Hið fínasta kvöld í Vancouver
20.7.2007 | 07:28
Kvöldið í kvöld var virkilega skemmtilegt. Ég var mætt heima hjá Marion og Ryan klukkan fimm, tilbúin að spila ultimate. Við spiluðum einhvers staðar í austurbænum en ég veit nú ekki nákvæmlega hvar. Fer ekki oft á þessar slóðir.
Við unnum fyrsta leikinn með eins marks mun en við höfðum verið virkilega næs við hitt liðið. Reglan er að það mega aðeins spila fjórir leikmenn af sama kyni á hverjum tíma, fjórir strákar og þrjár stelpur, eða fjórar stelpur og þrír strákar. Hitt liðið hafði aðeins tvær stelpur og gat því bara leikið með sex leikmenn. Til þess að leikurinn yrði skemmtilegri samþykktum við því að spila líka bara með sex leikmenn. Við erum svo næs.
Seinni leikurinn var ekki eins skemmtilegur. Að hluta til var það vegna þess að hitt liðið var mun betra en við, en aðallega var það vegna þess að þau voru ekki mjög skemmtileg. Ekki er leikið með neinn dómara og því er það undir hverjum og einum að láta vita ef hann/hún telur brotið á sér. Þau sögðu að leikmaður hafi verið innan marksvæðisins þegar hún var það ekki, ein stelpan ætlaði að komast upp með að hafa farið útaf vellinum með diskinn, en sem betur fer var það stoppað. Þetta var ekkert alvarlegt en yfirleitt er fólk svo gott og skemmtilegt og allir líta á þetta sem leik, enda erum við í sjöundu deild eða eitthvað svoleiðis. En við vorum í of góðu skapi til að pirra okkur of mikið á þessu.
Eftir leikinn var ákveðið að fara saman út að borða, þótt klukkan væri að nálgast tíu. Ástæðan var sú að Mo hinn austurríski er að flytja heim til sín og mun því ekki spila meira með okkur. Það verður erfitt að fylla skarð hans því ég held svei mér þá að Mo geti flogið. Alla vega sér maður hann iðulega svífa í loftinu.
Við fórum á breskan pöbb þar sem hægt er að fá svona týpískan pöbbamat. Lengst af talaði ég við Katie, Martin Oberg, Erin og Brad því við sátum á öðrum endanum og þar komst ég meðal annars að því að launin fyrir að kenna ensku sem erlent tungumál eru algjörlega skítsamleg. Ekki það að ég geti farið út í það, en það var samt athyglisvert að vita þetta. Katie hefur verið að kenna ensku en ætlar í haust að hætta því og fara í stað þess að kenna í grunnskóla.
Chris og Toby fóru fyrstir heim og síðan Erin og Brad svo hópurinn þrengdist og við mynduðum einn stóran spjallhóp. Þar komst ég að því að kvikmyndagerðamaðurinn Jason er mikill aðdáandi Sigurrósar og á alla diskana með þeim. Er búinn að fara og sjá þá þrisvar sinnum á tónleikum. Honum fannst það spennandi þegar ég sagði honum að ég hefði séð þá áður en þeir urðu virkilega frægir.
Nú verð ég að fara að sofa. Ætla í verslunarleiðangur með Rosemary í fyrramálið, svo ætlum við Marion að klifra og líklega munum við Martin líka þurfa að funda vegna tímaritsins. Við þurfum helst að koma því í prentun á mánudaginn.
Athugasemdir
Sæl frænka!
Það mega ekki....(ekki það má ekki, frl. er fleirtala)
KV.
BH
benni (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 13:24
Hehe, ertu nú farinn að prófarkalesa mig frændi? En takk fyrir ábendinguna, þarna hafði ég breytt setningu og gleymdi greinilega að breyta sögninni. Gallinn við púka og þvílík tæki er að þeir kunna ekkert í málfræði.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.7.2007 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.