Um hættuleg villidýr
3.8.2007 | 17:14
Það er margt gott hér í Kanada og sumt jafnvel betra en heima á Íslandi, en það er líka ýmislegt sem Íslendingar geta verið þakklátir fyrir að vera lausir við. Eitt af því er auðvitað skordýrafánan sem ég hef bloggað um reglulega, en við það má líka bæta stærri kvikindum úr dýraríkinu. Stóru dýrin eru yfirleitt falleg og það er ofsalega spennandi að sjá björn eða úlf í sínu náttúrulega umhverfi en því má aldrei gleyma að þetta eru rándýr og þótt árásir á menn séu ekki algengar þá gerist það samt sem áður allt of oft.
Í dag var grein í blaðinu um mann sem bjargaði 12 ára dreng úr kjafti fjallaljóns, rétt hjá Clinton, BC. Drengurinn hafði verið á leið á kamarinn þegar ljónið stökk á hann aftanfrá og henti honum til og frá. Þegar maðurinn kom að hafði ljónið bitið í höfuð drengsins og hafði báðar framloppurnar á kinnum hans. Maðurinn réðst á ljónið, greip það hálstaki og náði að losa um grip þess á drengnum. Þeir veltust svo um og þegar báðir voru komnir á fætur þá urraði maðurinn og gargaði að ljóninu sem taldi það vissara að aðhafast ekkert frekar. Stuttu seinna var ljónið skotið til dauða.
Þetta gerist aðeins nokkrum dögum eftir að úlfur réðst á mann uppi í Bella Bella, ekkert ógurlega langt frá þorpinu þar sem ég hef dvalið við rannsóknir tvö síðustu ár. Það er enn sjaldgæfara að úlfar ráðist á menn og hér eru víst sjö ár síðan það gerðist síðast. Það hefur reyndar eitthvað verið um að úlfar bíti menn en ekki hefur verið um alvarlegar árásir að ræða. Í þessu tilfelli fyrir nokkrum dögum var um að ræða 31 árs gamlan kajakræðara sem var sem betur fer sterkur og í góðu líkamlegu ástandi þannig að hann náði að yfirbuga úlfinn með því að draga hann með sér að kajak sínum þar sem hann gat gripið hníf og drepið úlfinn. Úlfar eru með fallegustu skepnum sem ég hef nokkurn tímann séð og mér hefur alltaf verið sagt að maður þyrfti ekki að óttast þá því þeir réðust yfirleitt ekki á menn. Ég veit ekki hvað var að hjá þessum úlfi en við krufningu kom í ljós að hann hafði ekki borðað mikið í langan tíma. Hann var líklega svona hrikalega svangur.
Birnir eru önnur falleg dýr og ég hef alltaf orðið mjög spennt í hvert sinn sem ég hef séð björn í sínu náttúrulega umhverfi. En ég hef alltaf verið annað hvort í öruggri fjarlægð eða inni í bíl. Ég hef aldrei staðið augliti til auglits við björn, sem betur fer. Á hverju ári koma upp nokkur tilfelli um árásar bjarna á menn í Kanada og stundum valda þær dauða.
Ég hef í raun aldrei verið í hættu því ég hef aldrei verið ein á ferð á þeim slóðum sem þessi dýr halda sig. Ég fer aldrei í fjallgöngur ein, ekki í útilegu og er almennt ekkert ein á ferðinni nema í öryggi borgarinnar. En hversu öruggur getur maður verið. Í tilfelli litla tólf ára gamla drengsins var hann með fólki en brá sér frá þeim til þess að fara á klósettið. Maður hefur nú gert annað eins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:20 | Facebook
Athugasemdir
Þessi dýr eru bara falleg og ógna mér ekki neitt. Það gera köngulær hins vegar. Mikið af þeim þarna hjá þér? (skelfingarkarl)
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.8.2007 kl. 18:33
Ég verð nú ekki meira vör við köngulær en bara heima á Íslandi, nema þær eru líklegri til að bíta mig. Ég held ég hafi aldrei verið bitin af íslenskri könguló. Hins vegar veit ég til þess að svarta ekkan býr á sumum stöðum í Kanada, meðal annars í kringum Klettafjöllin. Bæði í Okanagan dalnum í BC og í suður Alberta.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.8.2007 kl. 19:32
Gerum við skepnurnar bara ekki það sem er okkur eðlislægt? Þ.e. þegar svengdin kemur, þá leitum við að fæði? Stundum erum við pirruð (og ég hef séð pirruð dýr ) og stundum glöð. Ég er í miklu öryggi frá hættulegum dýrum hérna á Akureyri, nema ef vera skyldi einhverjir stjórnmálamenn!
En án gríns, þá finnst mér auðvitað leiðinlegt að heyra af svona árás, gleðilegt að drengurinn bjargaðist ... en hefði verið hægt að gefa ljóninu að borða og sleppa því svo á öðrum stað? (notabene: þetta er ekki mín hjartans trú endilega, ég er bara að velta því fyrir mér hvort þetta sé það sama og með hundinn minn gamla sem ég þurfti að láta svæfa vegna þess að hann var farinn að bíta og sýna einkenni smá veilu ... og dýralæknirinn sagði hreinlega að þetta væri það skynsamlegasta í stöðunni) Drepum við þessi dýr í hefndarskyni eða af einhverjum öðrum ástæðum?
Bestu kveðjur frá Akureyri,
þar sem kanínur spígspora um allan kjarnaskóg!
D.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 3.8.2007 kl. 20:04
Það er almenn regla að dýr sem hafa ráðist á menn eru skotin. Það er ekki gert í hefndarskyni heldur vegna þess að talið er að dýr sem ræðst á fólk einu sinni muni gera það aftur. Það er ekki hægt að gefa dýrinu að borða því þá lærir það að það geti fengið mat hjá fólki og mun sækja í fólk. Hér eru t.d. ströng lög gegn því að gefa villtum dýrum af nokkru tagi mat, einmitt vegna þess að þá gætu dýrin farið að sækja í fólk í von um matarbita. Þetta er mjög mikilvægt á tjaldstæðum og slíkum stöðum. Ef birnir komast í nestið manns (sbr. Yogi björn) þá munu þeir halda áfram að koma. Þetta er því flókin staða.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.8.2007 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.