Ultimate og fleiri íþróttir

Ég spilaði tvo ultimate leiki í kvöld eins og öll fimmtudagskvöld. Reglulega vertíðin er búin og umspil hafið. Fyrri leikurinn var alveg hundleiðinlegur. Ekki af því að við töpuðum, við erum vön því, heldur vegna þess að liðið sem við lékum gegn spilar alveg ótrúlega leiðinlegan leik. Það byggir allt upp á besta leikmanninum sem getur kastað disknum alveg ótrúlega langt. Næstum því hvert einasta stig sem þau fengu var þannig að hann kastaði disknum inn í endamark og þau gripu hann þar. Það var aldrei leikið upp völlinn og þetta þýðir líka að helmingurinn af liðinu hafði sama og ekkert að gera. Það eina sem við gátum gert til að taka á móti var að spila eins leik en okkur finnst það svo leiðinlegt að við vildum ekki gera það. Við reyndum því að spila almennileg kerfi en því miður virkaði það ekki alveg nógu vel.

Seinni leikurinn var miklu skemmtilegri. Þar spiluðum við sigurliðið úr hinum leik  kvöldsins sem er nokkuð jafnt okkur að geta. Þau unnu okkur síðast þegar við spiluðum og þau spila mjög skemmtilega og eru að auki mjög skemmtilegir karakterar. Á tímabili var spilað þannig að í hvert skipti sem einhver greip diskinn gat hann kallað 'skjaldbaka' og þá áttu allir að henda sér á bakið, veifa öllum öngum, og hegða sér eins og skjaldbaka á hvolfi. Ferlega fyndið. Svona á að spila. Maður á að hafa gaman af þessu. Við unnum þann leik með tveggja stiga mun en þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Liðin voru ótrúlega jöfn. Það tók líka langan tíma að spila. Vanalega er spilað upp í 12 en að þessu sinni hættum við þegar staðan var 5-3 því að það var að koma myrkur.

Moskíturnar voru alveg ótrúlega skæðar og þeim var alveg sama um flugnaspreyið sem ég hafði úðað yfir mig. Ég fékk samt bit út um allt. Og þær voru eins stórar og fuglar, eða næstum því.

Þetta var síðasti leikur Brads sem er að flytja til Ontario þar sem hann mun hefja læknisnám í haust. Kærastan hans, Erin, fer með honum og við missum því tvo leikmenn núna. Mo flutti til Austurríkis fyrir tveimur vikum, Angie er á ferðalagi um Evrópu og Kelly og Jason eru báðir meiddir. Liðið er því farið að þynnast all nokkuð. Það eru hins vegar aðeins tvær vikur eftir af vertíðinni þannig að það ætti ekki að koma of mikið að sök. En það eykur auðvitað líkurnar á tapi því við erum nú ekki sérlega góð.

Um næstu helgi mun ég spila í fjörumótinu í fótbolta og uppúr því ættu almennar fótboltaæfingar að hefjast aftur. Það er bara mánuður þar til vetrarboltinn hefst.

Á laugardaginn mun ég líklega fara í fjallgöngu og ganga á ljónin hér fyrir ofan borgina. Ljónin eru tveir áberandi tindar fyrir ofan Norður Vancouver og það er eftir þeim sem brúin yfir í Norður Van er kölluð Lions Gate bridge, og eftir brúnni er nefnt kvikmyndafyrirtækið Lions Gate, sem framleiðir fjöldann allan af kvikmyndum.

Set inn mynd af ljónunum. Síðar get ég svo bent á tindinn (veit ekki á hvorn við göngum) og sagt: Sjáið tindinn, þarna fór ég... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband