Á Gambier eyju
1.8.2007 | 02:02
Ég ætla að skrifa aðeins um ferð mína til Gambier og sýna ykkur myndir.
Þetta var almennt ein afslöppunarhelgi því við gerðum lítið af því sem ég hef gert í fyrri ferðum. Vanalega höfum við synt í sjónum og farið í sólbað niðri á bryggju, og stundum hef ég farið í fjallgöngu, siglt á litlum seglbát eða stokkið af klettunum niður í sjóinn. En að þessu sinni var veðrið ekkert sérlega spennandi. Það var ekki kalt eða leiðinlegt en aðeins of kalt til þess að svamla í sjónum eða liggja fáklæddur á bryggjunni. Ég fór heldur ekki í gönguferð í skóginum, ekki einu sinni að uppáhaldsstaðnum mínum á eynni, vegna þess að nýlega sást fjallaljón á eynni og ég vil alls ekki vera ein á ferð í skóginum ef fjallaljón er einhvers staðar á ferð. Ég er hræddari við fjallaljón en nokkuð annað og hjartað slær hraðar bara við tilhugsunina.
En maður þarf ekki alltaf að vera að gera eitthvað. Við borðuðum góðan mat (Doug grillaði báða daga). Töluðum ótrúlega mikið (Doug og Rosemary urðu svolítið drukkin og kýttu svolítið allan tímann. Það var hrikalega fyndið af því það var allt í góðu). Skruppum í heimsókn til fjölskyldu Dougs (mamma hans, bróðir, systir og mágur voru í kofa þarna nálægt). Þegar Doug fór með ættmenni sín heim (þau eiga bátinn saman þannig að það þarf alltaf að vera að skutla fólki fram og til baka - tekur um 30 mínútur hvora leið) lagði Rosemary sig. Ég ætlaði að lesa málfræði en var með höfuðverk af hreina loftinu (já, það gerir mann stundum þreyttan) svo ég skreið í kojs (í orðsins fyllstu merkingu - barnaherbergið hefur kojur) og steinsvaf. Veitti greinilega ekkert af því.
Bústaðurinn er mjög skemmtilegur og maður getur ekki treyst á öll nútíma þægindi eins og maður er orðinn vanur. Reyndar er rafmagn í bústaðnum en það gengur fyrir sólarorku þannig að maður þarf að spara það það sama má segja um vatnið. Engar vatnsleiðslur liggja í eyjuna þannig að það er fyrst og fremst regnvatn sem er notað. Því er sturtað niður í klósettinu eins lítið og hægt er og í staðinn er útikomar notaður yfir daginn. Þegar mamma og pabbi komu með í heimsókn á Gambier fyrir þremur árum sáum við Rosemary og pabbi slöngu einn daginn. Við ákváðum að segja mömmu ekki frá því fyrr en við værum komin heim, þá loksins fékk hún að vita af því því að það væru slöngur á Gambier. Hún þakkaði sínum sæla að hafa ekki vitað af þessu fyrr því hún sagðist aldrei hefðu þorað á kamarinn ef hún hefði vitað af slöngunum. Við vissum greinilega hvað við vorum að gera.
Hápunkturinn var þegar Rosemary dró fram Nizza með rúsínum sem hún hafði keypt á Íslandi. Og af því að það er uppáhaldið mitt fékk ég að borða það alveg ein. Jamm jamm.
Þegar við vorum í heimsókn hjá mömmu og systkinum Dougs kom dádýr niður að bústaðnum. Bruce og Michael höfðu verið að hreinsa tré og söguðu nokkrar greinar af því. Þeir hentu því svo á jörðina og dádýrið kom að borða. Því virtist alveg sama þótt ég væri að taka myndir af því og ég gat farið alveg ótrúlega nálægt. Líklega er það vegna þess að enginn virðist trufla það á eynni, svo það hræðist ekki fólk. Reyndar höfðu engin dádýr sést á svæðinu allt sumarið sem er að öllum líkindum vegna þess að ofar á eynni hafa vegaframkvæmdir verið á fullu, og þar að auki hafa nokkrir hundar verið á svæðinu. Dádýrin koma helst ekki nálægt hundunum. En alla vega, það var gaman að fylgjast með því.
Á sunnudagskvöldið var tunglið fullt og skýin sem höfðu hulið sólina allan daginn voru horfin. Það var alveg dásamlegt að sitja úti á palli um kvöldið og horfa á fullt tunglið og skipin sigla fram hjá.
Veðrið var ekki mjög gott á sunnudeginum eins og ég minntist á en á mánudeginum hlýnaði töluvert og sólin fór að skína. Nágrannar komu yfir í kaffi og við sátum úti á palli í sólinni, en tiltölulega köldum vindi. Ég endaði á að fara í flíspeysu. Það breytti því hins vegar ekki að sólin var sterk og af því mér var svolítið kalt hugsaði ég ekki út í það að ég þyrfti sólarvörn. Brann því svolítið í andlitinu þannig að nú er ég svolítið köflótt í framan (brann á nefi, enni og kinnum en er ljósari annars staðar) með sár á nefinu. Hrikalega flott.
Þið getið séð fleiri myndir úr ferðinni hér: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.