Ekki tiltökumál
25.7.2007 | 15:59
Ég er viss um að þeir haga þessu þannig að fólk þurfi ekki að bíða of lengi. Vanalega held ég að sena sé mynduð, svo sé fólki hleypt fram hjá, svo er senan tekin upp aftur, svo er fólki hleypt fram hjá, o.s.frv.
Ég er orðin vön því að þurfa að bíða á meðan er verið að kvikmynda því hér í Vancouver er verið að mynda fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta á hverjum degi. Fyrir fjórum árum eða svo var ég einmitt að labba eftir einni stórgötunni þegar ég gekk fram á kvikmyndatöku. Ég varð að bíða eins og aðrir á meðan atriði var myndað og svo var okkur hleypt fram hjá. Ég sá aldrei hvað var verið að taka upp en ég heyrði að bæði væri verið að kvikmynda inni í viðkomandi verslun (sem er grískt delí) og fyrir utan hana. Um daginn var ég að horfa á kvikmyndina Connie og Carla, með Toni Collette, Nia Vardalos og David Duchonvny í aðalhlutverkum. Myndin fékk fremur slæma dóma á sínum tíma svo ég hafði ekki séð hana í kvikmyndahúsum. Hún var hins vegar í sjónvarpin nýlega og af því að ég hafði ekkert betra að gera og af því að Toni og Nia eru báðar frábærar leikkonur, þá horfði ég á myndina. Mikið brá mér þegar kom að atriði þar sem David Duchovny og Michael Spinella eru að verwla í þessari sömu grísku búð. Myndin kom út 2004 svo það passar að hún hafi verið tekin upp 2003 eða fyrra hlutann af 2004. Ég er viss um að þetta var myndin sem verið var að taka upp þennan dag. Sem þýðir að ég var örfáa metra frá David Duchovny án þess að vita það. Hefði ég bara verið fremst í biðröðinni en ekki aftast!!! Annars er ég svo sem enginn aðdáandi þótt ég hafi alltaf horft á X-files á sínum tíma.
Annars var fyndnast þegar verið var að taka upp atriði á háskólasvæðinu nokkrum mánuðum áður en ég flutti til Vancouver. Þrír vina minna voru að ganga frá strætóstöðinni að málvísindabyggingunni en komu að svæði þar sem verið var að kvikmynda. Þar var búið að afmarka svæðið með borðum og verðir stóðu við. Þá kom í ljós að sumu fólki var hleypt í gegn ef það vildi og þá yrði það hluti af kvikmyndinni, en öðru fólki var sagt að fara í kringum svæðið. Jeff, Clare og Diana voru öll send í kring og var ekki boðið að labba í gegn. Þau voru sannfærð um að þau þættu of ljót eða of asnalega klædd til að fá að vera með í kvikmyndinni og voru hundfúl. Sérstaklega þegar þau sáu fallegt fólk í tískufötum fá að fara í gegn! Margir verða voðalega pirraðir þegar þeir þurfa að bíða eða að taka á sig krók vegna kvikmyndatöku, en mér finnst nú svo gaman af bíómyndum að mér finnst allt í lagi að bíða af og til vegna þessa.
![]() |
Tafir gætu orðið vegna kvikmyndatöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Maður fer nú ekki að sleikja einhvern upp vegna bílaauglýsingar! Come on! Og hvaða rétt hafa kvikmyndafyrirtæki til að loka götum og þjóðvegum, sem eru almenningseign?! Lögreglan hefur bara rétt til að loka götum og vegum vegna slysa eða viðgerða en ekki kvikmyndatöku. Hvaðan ætti það átoritet eiginlega að koma?!
Flestir sjónvarpsþættir og kvikmyndir eru rusl og fólk verður akfeitt og heimskt af því að horfa á allt það drasl, sérílagi krakkarnir. Hvað þá bílaauglýsingar! En í örfáum tilfellum er verið að taka upp menningu, til dæmis kvikmyndina Cinema Paradiso, og þá er hægt að biðja fólk um að trufla ekki ódauðleikann með góðum fyrirvara.
Ráðvandi risinn (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.