Helgi á Gambier
28.7.2007 | 21:27
Það er mikið um eyjar í kringum Vancouver og margar þeirra eru í byggð allan ársins hring. Aðrar eru að mestu skipaðar sumarhúsum en enn aðrar eru óbyggðar með öllu. Ein af stærri eyjunum hér nálægast er Gambier eyja. Á suðvestur hliðinni er hálfgert þorp með svolitlu vegakerfi en stærstur hluti eyjarinnar er skógi vaxinn með hús á víð og dreif. Eigendur þessa húsa nota flestir báta til að komast til og frá sumarhúsinu. Oft sameinast nokkur hús um bryggju og mynda þannig nokkurs konar kjarna með kannski fimm til sjö húsum. Rosemary vinkona mín og Doug, maðurinn hennar, eiga eitt slíkt hús á landi fjölskyldunnar þannig að hin húsin á svæðinu byggja fyrst og fremst frændur og frænkur Dougs. Ég held að aðeins tvö hús tilheyri öðrum. Ég hef farið þangað í heimsókn á hverju ári síðan ég kynntist Rosemary og stoppað í nokkra daga. Það er svo gott að komast aðeins út úr borginni. Yfirleitt er ekkert hægt að gera nema slappa af, lesa, synda kannski aðeins í sjónum, liggja í sólbaði. Maður freistast ekki til að horfa á sjónvarp, eða fara og versla, og svo framvegis. Þetta er sældarlíf. Eftir einar sex mínútur kemur Doug að sækja mig. Rosemary er úti í eyju allt sumarið en hann þarf í vinnunna og kemur því bara út þegar hann á frí. Þannig get ég fengið far, sem er mjög gott því það kostar ekkert að fara með honum á bátnum. Ef maður þarf að nota leigubát (sbr. leigubíl) kostar það alltaf slatta, plús þá þyrfti ég að taka strætó yfir í Horseshoe Bay og það tekur alla vega klukkutíma. Þetta er miklu betra. Þá get ég líka hjálpað Doug við að hlaða bátinn því hann þarf að sjá um að versla og flytja mat og aðrar nauðsynjar í eyjuna. Hús Rosemary og Dougs er hátt uppi á hæð með frábært útsýni yfir sjóinn, yfir Bowen eyju, yfir að Vestur Vancouver...en það er erfitt að komast þangað upp með vörur. Doug hefur hins vegar keypt sér lítinn traktor sem hann notar til að fara upp og niður brekkurnar með verslunarpoka og þvíumlíkt. Þetta ætti að verða notaleg helgi. Sjáumst á mánudag.
Athugasemdir
ahhh hljómar æðislega! Skemmtu þér vel!
Iris Bjorg (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 13:58
Þetta hlýtur að verða dásamlegt hjá þér! Ummm, hljómar vel.
Þú minntist á mynd um daginn um flutning Beckham-hjónanna til USA, held að hún verði sýnd á Stöð 2 á fimmtudaginn. Posh-Coming to America heitir hún, ætli það sé sú sama og þú talaðir um?
Knús frá Íslandi!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 29.7.2007 kl. 21:28
Vá, þetta hljómar vel! Bara að ég ætti svona hús á eyju...
Bið að heilsa í veldi Kanada.
Sigurjón, 30.7.2007 kl. 02:31
Já, hljómar rosalega spennandi! En... hver er þessi Helgi? Nú þarftu að segja okkur frá.
Gunnar Kr., 30.7.2007 kl. 18:26
Já hver er Helgi...það er einmitt spurningin. Gurrí, já það er einmitt myndin. Horfðu endilega. Ég segi frá Gambier ferð á morgun. Ætla að fara og sofa núna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.7.2007 kl. 06:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.