Um ábyrgðarleysi fólks

Það er fátt sem pirrar mig eins mikið og fólk sem sinnir ekki því sem það á að gera. Ég er núna að ritstýra málvísindatímariti. Fyrir rúmum mánuði rann út fresturinn til þess að birta grein í tímaritinu, og þar með fá að flytja fyrirlestur á ráðstefnu um tungumál af Salish ætt sem haldin verður í Kelowna eftir tvær vikur. Við Martin Oberg, sem er meðritstjóri  minn, settum allt á fullt, lásum allt yfir, gerðum athugasemdir um innihalda og útlit og sendum til baka til höfunda. Þeir fengu um tíu daga til að laga þetta og senda til okkar aftur. Flestir brugðust skjótt við en við þurftum að ýta á eftir nokkrum. Síðan tók við önnur umferð af yfirferð og við sendum aftur athugasemdir til þeirra sem á þurfti að halda. Lokaatriðið er svo að láta alla vita blaðsíðunúmerin sín, sem þeir síðan bæta við á síðurnar og senda til baka til okkar. Nema hvað, einn höfunda hefur ekki enn sent inn greinina sína frá fyrstu umferð, sem lengi vel þýddi að við gátum ekki sett blaðsíðunúmer á neinn sem kemur á eftir honum í stafrófinu. Martin er búinn að senda honum nokkur bréf en fær ekkert svar. Og þetta er einn af stóru körlunum í rannsóknum á Salish tungumálum. Kannski er það þess vegna sem hann heldur að hann geti gert hvað sem er. Í dag færðum við hann aftur fyrir stafrófsröðina svo við gætum haft allt annað tilbúið, en hvað gerist næst veit ég ekki. Ég er búin að leita ráða hjá kennurunum sem eiga að vera til ráðgjafar um tímaritið og bíð núna eftir þeirra áliti. Við þurfum að setja þetta í prentun snemma í næstu viku (helst á morgun) og ef við heyrum ekki frá honum fljótlega verðum við annað hvort að birta greinina hans með öllum villunum, eða þá að við getum ekki haft greinina með. Og ég er viss um að það myndi skapa vandamál á mörgum sviðum.

Ég skil ekki í svona fólki. Hann getur ekki afsakað sig á því að hann sé einhvers staðar í sumarfríi og hafi ekki tölvupóstsaðgang. Þú sendir ekki grein inn í tímarit og ferð svo í burtu. Sérstaklega þar sem hann veit að tímaritið verður að vera tilbúið þegar ráðstefnan hefst. Þetta er bara dónaskapur og mér er skapi næst að henda greininni hans út.

En vitiði, þetta er alltaf svona. Það er alltaf fólk sem tekur ekki ábyrgð á neinu og veltir vandanum yfir á aðra. Svona er þetta t.d. í félögum. Það er alltaf sama fólkið sem gerir allt og aðrir koma sér undan öllu. Mitt vandamál er að ég ætlast of oft til þess að allir séu eins; eða réttara, að allir séu eins og ég: Samviskusamt og ábyrgðarfullt fólk. En þar sem ég er komin yfir miðjan fertugsaldurinn ætti ég að hafa lært að þessu er því miður ekki þannig farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband