Gengið á ljónin
5.8.2007 | 20:17
Í gær var mikill göngudagur þar sem ég gekk á ljónin svokölluðu (The lions) sem tilheyra Cypress bowl þjóðgarðinum hér í Bresku Kólumbíu. Forsagan var sú að Kathy sem spilar ultimate með mér spurði í leiknum á fimmtudaginn hvort einhver hefði áhuga á að ganga ljónin. Hún ætlaði að gera það ásamt Liesl vinkonu sinni frá Vancouver eyju sem var í heimsókn. Ég sagðist umsvifalaust hafa áhuga og sagðist ætla að tala líka við Línu Héðins, sem er nýflutt hingað út ásamt kærasta sínum, og er algjör útivistarfrík. Lína sagði já, enda Alex uppi á jökli einhvers staðar, svo við vorum fjórar sem lögðum af stað frá Vancouver klukkan átta í gærmorgun.
Við lögðum af stað frá Lions Bay þorpinu þar sem eingöngu búa ríkisbubbar (miðað við húsin), á mínútunni níu. Við þurftum fyrst að labba sirka kílómetra eftir gömlum malarvegi en svo tók skógarstígurinn við með tilheyrandi brölti yfir fallin tré, grjót, lækjarsprænur og þvíumlíkt. Það voru engar mýrar að fara eins og á Súlum, þetta varð bratt frá upphafi. En mikið rosalega var leiðin fallegt. Þarna var nóg að taka myndir af, hvort sem voru tré, blóm, grjót, ber, fjöll, sjór, ský...
Eftir þriggja tíma príl uppá við og sára fætur vorum við komin upp á svolitla hillu sem við töldum vera hnakkinn svokallaða (the saddle). Planið var frá upphafi að ganga ekki á tindinn enda hann brattur og hættulegur og ekki fyrir lofthrædda. Við settumst því niður ásamt nokkrum öðrum sem voru þarna líka á göngu, borðuðum svolítið og reyndum um leið að veifa frá okkur flugunum sem voru alls staðar. Þetta voru bæði moskítur, svartflugur og eitthvað annað sem ég ekki kann skil á. Ég tók myndir af ljónunum sjálfum sem loks voru sýnileg (þótt ég hafi reyndar komist að því síðar að það var bara vesturljónið sem við sjáum þarna. Austurljónið var hulið þar á bakvið), af útsýninu, af Kathy og Liesl að reyna að borða um leið og þær veifa flugunum á burtu, af Línu með ljónið í baksýn (Lína og ljónið - mér finnst það hljóma eins og titill á barnabók). Kathy og Liesl fóru að tala við aðra göngugarpa og komust að því að við vorum alls ekki komin upp á hnakkinn. Það var alla vega um 30 mínútna ganga eftir.
Fæturnir kvörtuðu mikið yfir því að halda áfram göngunni enda var búið að segja þeim að við værum komin eins langt og við færum. En hálftímagangur er ekki svo mikið. Nema hvað það var alls ekki rétt. Það tók okkur alla vega klukkutíma að komast upp á hinn eiginlega hnakk. Og þessi efsti hluti var ekki auðveldur. VIð þurftum að ganga yfir snjóbreiður, upp lækjarsprænu (já við gengum meira og minna í læknum því það var engin önnur leið auðveld), yfir kletta... erfitt en skemmtilegt.
Við komumst loks upp og var launað með útsýni niður til Vancouver og yfir austurljónið. Við borðuðum aðeins meira og hvíldum lúin bein því niðurferð er aldrei góð þegar læravöðvarnir eru þreyttir. Lína og ég höfum báðar slæm hné og það er því alltaf erfiðara að ganga niður fjöll en upp þau. Við fórum okkur hægt enda var það nauðsynlegt. Sérstaklega efsta hlutann þar sem þurfti að ganga niður snjóbreiður, kletta og læki. Ég var sú eina í almennilegum gönguskóm fyrir þennan hlutann. Gönguskór Línu gripu ekki alltaf nóg í og hinar stelpurnar voru á strigaskóm. Ég fór því fyrst, sérstaklega yfir snjóinn, og reyndi að búa til almennileg fótsport til þess að auðvelda gönguna fyrir þær hinar. Þetta gekk allt saman og við fórum okkur hægt og stoppuðum þegar við þurftum. Hnén héldu lengst af og þegar við komumst yfir mesta prílið hélt ég að ég væri sloppin. En neðsti hlutinn var erfiðari en ég hafði búist við. Bæði var hann nú brattari en eins var það að ég var orðin þreytt og vöðvarnir héldu því ekki eins vel í og fyrr. Mig fór því að verkja meir og meir í hnén, ekki bara það hægra sem er verra, heldur einnig vinstra hnéð. Tærnar voru líka alveg í kremju enda búnar að soðna bókstaflega í gönguskónum allan daginn. Þar að auki var ég bæði sólbrunnin og bitin af moskítum og svartflugum (black fly). Ég fékk reyndar bara eitt svartflugnabit (sem bíta í alvöru, stinga ekki eins og moskítan), en Lína fékk nokkur. Það voru blóðtaumar niður ökklana á henni. Moskíturnar létu hana hins vegar í friði. Liesl var ekkert bitin en át alla vega fjórar flugur. Þær voru eins og mývargar þarna uppi, í augunum á manni, nefinu og munninum. Algjör plága. Kathy slapp með eitt svartflugnabit.
Mikið var gott að koma í bílinn. Við keyrðum reyndar beint á lítinn sölustað og fengum okkur kælingu, skruppum á klósettið og slöppuðum af fyrir keyrsluna heim. Við vorum auðvitaðar klístraðar af svita og ekki mjög kræsilegar. Það sýnir hvað mikið við svitnuðum að ég, sem alltaf þarf á klósettið á tveggja tíma fresti, fór á klósettið klukkan hálf átta um morguninn og ekki aftur fyrr en klukkan sex um kvöldið. Ég hef aldrei áður lifað af svona lengi án þess að pissa. Vökvinn fór greinilega allur út um svitaholurnar. Og nú er ég búin að segja of mikið.
Í dag er ég útbitin og þreytt og mig verkjar í lærisvöðvana. En sem betur fer báru hnén engan varanlegan skaða og eru þokkaleg í dag. Stundum bólgna þau upp eftir svona fjallgöngur og þá get ég varla gengið á eftir, en kannski er ég að styrkjast. Ég er ánægð með ferðina.
Ég tók alveg helling af myndum og þið getið séð þær hérna: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/
Athugasemdir
Skemmtileg ferðasaga og frábærar myndir. Kanada hefur alltaf heillað mig, úr fjarlægð, en ekki komist þangað ennþá.
Þröstur Unnar, 5.8.2007 kl. 20:47
Takk kærlega. Þú skalt endilega skella þér til Kanada. Hér er margt frábært að sjá. Og best er að komast í fjöllin hér á vesturströndinni. Gallinn er að íslensku flugfélögin fljúga eingöngu í borgirnar í austrinu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.8.2007 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.