En hvað létust margir Írakar?

Hvað létust margir Írakar? Af hverju er alltaf verið að segja okkur frá því hvað margir Bandaríkjamenn látast í Írak en aldrei minnst á hversu marka saklausa (og seka) Íraka Bandaríkjamenn drepa? Þótt Saddam Hussein hafi gert margt slæmt á sinni æfi þá má ekki setja alla Íraka undir sama hatt og mér þykir líf saklausra borgara alveg jafnmikilvægt (og mikilvægara) en bandarískra hermanna sem flestir eru í þessu stríði af fúsum og frjálsum vilja. Það er jú ekki herskylda lengur í Bandaríkjunum. Íslensk blöð ættu að sjá sóma sinn í því að draga ekki taum annars aðilans.
mbl.is Fjórir bandarískir hermenn látnir í Írak um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var einmitt að blogga um þetta sama um daginn hjá mér ... mér finnst þetta svo sorglegt að lesa í íslenskum miðlum - eins og það sé verið að forðast að nefna hitt.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 18:34

2 Smámynd: Jens Guð

  Þessi fyrirsögn sýnir glöggt hvar hjarta fréttamannsins liggur.  Honum er sama um þá hundruð þúsunda Íraka sem hafa verið drepnir eða særðir.  En hann fær greinilega sting í hjartað þegar bandóðurískir dátar falla í hildarleiknum. 

  Vandamál margra ungra Kana er að vegna fátæktar hafa þeir ekki möguleika á að mennta sig nema með því að ganga í herinn. 

  Margir sakamenn eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði eftir að þeir hafa afplánað dóma.  Herinn tekur þeim aftur á móti opnum örmum.  150.000 dæmdir sakamenn leika sér núna sem hermenn í Írak og Afganistan. 

Jens Guð, 5.8.2007 kl. 18:43

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir þetta. Mesta skömm og niðurlæging íslensku þjóðarinnar er tengd þessu hræðilega stríði. Þeir sem á því báru alla ábyrgð gegna best launuðu tignarstöðum í samfélagi okkar.

Hverjum einasta Íslendingi heima og heiman stafar bein lífshætta af þessari ákvörðun. Sú ógn stafar frá grimmustu og ofstækisfyllstu hryðjuverkasamtökum sem vitað er um. Hver tekur á sig ábyrgðina ef illa fer?

Og hvað skuldum við samfélagi Íraka ef illvirki unnin þar í okkar nafni yrðu metin til verðs? 

Árni Gunnarsson, 5.8.2007 kl. 18:46

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Svo skrítið sem það er þá hefur dauðsföllum af völdum ofbeldis í Írak heldur fækkað síðan í tíð Saddams Hussein.  Þetta segi ég ekki til að bera blak af ástandinu eins og það er í dag heldur til að benda á að þá var þöggunin og ofbeldið ennþá meira.  En auðvitað var það miklu betra fyrir okkur öll því þá vissum við ekkert um það og höfðum ekki áhyggur af því.

Einar Þór Strand, 5.8.2007 kl. 18:54

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Einar, jafnvel þótt það sé rétt hjá þér að ofbeldið sé minna í Írak núna en það var áður, finnst þér það samt rétt að íslenskir fjölmiðlar skuli hafa sérstaka frétt um það að fjórir bandarískir hermenn hafi látist en ekki minnast á hversu margir Írakar hafi látist? Doddi, Jens og Árni, takk fyrir athugasemdirnar. Jens, þú hefur alveg rétt fyrir þér að herinn er besta lausnin fyrir suma Bandaríkjamenn og Árni, alveg sammála. Það var algjör skömm fyrir íslensku þjóðina þegar tveir ráðherra okkar lýstu yfir stuðningi við stríðið fyrir hönd okkar hinna. ég hef aldrei skammast mín eins mikið í bíó eins og þegar ég fór að sjá Farenheit 9/11 og nafn Íslands birtist með stórum stöfum á skjánum sem eitt hinna viljugu ríkja. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.8.2007 kl. 19:06

6 identicon

Langflestir Írakar sem falla, falla fyrir hendi annara Íraka.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 19:45

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það  gæti vel verið rétt já þér Stefán en Bandaríkjamenn drepa samt fleiri Íraka en Írakar drepa Bandaríkjamenn. Og þarf af leiðandi held ég að upphaflega færslan hjá mér eigi samt fullkomlega rétt á sér.  

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.8.2007 kl. 19:51

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Einar Strand og Stefán Örn. Ég velti því fyrir mér hvað stjórnmálaflokk þið styðjið: Þó er það auðvitað öllum ljóst.

Hún er dálítið undarleg sú hvöt sem knýr ykkur til andsvara.

Innrásin í Írak og afleiðingar hennar fyrir það samfélag er ÖLLU samfélagi þjóða mikið áhyggjuefni. Bush forseti Bandaríkjanna er talinn einn mesti óhappamaður samtíðarinnar, jafnvel í eigin landi.

Það er vissulega rannsóknarefni hvers vegna þið félagarnir hafið ekki komið þessum merku upplýsingum til skila á alþjóðavettvangi.

"Þessi ákvörðun var rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir"

Þetta er einhver snautlegasta afsökun sem ég minnist að hafa séð á langri ævi. Mest fyrir það að HÚN ER ÓSÖNN og þess vegna ómerkileg.

Árni Gunnarsson, 5.8.2007 kl. 20:25

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Árni

Það sem hvetur mig til andsvara er sú að í augum svo margra er það dygð að leyfa harðstjórum að fara sínu fram óáreittum.  Heimurinn er fullur af stjórnmálamönnum sem eru fyrst og fremst í vinsældarleit en þora ekki að taka á málum.  Ég er ekki með þessu að styðja stefnu USA í Írak en að benda á að þó ástandi sé slæmt núna þá var það verra fyrir.  Auðvitað er vandamálið þarna að atvinnu ofbeldismönnum var gefinn tími til að koma sér fyrir í landinu í 10 ár frá 1991, þessir atvinnu glæpamenn nota síðan Islam til að réttlæta það sem þeir eru að gera, enda er það þekkt úr sögunni að satistar nota oft trú til að réttlæta gjörðir sínar.  En þeir sem eru verstir í eru þeir sem vilja ekki standa uppí hárinu á þessum mönnum, fólk sem er segist vera hlutlaust.  Ef þjóðir heims hefðu árið 1991 klárað dæmið og tekið Sadam strax væri málið ekki orðið svona en viðskiptahagsmunir Kína komu í veg fyrir það.

Hvað það varðar að við Íslendinar fórum á lista hinna viljugu þjóða þá var það auðvitað bull þar sem við gátum ekkert lagt fram til baráttunnar.

Við skulum líka muna að flestir íbúar Írak eru mjög friðsamt fólk en þar eru örugglega milli 100 og 200 þúsund sem trúa að ofbeldi sé það sem maður á að lifa fyrir, ekki skulum við heldur gleyma að í Bandarískahernum eru menn sem trúa því sama því miður.

En meðan við tölum í jákvæðum tón um ofbeldismennina sem þarna eru og mælum þeim bót þá er ekki von til þess að hinn venjulegi Íraki fái að njóta friðar og velsældar.

Svo er varðandi upplýsingarnar og hvers vegna þær eru ekki uppi á borðinu þá er best að byrja á að skoða hvað henntar að segja fólkinu og hvað selur fjölmiðla, fjölmiðlum henntar að þegja yfir þessu vegna þess að það selur að segja frá "baráttu" í Írak og með því að flytja þannig fréttir þá kynda þeir undir stríðinu sem kemur þeim vel mjög vel því það skapar fréttir sem við gleypum yfir.

Sannleikurinn er sá Árni að Sadam Hussen lét myrða heilu íþróttaliðin ef þeim gekk ekki nógu vel, ég hef einhvern veginn það á tilfinningunni að þú sért einn þeirra manna sem gagnrýni lögregluna ef hún tekur mann án þess að skoða hvað gerðist.

Einar Þór Strand, 5.8.2007 kl. 21:38

10 Smámynd: Björn Heiðdal

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn styður er bara heilbrigð grisjun.  Eins og allir vita þá er mannkynið alltof fjölmennt.  Besta ráðið  er stríð og drepsóttir.  Stefna Sjálfstæðisflokksins er skynsöm og réttlát.  Ég vil þakka öllum sem studdu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum án ykkur væri heimurinn öllu friðsamari og leiðinlegri.

Björn Heiðdal, 5.8.2007 kl. 22:12

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Innrásin í Írak hafði ekki þann tilgang að losa þjóðina við harðstjóra. Svo langt sem ég man hafa borist fréttir af þjóðhöfðingjum sem hafa stunda fjöldamorð og ofbeldisglæpi á eigin þjóð. BNA þurfti að komast yfir olíuauð Írak og nýtti sér handhægasta yfirvarp.

Engum ætla ég að banna að trúa því að Guð hafi skipað G.W.Bush að ráðast inn í Írak en sjálfum finnst mér það afar ótrúlegt. Það er jafnframt líka vafasamt að trúa því að vesturlandabúar hafi stöðu til að berja eigin menningu inn í árþúsunda gamlan menningarheim.

En ef þér líður betur Einar með þá trú að ástandið í Bagdad sé betra en á dögum Saddams Husseins þá raskar það ekki minni ró.

Ég tek mér allan rétt til biturra ásakana á hendur þeim mönnum sem með heimskulegum og ábyrgðarlausum yfirlýsingum hafa gefið landamæralausum samtökum sturlaðra hryðjuverkamanna veiðieyfi á börn mín og sifjalið.

Ályktunum þínum um minn samfélagslega þroska og í því samhengi viðhorf mín til löggæslumanna læt ég ósvarað.

Árni Gunnarsson, 5.8.2007 kl. 22:16

12 Smámynd: Jens Guð

  Það er rétt að í næstum áratugastríði Íraka við Írani féllu fleiri Írakar en hafa verið drepnir á síðustu 4 árum í Írak.  Ágætt er að rifja upp að Bandóðuríkin studdu innrás Íraka í Íran.  Sáu þeim meðal annars fyrir vopnum,  gerfihnattaljósmyndum af Írak o.s.frv.

  Jafnframt er ágætt að rifja upp að þáverandi ráðamenn í Bandaríkjunum sáu Írönum sömuleiðis fyrir vopnum í þessu stríði undir borði.  Annarsvegar til að passa upp á pattstöðu í stríðinu.  Hinsvegar til að fjármagna hryðjuverk í Nicaragua.  Þetta gerðu Reagan og eldri Bush þvert á bandarísk lög og samþykktir þings.

  Ég man ekki eftir að Saddam hafi látið myrða heilu íþróttaliðin.  Þó má það vera.  Hinsvegar man ég eftir að sonur hans lét híða fótboltalið sem tapaði.  Saddam svipti soninn völdum í kjölfarið og gerði hann útlægan til einhverra ára. 

  Annars er ég ekkert að gráta örlög Saddams,  sem lengi var kjölturakki og besti vinur Bandaríkjanna í þessum heimshluta.  Ennþá síður græt ég örlög umrædds sonar hans,  sem klárlega var geðveikur. 

  Innrás Bandaríkjanna snérist ekkert um að koma Saddam frá vegna harðstjórnar hans.  Hann naut stuðnings Bandaríkjanna á meðan harðstjórn hans var sem grimmust. 

  Innrásin snérist bara um aðgang að olíuauðlindum Íraka.   

Jens Guð, 5.8.2007 kl. 23:01

13 Smámynd: Jens Guð

 "Auðvitað er vandamálið þarna að atvinnu ofbeldismönnum var gefinn tími til að koma sér fyrir í landinu í 10 ár frá 1991, þessir atvinnu glæpamenn nota síðan Islam til að réttlæta það sem þeir eru að gera, enda er það þekkt úr sögunni að satistar nota oft trú til að réttlæta gjörðir sínar."

  Ég átta mig ekki á,  Einar,  hvað þú ert að fara með þessari kenningu.  Hún er ekki í samræmi við raunveruleikann.  Saddam hélt islamistum niðri.  Hann var skilgreindur heiðingi af islamistum. 

  Samkvæmt nýrri samantekt Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna,  byggðri á samhljóða 16 leyniþjónusta og annarra sem hafa yfir upplýsingum um ástandið að ráða,  stafaði heimsbyggðinni engin hætta af Írökum fyrir innrásina.  Hinsvegar hefur Al-Qaeda eftir innrásina náð svo sterkri stöðu í Írak að Al-Qaeda er öflugrií dag en fyrir innrásina.  Meira að segja öflugri en fyrir innrásina í Afganistan.   

Jens Guð, 5.8.2007 kl. 23:11

14 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  skiptir það máli hvort að fleiri Írakar eru drepnir af öðrum Írökum eða Bandaríkjamönnum,  Bretum eða hryðjuverkamönnum frá Saudi-Arabíu?

  Málið er að borgarastyrjöldin í Írak er alfarið á ábyrgð innrásarhersins.  Öllu stjórnkerfi landsins var rústað.  Þarna ríkir vargöld vegna þess.  Súnníar eru minnihluti í landinu.  Þeir fóru með völd undir forystu Saddams.  Núna leika Sítar - sem eru í meirihluta -  lausum hala við að hefna þess sem á þá hallaði.  Kúrdar eru líka í hefndaraðgerðum.  Þarna ríkir bara upplausn og stjórnleysi.  Hvorki Bandaríkin né aðrir ráða neitt við neitt.   

  Sömu stofnanir sem mæla með sömu aðferðum að 200.000 manns hafi verið drepnir í Darfur fá þá niðurstöðu að 600.000 hafi fallið í Írak.  Milljónir hafa særst og aðrar milljónir eru flottamenn.  Þar af hálf milljón í brýnni neyð. 

  En Saddam er dauður.  Það munar öllu. 

Jens Guð, 5.8.2007 kl. 23:23

15 Smámynd: Einar Þór Strand

Jens

Eftir 1991 streymdu atvinnuhreyðjuverkammenn til Írak (ég kalla þá ekki Islamista vegna þess að þeir hafa ekkert með trú að gera nema til að fela sig) og Saddam lét þá í friði og þeir hann vegna þeirra einföldu ástæðu að óvinur óvina minna er bandamaður minn hefði Saddam verið komið frá völdum 1991 hefði það gerst með miklu friðsamlegri hætti að öllum líkindum en það verður auðvitað ekki sannað frekar en annað ef og hefði.

Varðandi stríðið við Iran þá er hægt að selppa mannfallinu þar og samt hefur Saddam og synir hans vinninginn ár fyrir ár ekki uppsafnað.

Síðan spyr ég ykkur hvort það hafi ekki verði rangt af fyrst Bretum og síðan Bandaríkjamönnum og Sofvétríkjunum að fara í stríð við "mannvininn" Hitler.

Stríð eru aldrei fögur og á að forðast en það er samt þannig að til að ljúka þeim þarf einbeitni og það þarf að ljúka þeim ekki fara í miðju kafi því það skapar bara hættu á auknu ofbeldi.

En meðan ekki er tekið á stæðsta vandamálinu sem steðjar að mannkyni þá verða stríð því miður.  Þetta vandamál er offjölgun mannkyns sem er núna um 6,6 milljarðar sem er sennilega 3 - 3,5 milljarði of mikið en það má ekki tala um það, kannski að hitnun jarðar bæði loftslags og ofbeldisleg hafi eitthvað með það að gera?

Einar Þór Strand, 5.8.2007 kl. 23:43

16 Smámynd: Jens Guð

  Ég þarf að fá fekari fréttir af þessum atvinnuhryðjuverkamönnum sem söfnuðust til Íraks um og upp úr 1991.  Upplýsingar um þá koma hvergi fram í þeim gögnum sem ég fletti upp á.  Þvert á móti er ítrekað tekið fram í gögnum sem m.a. Öryggisþjóðarráð Bandaríkjanna,  breska leyniþjónustan MIG og ísraelska leyniþjónustan hafa upplýsingar um að Saddam Hussein hafi forðast öll samskipti við islamiska hryðjuverkamenn.  Enda,  eins og áður segir,  skilgreindu íslamistar hann sem heiðingja. 

   það er verið að deila um keisarans skegg að togast á um fórnarlömb ógnarstjórnar Saddams og fórnarlömb innrásar Bandóðuríkjanna 2003.  Hvort að stjórn Saddams drap 15.000 Kúrda með bandarískum eiturefnavopnum eða nákvæmlega hvert ferlið var/er.

  Eftir stendur að innrás Bandóðuríkjanna í Írak var/er stríðglæpur.  Um það eru jarðarbúar sammála.  Og í dag 71% bandaríkjamanna.  

  Það er bara aumkunarver að reyna að réttlæta stírðsglæpi.  Tilvísun í seinni heimsstyrjöldina er útúrsnúnigur.  Að sjálfsögðu var rétt af mannkyni að rísa- upp gegn Hitler og félögum.   Á sama hátt er ástæða til að rísa upp gegn Brúski,  böðlinum frá Texas.  Stríðsglæpamanni blóðugum upp að öxlum. 

Jens Guð, 6.8.2007 kl. 03:10

17 Smámynd: Björn Heiðdal

Jens Guð siglir í Strand.  Sumir verða að átta sig á að margar moggablog persónur eru grínpersónur sem eru stofnaður til að vera með létt og skemmtilegt grín.  Grínið gengur út á að fá fólk sem skrifar undir réttu nafni og telur sig hafa eitthvað til málanna að leggja til að svara einhverju algjöru bulli.

Jens fellur í þessa grifju þegar hann svarar herra allt í Strand.  Hér er augljóslega vel heppnuð grínpersóna á ferð sem kann að bulla.  Fullyrðingar eins og ástandið er betra núna en í tíð Saddams fá vel flesta til að æsa sig og mótmæla.  Ekki dytti Jens í hug að mótmæla með rökum einhverjum sem héldi því fram að heitt væri kalt og svart hvítt.  

Síðan endar herra allt í Strand á orðunum að offjölgun mannkyns sé stærsta vandamálið og ekkert sé verið að gera í því.  Stríð séu bein afleiðing af offjölgun.  Hér er náttúrlega tær snilld á ferð sem jafnast á við Seinfeld og Ragnar Reykás.  Stríð eru náttúrlega besta leiðin til að leysa þetta fjölmenna vandamál.

Björn Heiðdal, 6.8.2007 kl. 09:40

18 identicon

Ég er alveg inni á línu Jens í þessu. Ef Björn Heiðdal fer með rétt mál, og herra Strand er bara "grínpersóna", þá finnst mér það mjög alvarlegt mál! Hvaða tilgangi þjónar svona grín? Hvernig er hægt að segja að hér sé tær snilld á ferð, þegar verið er að grínast með jafn alvarlegt mál? Ef ég stofnaði blogg þar sem ég væri notandinn "Obboslega fyndinn" og sem slíkur myndi ég segja að Hitler hafi verið mannvinur og hans stefna sannleikurinn ... væri ég þá fyndinn?

Þetta er ljótur húmor, ef satt reynist! Sá/sú sem stendur á bak við Strand ætti þá að sjá sóma sinn í því að skammast sín. "Létt og skemmtilegt grín"???? Ertu virkilega að meina þetta, Björn??

Og varðandi stríðið og innrásina í Írak ... við getum þakkað alheimslöggunni Bandaríkjunum fyrir það, ásamt kjölturökkunum sem fylgdu þeim að verki. Innrásin var undir fölskum forsendum, og allar afsakanir/útskýringar Bush falla flatar fyrir þeirri staðreynd, að hann hefur blóð saklausra borgara á sínum herðum, og hann hefur komið heiminum í þessa stöðu.  Það er margt sem ég elska við Bandaríkin, en stjórnmál eru ekki þess á meðal ... Kyoto sáttmálinn, losun gróðarhúsalofttegunda, alþjóða glæpadómstóllinn ... svo virðist sem Bandaríkin séu í eigin heimi varðandi lögguleik, og fylgja ekki því sem meirihluta þjóða heimsins vill.

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 12:01

19 Smámynd: Jens Guð

  Ég hélt að Strand væri virðulegt ættarnafn.

Jens Guð, 6.8.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband