér. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.7.2007 kl. 07:19

2 identicon

Áburður með DEET er það eina sem dugir á þessi kvikindi

Harkinn (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 08:54

3 Smámynd: Guðrún Ösp

Stína þú ættir að prufa Te Tree olíu... agalega vond likt en virkar oftast.. svo er auðvitað ekki spurning að finna sér Hómapata-apotek og fá sér nokkrar remedíur við þessu.. því þetta er ógeð að vera bitin.. ef þú finnur apótekið get ég sagt þér hvað þú átt að kaupa.

Guðrún Ösp, 19.7.2007 kl. 08:58

4 identicon

Stína mín. Harry Potter and the Deathly Hallows kemur út eftir 36 tíma og tvær mínútur og þú hefur áhyggjur af flugum!

En fyrst ég rakst á þig inná veraldrarvefnum hef ég ákveðið að tilkynna þér það að ég hef ekki hlustað á Breskta tónlist síðan um miðjan maí. Núna síðustu tvo mánuðu hef ég nær eingögnu hlustað á Ameríska tónlist, þá helst Bob Dylan, Bruce Springsteen og Cash og jafnvel Love og Beach Boys. Aldrei hefði ég trúað því í ársbyrjun að ég gæti enst svona lengi Pink Floyd-laus. Svo eru Kanadamennirnir líka að gera góða hluti, Neil Young er alltaf í heimsókn og stundum The Band. Svo Hlustaði ég bara á Leonard Cohen á meðan ég las Harry Potter and the Chamber of Secrets.

Einar Jóhann Geirsson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 11:00

5 identicon

Farðu bara með moskíturnar á sama stað og borðtölvuna ... en ég vona að bæði þessi vesen lagist hjá þér.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 11:30

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Kristín mín, ég myndi í þínum sporum fara í venjulegt apótek, þar sem þú færð faglega afgreiðslu og ráðgjöf um val á lyfjum gegn og/eða við flugnabiti. Gangi þér vel með tölvuna. Kveðja KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 19.7.2007 kl. 13:32

7 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Sæl vertu! Ég hef lent í svona moskító-árásum og spray og krem virtust ekkert bíta á þessi kvikyndi, sem aðallega sáu reyndar ástæðu til að ráðast á mig sofandi. Ég vaknaði svo á hverjum morgni eins og skotið hef'ði verið á mig með haglabyssu. Keypti hinsvegar smá gadget sem stungið var í rafmagns tengil og einhver tafla höfð í tólinu og eftir að þetta var komið í samband gat ég sofið við opna glugga og þess vegna með ljós kveikt og aldrei sást kvikyndi innanhúss. Þú átt samúð mína alla

Þorsteinn Gunnarsson, 19.7.2007 kl. 14:57

8 Smámynd: Ásta Björk Solis

Profadu skin so soft fra Avon thad virkar mjog vel a mig.

Ásta Björk Solis, 19.7.2007 kl. 15:48

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

ykti Takk öll fyrir ábendingarnar. Gallinn við margt af þessu er einmitt að það lyktar ógeðslega. ÞEgar ég er úti í náttúrunni er mér alveg sama þótt ég lykti illa, en þegar maður er nýkominn úr baði og undir sæng þá er eitthvað svo ógeðslegt að vera með deet eða annað þaðanafverra á sér. Ég er ekki viss um að ég gæti sofnað við slíka lykt. Agalega viðkvæm fyrir öllu slíku. Ég er búin að tala við  apótekara, ég er búin að tala við hómópata, hef keypt frá báðum það sem á að vera best við kláðanum eftir að maður er bitinn (en hvorugt virkar) en enginn virðist hafa nein góð ráð um hvernig á að verjast þeim, nema þetta með deet og þvíumlíkt. Ásta, vinkona mín var einmitt að mæla með skin so soft. Er það lyktarlaust að  mestu? Þorsteinn, var þetta dýrt tæki? 

Einar, elsku dúllan mín. Það var mikið að þú lætur sjá þig hér. Ég sakna þess að fá aldrei bréf frá þér lengur. Heyri aldrei í Árna heldur. Föðursystir flytur til útlanda og er þar með sparkað úr fjölskyldunni. En illa þykir  mér þú dottinn í amerísku tónlistina. Springsteen!!! Ég hélt  maður hefði þurft að vera unglingur þegar Born to Run kom út til að geta hlustað á hann. Nú hlusta ég bara á hann af og til til þess að minna mig á unglingsárin. En þessir kanadísku eru auðvitað snillingar. Maður vinkonu minnar er mikill Neil Young aðdáandi og veit allt um hann. Eða sama sem. Láttu heyra oftar í þér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.7.2007 kl. 19:32

10 Smámynd: Einar Indriðason

tja... þú gætir svosem athugað með að vera í kafarabúningi, til að losna við moskíturnar. Bara passa að engin þeirra hafi laumað sér inn um öndunargrímuna....

Einar Indriðason, 19.7.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband