Þetta líkar mér
28.7.2007 | 18:15
Ég bjó einu sinni við hliðina á sjómanni í blokkaríbúð og hann fór á fyllerí í hvert sinn sem hann kom í land. Það skipti engu máli hvaða dagur var. Allt var rólegt þar til hann kom heim svona um þrjú leytið og þá setti hann allt í botn í græjunum sínum svo enginn gat sofið í allri byggingunni. Nágrannarnir skiptust á um að hringja í lögguna en það breytti aldrei neinu. Löggan kom, hann ýmist reif kjaft við hana eða lofaði öllu góðu. Slökkti á græjunum - í svona fimm mínútur þar til löggan var farin (hann gat séð úr glugganum hvenær þeir keyrðu í burtu). Og þá var allt sett í botn aftur. Stundum kom löggan tvisvar að nóttu en það stoppaði hann ekki. Einu sinni setti hann lag með Spoon á "loup" og það spilaði alla nóttina. Mér hafði fundist þetta lag frábært en eftir að hafa heyrt það í heila nótt þegar ég var að reyna að sofa fékk ég ógeð á því. Það kom fyrir að fólk í húsinu fór á hótel um miðja nótt vegna þess að það varð að fá svefn. Þetta var orðið þannig að þegar maður vissi að hann var í landi gat maður ekki sofnað vegna þess að maður var farinn að kvíða svo nóttinni framundan.
Við fórum að lokum með þetta til lögfræðings og sem betur fer hefur fólk ekki algjöran rétt yfir íbúð sinni þótt það eigi hana. Sjómanninum var sagt að ef þetta breyttist ekki þá yrði hann borinn út þar sem hann væri að brjóta lög. Hann hætti að spila tónlist á næturnar. Ég flutti reyndar út ekki löngu eftir þetta svo ég veit ekki hvort það entist, en mikið var ég þó ánægð með að sjá að réttarkerfið kemur oft til hjálpar þegar á þarf að halda.
Þarna var ekki nauðsynlegt að setja manninn í fangelsi en ég vil trúa því að ef hann hefði ekki hlýtt þá hefði verið hægt að taka málið lengra.
Hávaðasamur nágranni dæmdur í fangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað segirðu um "Who let the dogs out?" í 2 ár um nástast hverja helgi á fullu blasti? Ójá mig langaði að myrða, limlesta og búta niður, en ég vann um síðr. (Minningar frá Laugavegsbúsetu minni). OMG ég sofna ekki í kvöld.
Takk fyrir pistil.
Jenný Anna Baldursdóttir, 28.7.2007 kl. 20:00
Ég hefði nú bara brotist inn í íbúðina hjá þessu sjómannstetri og selt græjurnar hans og allt annað í íbúðinni, eða hent því á haugana, í hvert skipti sem hann fór á sjóinn. Þessir Akureyringar kunna engan veginn að bjarga sér. Það bætir engan að senda hann í grjótið.
Þróttlitli Þróttarinn (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 20:49
Bara að fara á fyllerí með manninum. Ég hefði gert það...
Sigurjón, 30.7.2007 kl. 02:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.