Um upphitunarhljómsveitir
4.8.2007 | 07:09
Upphitunarhljómsveitir eru í þeirri stöðu að fá tækifæri til að spila fyrir framan fjöldann allan af fólki sem annars myndi aldrei heyra í þeim, en á sama tíma er hljómsveitin ekkert endilega velkomin því allir eru að bíða eftir aðalnúmeri kvöldsins, og margir vilja því helst losna við upphitunarhljómsveitina af sviðinu sem fyrst.
Ég athuga vanalega hver á að hita upp þegar ég fer á tónleika og ef mér líst ekkert á hljómsveitina mæti ég ekki fyrr en um það leytið sem aðalhljómsveitin á að byrja að spila. Mér skilst að ástæðan fyrir upphitunarhljómsveitinni sé sú að hún á að koma manni í stuð áður en aðalnúmerið byrjar, en vanalega líður svo langur tími frá því að upphitunarhljómsveitin lýkur sínu prógrammi og þar til aðalnúmerið byrjar að maður er löngu búinn að missa stuðið, ef maður komst í það á annað borð. Mér hefur því aldrei almennilega fundist þetta atriði virka og vildi því fremur borga örlítið minna fyrir miðann minn og fá bara eitt atriði á kvöldi. Í þessi tvö skipti sem ég hef séð McCartney á tónleikum hefur hann, t.d., ekki haft neitt upphitunarband en var þó með undarlegt sirkusatriði í fyrra skiptið og kvikmyndasýningu í það síðari. En af því að engu þurfti að breyta á sviðinu á milli atriða þýddi það líka að Paul byrjaði að spila um leið og upphitunaratriðunum lauk.
Það hefur þó komið fyrir að ég ég hef séð frábær bönd eða söngvara hita upp fyrir tónleika. Ég sá t.d. Joe Cocker hita upp fyrir The Guess Who, og Bonnie Raitt hitaði upp fyrir Rolling Stones. Þá sá ég líka Theory of a Dead Man hita upp fyrir Default nokkrum vikum eftir að ToaDM komust á topp kanadíska vinsældarlistans í fyrsta sinn. Það var eiginlega jafn skemmtilegt að sjá ToaDM eins og Default.
En Default kynntu líka fyrir mér annað magnað band, Greenwheel. Í það skiptið fór ég á tónleika með Default í Fargo, Norður Dakota, sem er í um fjögurra klukkutíma keyrslu frá Winnipeg. Við Tim keyrðum þangað niðureftir seinni part dags og keyrðum aftur heim eftir tónleikana. Það var reyndar mjög erfitt því við vorum ekki komin heim fyrr en um þrjú eða fjögur um morguninn. Alla vega, þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Default á tónleikum og í raun þekkti ég bara eitt lag með þeim, Wasting my time, sem þá var geysilega mikið spilað í kanadísku útvarpi. Ég efast um að það lagi hafi náð til Íslands en það er eiginlega synd því Default er glettilega góð hljómsveit.
Tónleikarnir hófust og ungir strákar komu fram á sviðið og byrjuðu umsvifalaust að spila rock alternative af bestu sort. Ég stóð í þvögunni fyrir framan sviðið og hreyfði mig í takt við tónlistina. Þetta var svolítið í stíl við Creed og Nickelback en það var allt í lagi, frábærar hljómsveitir báðar tvær. Ég hafði aldrei heyrt neitt þessa laga en þau gripu mig gjörsamlega og ég var alveg í skýjunum yfir þessum tónleikum, en þeir spiluðu samt ekki Wasting my time. Svo kom að því að þeir þökkuðu fyrir sig og það var þá sem ég varð svolítið ringluð. Þeir þökkuðu nefnilega áheyrendum fyrir að taka svona vel á móti bandi sem þeir hefðu aldrei heyrt minnst á áður! Það var þá sem ég fattaði að þetta var alls ekki Default (enda var klukkan ekki orðin mjög margt). Í staðinn var þetta hljómsveitin Greenwheel, ungir strákar frá Missouri, USA. Í ljós kom að þeir voru nýbúnir að fá samning við Island records og von var á fyrstu breiðskífu þeirra hjá Island nokkrum vikum síðar. Þeir höfðu hins vegar lítinn fjögurra laga disk til sölu sem ég keypti hjá þeim. Ég spjallaði líka aðeins við tvo þeirra (söngvarann Ryan sem er í miðjunni á myndinni hér til vinstri, og bassaleikarann Brandon sem er annar frá hægri) eftir að þeir voru búnir að spila og fékk áritað plakat hjá þeim. Stuttu seinna þegar ég fór inn á veitingahúsið sem var samliggjandi við tónleikasalinn (Tim sat þar og las, hafði ekki nennt á tónleikana með mér) sá ég hljómsveitarstrákana á næsta bás við Tim og þeir brostu til mín og veifuðu. Þegar diskurinn þeirra kom svo út keypti ég hann umsvifalaust og spilaði mikið. Ég var sannfærð um að þeir ættu eftir að verða frægir. Það var bara eitthvað við tónlistina sem mér fannst svo magnað. Ég hafði reyndar ekki rétt fyrir mér. Þeir eru enn starfandi en hafa ekki náð að rísa upp sem stjörnur. En nýlega dró ég diskinn fram aftur og hef spilað hann stanslaust í nokkra daga. Mér finnst þetta einfaldlega mögnuð plata.
Við þetta má bæta að eftir að leiðindargaur sem var upphitunarband númer tvö hafði lokið sínu prógrammi stigu strákarnir í Default loks á svið og voru alveg frábærir. Og þeir spiluðu Wasting my time sem gerði mig ákaflega ánægða. Ég hef síðan þá keypt alla vega tvær plötur þeirra og myndi því í framtíðinni geta greint á milli Default og Greenwheel.
P.S. Ég setti lagið Breathe með Greenwheel í spilarann hér til hægri. Þetta lag hefur verið endurútgefið af Melissu Etheridge og mér skilst að tónleikagestir komi stundum að strákunum í Greenwheel og spyrji af hverju þeir séu að spila lag með Etheridge. Ég reyndi líka að setja inn lögin Shelter og Strong en það er alveg sama hvað ég reyni, þau hlaðast ekki inn á spilarann. Þessi spilari er virkilega viðkvæmur.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:16 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristín,
Þakka þér fyrir ath.semd við bloggið mitt. Ég er nýbyrjaður og er smátt og smátt að læra á þetta. Ég hef kannski ekki svo miklar áhyggjur af málinu okkar, nema ef vera skyldi af framburðinum og þá sérstaklega hjá misgóðu fjölmiðlafólki sem kannski aðrir taka sér til fyrirmyndar.Það verður að gera þær kröfur til þeirra sem daglega standa frammi fyrir þjóðinni að þeir kunni nú svona nokkurn veginn sitt mál, þrátt fyrir tímapressu og "dead lines".Kannski er öllu verra að þeir skilja einfaldlega ekki innihald þeirra orða og setninga sem þeir láta fjúka út í loftið.Þekkt fjölmiðlakona af góðum ættum sagði t.d. um daginn í kvöldfréttum: Páll Einarsson var gestur hádegisviðtalsins fyrr í dag............... . Þarna er verið að persónugera hádegisviðtalið sem greinilega lifir og dregur lífsandann og hefur burði til að bjóða fólki til sín. Svo eru þessir fallegu díalektar (málýskur) á hröðu undanhaldi en í staðinn má greina t.d. vestmanneysku, keflísku, hafnfirsku o.s.fr. Það er undarlegur andskoti að hver kynlóðin af annarri getur ekki lært að nota orð eins og uppgötva en segir í staðinn: uppgögva og heldur í orðskrípið alla ævi. Í staðinn má nú segja að alltaf koma einhver nýyrði sem festast í málinu og eiga það fyllilega skilið. Ég held jafnvel að það félagslega skipti hér máli á Íslandi, vegna veðurfars, fólk er meira einangrað hér en í heitari löndum og heldur sig meira innandyra og í sínu málumhverfi, í staðinn fyrir að blanda frekar geði við annað fólk og kannski þroskast enn frekar í málnotkun sinni. Ég hef búið erlendis á þriðja tug ára af minni fullorðinsævi vegna listabröltsins í mér og kannski hefur það hjálpað mér að halda í íslenskuna mína og ég er stoltur af dætrum mínum sem eru meira eða minna aldar upp erlendis að gera hið sama.
Bestu kv. frá málara sem hefur breytt kaffi í fullgilda málningu, vinnur á hvolfi og snertir aldrei flötinn sem hann vinnur á hverju sinni.
Bergur Thorberg
Bergur Thorberg, 4.8.2007 kl. 07:55
Sæl Kristín.
Þetta var skemmtileg lesning.
Ég og mínir félagar í Gildrunni höfum verið svo heppnir að hita upp fyrir nokkrar frægar hljómsveitir sem hafa heimsótt Ísland.
Uriah Heep, Nazareth, Jetrhro tull. Status Quo. Það var bara gaman.
Bestu kveðjur frá Kakka Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 5.8.2007 kl. 00:18
Heyrðu, ég sá ykkur einmitt hita upp fyrir Status Quo. Ég hafði í raun ekkert heyrt í Gildrunni áður en fannst þið bara alveg ótrúlega góðir. Eftir öll þessi ár get ég því þakkað ykkur fyrir. Mögnuð bönd annars sem þú nefnir. Ég er svo sem ekkert sérlega hrifin af Nazareth an Uriah Heep (sérstaklega Come away Melinda, Sunrise) og Jethro Tull (bókstaflega allt með þeim) eru frábærar hljómsveitir. Og Status Quo þykkja mér augljóslega magnaðir fyrst ég fór á tónleikana þeirra. Það voru fyrstu svona alvöru tónleikarnir mínir. Þ
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.8.2007 kl. 03:13
Ég hef líka oft verið að velta þessu fyrir mér með upphitunarhljómsveitirnar. Stundum eru þær góðar, en oftast er þessi óútskýranlega bið á milli síðasta lags upphitunarhljómsveitarinnar og fyrsta lags aðalhljómsveitarinnar dálítið niðurdrepandi.
Þegar ég fór á Muse hér á Íslandi, þá minnir mig að Mínus hafi átt að hita upp. Ég er enginn sérstakur aðdáandi þeirra þannig að við félagarnir fengum okkur að borða á Aski, mættum um níu-leytið á tónleikana (sem byrjuðu með upphitun klukkan átta) og svo leið smá tími og flottustu tónleikar byrjuðu dálitlu seinna. Upptendraður og í stuði keyrði ég svo heim norður um nóttina ... þetta var gaman.
Hvað ætli sé að gerast þegar biðin eftir hljómsveitinni er svona löng? Það virðist allt vera tilbúið hvað varðar sándtjekk og hljóðfæri uppsett og allt það ... en eitthvað er það ...
Gleðilegar verslunarmannahelgarkveðjur til þín!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.