Súkkulaði hefur tilhneigingu til að hverfa

Þegar ég var fjórtán ára fórum við fjórar vinkonurnar í Atlavík um verslunarmannahelgi. Ringo Starr kom á svæðið og átta sterkir hestar hefði þurft til að halda mér í burtu (eða að mamma og pabbi hefðu sagt nei). Þetta var alveg ótrúleg helgi, margt gert og margt sagt.

Ég og Sigga fengum far hjá foreldrum hennar sem voru á Egilsstöðum á meðan við vorum í Atlavík, en Elva og Mæja tóku rútuna frá Akureyri. Við Sigga komum um miðjan dag á fimmtudegi, settum upp okkar tjald og höfðum það gott það sem eftir lifði kvölds. Elva og Mæja komu hins vegar einhvern tímann þennan eina klukkutíma sem myrkur er á Íslandi fyrstu helgina í ágúst. Þær þurftu því að þreifa sig áfram í myrkrinu og fundu loksins fremur slétt svæði þar sem þær tjölduðu í myrkrinu. Snemma morguns vöknuðu þær við að óvenju margir virtust vera að  labba fram hjá tjaldinu þeirra og sumir hverju hálfduttu yfir þær. Þegar þær loksins skriðu út kom í ljós að þær höfðu tjaldað á tiltölulega þröngum göngustíg sem tengdi tjaldstæðin. Þær urðu að færa tjaldið sem Mæja kallaði flottasta tjaldið á Laugum (nema hvað við vorum í Atlavík). 

Einn daginn þegar við Sigga komum að okkar tjaldi var búið að rífa niður tjaldið við hliðina á okkur og leggja það yfir okkar tjald. Við tókum tjaldið niður og settum það á sinn stað og fórum svo aftur á rápið. Síðar sama dag rákumst við á strák sem sagði við okkur:
-Heyrðu, var búið að leggja tjald yfir ykkar tjald fyrr í dag?
-Já, við tókum það niður.
-Ég vil bara fyrirgefa þetta. Þetta er nefnilega strákatjald og það vildi endilega komast uppá stelputjald!!!

Annars var það ekki þetta sem ég vildi sagt hafa, þótt nú nálgist verslunarmannahelgi og ég gæti haldið uppá að 23 ár eru síðan ég sá  Ringo Starr í Atlavík. Nei, ástæðan fyrir þessari færslu er gullkorn sem kom út úr Mæju einhvern tímann yfir helgina. Við sátum allar inni í tjaldinu okkar Siggu og borðuðum kvöldmat. Mæja hafði keypt súkkulaðistykki og var að maula á því sem eftirrétti. Ég fékk skyndilega mikla súkkulaðiþörf og spurði Mæju hvort ég mætti fá bita. Horfir þá ekki Mæja lengi vel á súkkulaðið sitt og segir að lokum: En, en, það minnkar alltaf!!!

Því miður er þetta vandinn með súkkulaði (og reyndar flest), það minnkar sem af er tekið. Ég fékk engan súkkulaðibitann.

Ástæða þess að ég fór að hugsa um þetta núna er sú að það er liðin vika síðan Rosemary kom frá Íslandi með fullan poka af nammi frá mömmu og pabba. Ég kaupi ekki oft nammi en ef ég á það þá endist það ekki lengi. Það minnkar því það sem af er tekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæl Kristín

Mig langaði bara til að senda þér kveðjur til Kanada. Ég hef allt of sjaldan verið þar. Þó ekið heilan stóran hring um Nova Scotia og annan um Prince Edvad Island og gisti þá oft á heimilum  (B&B) og litlum mótelum. Einnig komið að Niagara fossinum Kanada megin. 

Mér finnst Kanadamenn með eindæmum hlýlegt og gott fólk, a.m.k. það sem ég kynntist í Nova Scotia og PIE.

Varðandi súkkulaðið; Manstu hvað Forrest Gump sagði um konfektið?

”Mamma sagði alltaf: Lífið er eins og konfekt-kassi. Þú veist aldrei hvernig mola þú færð.”

Bestu kveðjur úr kofanum nærri Geysi.

Ágúst, www.agust.net

Ágúst H Bjarnason, 20.7.2007 kl. 01:45

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæl aftur Kristín.

Var að lesa á vefnum að þú ert að lesa málvísindi. Ég er reyndar verkfræðingur, þannig að ég kann ekki vel skil á málvísindum. Frænka mín, Sigríður heitin Valfells, var doktor í þeim fræðum. Langafi minn Jón Ólafsson var samt , held ég, áhugasamur um þessi fræði.  Man vel eftir ýmsu úr málvísindum sem Ólafur kenndi okkur í MR, m.a eigtthvað sem mig minnir að hafi kallst Verners lögmál. Eitthvað um hljóðbreytingar, eða þannig...

Jón langafi orti Íslendingabrag, var ítrekað landflótta vegna ljóða og skoðanna sinna, og var mjög hugumstór. Hefði orðið mjög gott skáld, ef hann hefði haft tíma til. Þú þekkir sjálfsagt "Máninn hátt á himin skín, ..." sem var ort í hádeginu eitt sinn.

 Bestu kveðjur; Gústi

Ágúst H Bjarnason, 20.7.2007 kl. 02:08

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fyrirgefðu sífellda  ónæðið!

Þar sem þú ert tengd Winnipeg. Langafi var líka þar http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=327 "Ritstjóri í Winnipeg 1890—1894."

Ágúst H Bjarnason, 20.7.2007 kl. 02:30

4 identicon

Það eyðist sem af er tekið. Þannig er það líka með meydóminn í útilegum.

Útilegumaður í Atlavík (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 05:15

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Blessaður Ágúst. Jú það er alveg rétt hjá þér. Kanadamenn eru alveg yndislegt fólk upp til hópa. Svo kurteisir og vingjarnlegir. Ég hoft heyrt um Sigríði Valfells og ég held meira að segja að ég hafi lesið eitthvað eftir hana. Og jú, máninn hátt er alveg súper. Hef oft sungið það. Flottur karl þessi langafi þinn.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.7.2007 kl. 07:33

6 identicon

OHHHH ég man! Þó ótrúlegt sé, gamla góða Atlavík!  Tjaldið var jú flottasta tjaldið, því það var það eina sem var málað.  En ótrúlegt alveg að við skyldum fá leyfi til að fara þetta - barnaverndarmál í dag held ég bara.  Annars allt gott að frétta af ströndinni.  Læt betur heyra í mér seinna,  Elva.

Elva (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband