Enn um moskítur - hvernig ég hef náð að bæta stöðuna

Ég er alltaf að verða betri og betri í baráttunni við moskíturnar. Af því að ég vil ekki spreyja mig með einhverju ógeði á kvöldin, og af því að öll krem eru gagnslaus þegar kemur að því að minnka kláða eftir moskítóbit, þá er eina ráðið að drepa flugurnar áður en þær ná að bíta mig (þó er ég farin að bryðja B vítamín sem ætti að fara að virka eftir rúma viku). Ég veit ekki enn hvernig þær koma inn en það getur varla verið auðvelt fyrir þær því eingöngu tvær til þrjár ná að komast inn hverja nótt. Hér kemur taktíkin sem ég hef komið mér upp:

1. Sofa með sæng eða lak yfir mér þannig að aðeins hausinn standi undan. Það þýðir að ef moskíturnar vilja bíta mig þá verða þær að koma að höfðinu á mér. Þá heyri ég hins vegar í þeim, vakna, og veifa út öllum öngum svo þær ná ekki að nærast. (Þegar ég er úti bíta moskítur í gegnum föt, en einhverra hluta hafa þær ekki bitið í gegnum lak - og þegar ég er undir sæng þýðir það auðvitað ekki.)

2. Þegar ég vakna við suðið í helvítunum kveiki ég ljósið, gríp flugnaspaðann og ef ég sé kvikindið fylgi ég því eftir með augunum þar til það sest og þá ræðst ég á þær. Ef ég sé þær ekki loka ég augunum og reyni að sofna aftur en með ljósið kveikt, liggjandi á bakinu með flugnaspaðann í hendinni. Og svo er bara að endurtaka leikinn.

3. Stundum fer ég í leit að flugunum þar sem ég grannskoða loft og veggi í von um að sjá kvikindi. Þetta gengur ekki oft en það kemur þó fyrir. Best er að liggja kyrr og bíða eftir árás frá þeim.

í gærkvöldi náði ég að drepa þær þrjár flugur sem komist höfðu inn. Engin þeirra náði að stinga mig.  

Eini gallinn er að það tekur að meðaltali um 20 mínútur að ná hverri flugu sem þýðir að þegar þrjár koma inn, eins og í gær, þá missi ég sirka klukkutíma svefn á nóttu. Og vanalega á milli 1 og 4 um nóttina.

Því miður eru moskítur næturdýr að eðlisfari og það er því þá sem þær leggja í matarleiðangur. Hins vegar nærast þær aðeins einu sinni á sólarhring og því er maður ekki stöðugt í vandræðum.

Ég las einhvers staðar á vefnum grein frá náunga sem sagðist bara leyfa þeim að bíta sig því eftir máltíðina færu þær og settust að meltu og væru því ekki lengur að hringsuða um höfuðið á manni. Hann hefur hins vegar líklega alist upp meðal moskíta og hefur því komið sér upp ágætis ofnæmisvörn. Ég fæ hins vegar heiftarleg ofnæmisviðbrögð og því myndi þetta aldrei duga fyrir mig.

En hei, hvað er smá skortur á svefni ef maður sleppur við að vera útataður í moskítóbitum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki býð ég í að njóta ásta með þessi skaðræðiskvikindi í afturendanum ár og síð, alla tíð. Það hlýtur að vera hægt að spreyja þessar afætur og ófriðarseggi með einhverju flugnaspreyi eða hárlakki. Alvara lífsins verður að hafa sinn gang, sagði Stebbi Þorláks alltaf. 

Kinnfiskasogni sjómaðurinn (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 21:02

2 identicon

hæ hæ...

ég skil þig vel...bý erlendis og var í sama stríðsleik og þú á nóttunni.

Núna er skrokkurinn reyndar farinn að taka betur á móti þessu og er ekki lengur með risa "marbletti" eftir bitin.....Mexíkó afbrigðið náði líklegast þó að breiðast mest út !

Núna er ég með svona lyktarvörn, sem maður setur inn í þar til gerða innstungu sem plöggast í rafmagn...virðist virka ágætlega.

kv,

E. 

eman (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 22:29

3 identicon

Einn ein sönnun þess hvað það er gott að búa á Íslandi. Engin

sæng, engin bit !

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 23:44

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Bráðfyndið hvernig þessi umfjöllun lýsir nákvæmlega hvernig maður hefur sjálfur þurft að hafa þetta erlendis. Ég var komin með óþol fyrir öllum þessum úðum og áburðarstöngum, svo að best er að skanna herbergið í 10-15 mínútur fyrir svefninn, en þær bíða faldar, þessar elskur, svo að ég er með tvö trikk: Annars vegar að veifa tusku um ljós, borðfætur og hluti til þess að ná þeim fram og hins vegar að blása með hárblásara á sömu staði. Þá nást þær upp í horn þar sem góður spaði blífur.

Að minni reynslu þá sýgur sama flugan mann alla nótina, aðallega framhandlegginn, þannig að síðerma silkitreyja kemur sér vel í farangrinum, Mikil blessun er nú að vera á Íslandi. Þó var einn nákominn mér að slá gras með sláttuorfi nýlega og fékk um 100 mýbit, bólgnaði allur upp og þurfti sterasprautur til þess að sjatna aðeins.

Ívar Pálsson, 26.7.2007 kl. 00:02

5 Smámynd: Halla Rut

Ég er svo fegin að vera laus við þetta hér á Fróni....En svo virðist sem að kóngulær séu að yfirtakahúsið mitt. Á hverjum morgni eru vefir ný spunnir út um allt hús. Meira að segja 2,5 ára sonur minn vaknaði upp í fyrri nótt með andvælum og sagði bar "konguloo konguloo". Hvað er til ráða?? Ekki lífhættulegt ég veit...en  orðið svolítið þreytandi .

Halla Rut , 26.7.2007 kl. 03:44

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Kinnfiskasogni sjómaður...þú vísar í Stebba Þoláks! Það gera bara MAingar!

eman, hvað heitir þetta rafmagnsdót sem þú notar?

Ívar, ég prófa þetta. Ég bregst reyndar ekki eins illa við og áður, bólgna minna og það endist skemur, en kláðinn er jafn slæmur og fyrr.

Já Örn og Halla, eitt af því besta við Ísland er skortur á pöddum. Annars heyri ég að það sé að breytast.

Halla, þegar ég flutti í kjallaraíbúð fyrir fjórum árum var töluvert mikið um kóngulær í íbúðinni. Ég keypti kóngulóarsprey og spreyjaði ég í alla glugga og meðfram öllum vegglistum, svo og í horn og þvíumlíkt. Skildi svo alla glugga eftir opna til að lofta út og var svo úti allan daginn (getur verið slæmt fyrir mann að vera í íbúðinni fyrst á eftir). En þetta alveg rokvirkaði. Ég losnaði algjörlega við kónguærnar eftir þetta. Þurfti reyndar að spreyja aftur nokkrum mánuðum seinna, eða kannski var það ári seinna, en það var vel þess virði. ástæðulaust að búa með kóngulóm. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.7.2007 kl. 04:03

7 identicon

Veit ekki hvort að þetta hjálpar þér eitthvað...en hér í Tékklandi er þetta selt undir nafninu "Raid", og er frá scJohnson.

Þetta er hólkur sem er stungið í samband yfir nóttina og sérstakar bláar ilmplötur sem hægt er að stinga inn í hólkinn.

Þetta mallar svo og gefur ákveðna lykt sem þessi kvikindi þola ekki.

Við Íslendingar erum eitthvað viðkvæmnari fyrir stungunum...líklega ekki mikið af mótefnum hjá okkur, en það tók mig líklega 2-3 ár að byrja þola þetta betur.  Áður komu alltaf risablettir og kláði, en núna eru þetta smá stungur sem pirra mann í 1 dag...

kv,

E.

eman (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 08:04

8 Smámynd: Upprétti Apinn

Ef þú villt ekki nota sprey of svoleiðins hluti (sem virka mis vel) þá eru ýmis ráð við þessu.

 1.  Mikilvægast er að borða sem minnst af sykri; kökum, sælgæti og þjóðardrykk Íslendinga Kókókóla.  Moskítóflugurnar sækjast meira í þá sem eru með sætt blóð.

2. Sólbrúnka virðist letja flugurnar.  Kannski húðin þykkni, eða sýni minni viðbrögð við bitinu, en þetta virðist virka.

3. Tíminn.  Líkaminn vennst bitunum og sýnir smátt og smátt minni viðbrögð.

4. Notaðu Teatree Olíu á bitin.  Það virðist virka mjög vel.

Upprétti Apinn, 26.7.2007 kl. 08:10

9 Smámynd: Birgitta

Hvað með að sofa undir flugnaneti? Það er það sem ég hugsaði allan tímann meðan ég las um næturbröltið á þér . Ég hef keyptsvona lítið tæki í innstunguna eins og eman talar um á Spáni og Portúgal en man ekki til þess að hafa séð þau fyrir Westan.
Hérna eru nokkrar vörur sem gætu nýst þér:

https://www.amazon.com/s/ref=nb_ss_/105-6593265-2639661?initialSearch=1&url=search-alias%3Daps&field-keywords=mosquito

Óska þér góðs gengis .




 

Birgitta, 26.7.2007 kl. 10:31

10 identicon

Thad er sama vandamal med Moskitoflugurnar hja okkur i Pavia, og madur tharf ad vefja husid sitt inni flugnanet og ekki fara ut nema med halfsmetrathykkt lag af spreyi yfir ser...eda helst bara vera med permanent flugnaeiturs-sturtu yfir manni til ad fa frid fyrir thessum skadraediskvikindum. En nuna erum vid buin ad snua a flugurnar...thad verda ekki fleiri hungradar Paviskar kven-moskitoflugur fleitari a okkar blodi i thar, og ekki verdur haegt ad kenna okkur um naesta-ars moskitoher thar sem vid leggjum ekki lengur okkar af morkunum i ad stridala thessi astsjuku kvendyr sem nyta svo blodid til ad leggja egg fyrir naestu kynslod. Og hvad gerdum vid til ad leika a thaer...eg veit ad spurningin brennur a ther:

VID FORUM TIL ISLANDS...her eru engar flugur i sjonmali og vid hofum thad alveg aedislegt! Kemur thu ekki lika?

Astarkvedjur, Rut og Oscar  

Rut (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 11:10

11 Smámynd: Sigurjón

Hvað með svona græju sem er hengd upp og laðar til sín flugur, steikir þær svo með rafmagni?  Er það kannske of dýrt?

Annars fóru moskíturnar illa með mig í Brasilíu maður!  Ég þurfti langan lyfjakúr og sprautu í rassinn og allan pakkann... 

Sigurjón, 26.7.2007 kl. 23:57

12 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ouch, sprautu í rassinn! Þessi tæki sem steikja flugurnar er ekki hægt að nota inni. Flesti tæki og kerti og þvíumlíkt til að fæla flugur frá eru eingöngu til nota utandyra - því miður.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.7.2007 kl. 00:39

13 identicon

Hefurðu prófað að bera á þig húðlotionið "Skin so Soft" frá AVON ?  Svínvirkar gegn moskítum og þess utan góð lykt af þessu kremi !

Guðrún Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 09:38

14 Smámynd: Einar Indriðason

Hmm... hér er pæling... Hvað með að forðast stungurnar, með því að hafa tilbúin mat fyrir moskíturnar?  Kreista smá blóðugt kjöt á disk?

Einar Indriðason, 27.7.2007 kl. 11:29

15 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Guðrún, það var einmitt búið að stinga upp á Skin so soft. Ég þarf bara að finna svona Avon sölukerlingu. Athuga kannski netið fyrst.

Góð hugmynd Einar. Prófa það.

Annars kom engin fluga í nótt. Kannski af því það var svo hvasst úti, en kannski af því að ég endurvann flugnanetið og límdi alls staðar í kringum það.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.7.2007 kl. 22:47

16 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Jæja, fann Avon á netinu og er búin að panta bæði body lotion og bubble bath. Um leið og ég fæ þetta mun ég virkilega geta sofið á næturnar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.7.2007 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband