Hitti eina af uppáhaldsleikkonunum mínum

Ég hef stundum sagt frá því ef ég hef séð þekkta leikara á ferð í bænum. Það geri ég ekki til að monta mig heldur er það einfaldlega hluti af því sem ég hef gaman af að tala um. Mér finnst gaman að horfa á bíómyndir og góða sjónvarpsþætti og því er alltaf svolítið spennandi þegar maður sér leikara úr uppáhaldssjónvarpsþætti manns, eða úr bíómynd sem maður er hrifinn af. Áður hef ég séð nokkra þekkta kanadíska leikara en einnig fólk eins og Jeremy  Piven úr Entourage og David Eigenberger úr Sex and the City.
 
Á luagardaginn var ég stödd í Horseshoe Bay sem er ferjustaður rétt norðan við Vestur Vancouver. Þarna fara ferjurnar til Nanaimo og Sunshine Coast og vegna þess að svo margir fara þarna í gegn hefur myndast lítið og skemmtilegt þorp þarna niðri við sjóinn. Við Doug (maðurinn hennar Rosemary vinkonu minnar) fórum flotgarður1með tvær hjólbörur fullar af varningi niður á bryggjuna þar sem Bruce, mágur hans, myndi sækja okkur. Við settum dótið okkar niður og fórum með hjólbörurnar til baka. Mér seinkaði aðeins á leiðinni því ég var að reyna að mynda hegra sem hafði flogið undir einn bryggjustólpann, en því  miður var of dimmt þar til þess að ég næði almennilegri mynd. Ég keyrði hjólbörurnar upp brattasta hluta bryggjunnar og var næstum því komin að hliðinu sem skilur að fastabryggjuna og flotbryggjuna þegar maður nokkur ávarpaði mig. Hann hafði verið að horfa á lítinn blómagarð sem svo undarlega vill til að er á litlum flotpalli fyrir framan það sem virðist vera fljótandi húsprammi. Þetta sést vel á meðfylgjandi mynd. Hann spurði mig hvort ég vissi hver ætti heima þarna. Ég vissi það auðvitað ekki svo ég afsakaði mig og hélt áfram þangað sem hjólbörurnar eru geymdar. Með manninum var kona sem var kunnugleg en ég var samt ekki alveg viss um að hún væri sú sem ég hélt hún gæti verið. En þegar ég kom að Doug þar sem hann var að læsa sínum hjólbörum við grindverkið spurði ég hann hvort hann vissi hver byggi þarna. Það virtist einhvern veginn rökrétt að spyrja að því fyrst ég hafði ekki vitað svarið. Doug vissi þetta auðvitað enda búinn að vera með bát þarna síðan hann var smákrakki (eða foreldrar hans). Við löbbuðum til baka að flotbryggjunni og þegar þangað var komið var fólkið þarna ennþá. Svo ég sneri að manninum, benti á Doug og sagði: Hann veit hver býr þarna. Doug fór síðan að segja þeim frá viðkomandi manni og við fjögur enduðum á því að spjalla um þennan mann, um það hversu fallegur garðurinn var og hversu sniðugt það væri að búa svona. Um leið og konan opnaði munninn vissi ég að ágiskun mín hafði verið rétt. Þetta var Janet Wright, fræg kanadísk leikkona sem ég þekki fyrst og fremst úr uppáhaldsþáttunum mínum, Corner Gas. Ég hef að minnsta kosti tvisvar sinnum skrifað um þá þætti enda finnst mér þeir frábærir og þess vegna fannst mér alveg magnað fá að tala við Janet. Hún leikur Emmu, mömmu Brents, og er alveg ótrúlega skemmtileg. Ég hef séð hana í nokkrum öðrum hlutverkum og hún er alltaf góð. Ég efast um að þið kannist við hana en hún hefur þó leikið í yfir fimmtíu sjónvarpsþáttum og bíómyndum, þar á meðal he Perfect Storm með George Clooney, og sjónvarpsþáttum eins og Due South, Dark Angel og Monk

Ég velti því fyrir  mér hvort ég ætti að segja eitthvað um það að ég væri mikill aðdáandi Corner Gas en ákvað svo að gera það ekki. Mér fannst það ástæðulaust. Ég veit ekkert um það hvort hún kærir sig um að hitta aðdáendur þegar hún er í fríi og ég var alveg nógu ánægð með að hafa fengið að spjalla við hana. En sjálfsagt hefði hún bara verið ánægð með að heyra að mér þætti hún og þættirnir hennar skemmtilegir.

Þegar við höfðum kvatt spurði ég Doug hvort hann vissi hver þetta hefði verið og hann kom af fjöllum, enda aldrei horft á Corner Gas. En það var allt í lagi. Ég var nógu ánægð fyrir okkur bæði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég man eftir Janet í The Perfect Storm, en að öðru leyti man ég ekki mikið eftir henni. Dark Angel horfði ég jú á, en man ekki í augnablikinu hvaða hlutverk hún hafi leikið.

Þetta hlýtur að hafa verið skemmtileg upplifun og gaman að heyra frá henni.

Bestu kveðjur frá Akureyri!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 08:28

2 Smámynd: Sigurjón

Mikið öfunda ég þig að geta gert svona hluti í sumarfríinu.

Sigurjón, 31.7.2007 kl. 13:44

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég man eftir þessari leikkonu þó ég geti ekki staðsett nákvæmlega í hvaða hlutverki.  Ég hefði líka brugðist svona við og ekki sagt orð um að ég vissi hver hún væri.  Flott og skemmtilegt ábyggilega að hitta eina af sínum uppáhalds.

Smjúts á þig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.7.2007 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband