Vinna vinna vinna

Ég var að enda við að horfa á Supernova. Er búin að horfa síðustu þrjár fjórar vikurnar og hef bara nokkuð gaman af. Ég hef aldrei hlustað mikið á Á móti sól enda ekki hægt að kaupa plöturnar þeirra hér í Kanada og ég kaupi bara örfáar plötur þegar ég fer heim, en Magni er nú bara nokkuð góður. Af því að ég er nú hálfgerður Kanadamaður núna held ég líka með Lúkasi en ég hef líka býsna gaman af Toby. Mér finst Dilana mjög góð söngkona en hún gerði svo sem ekkert sérstakt í kvöld.

En ég ætlaði ekki að eyða kvöldinu í að rugla um sjónvarpið. Ég ætti auðvitað að segja ykkur frá ferðinni norður til Kispiox en ég er of þreytt í kvöld enda búin að vinna meira og minna í allan dag, svo ég geri það seinna. 

Ég er að vinna að doktorsritgerðinni minni. Ég var búin að setja það markmið að hafa tilbúið uppkast að einum kaflanum áður en skólinn byrjaði og ég er enn að vona að ég geti náð því markmiði. Í mun eiga fund með Hotze á föstudaginn og því vil ég senda honum núna það sem ég er búin að skrifa til að fá athugasemdir til baka. Eftir það mun ég hafa um eina og hálfa viku áður en skóli hefst á ný. Sem sagt, tíminn að renna út.

En ég get aldrei setið við í marga klukkutíma þannig að ég tók nokkrar pásur. Í morgun talaði ég við Sverri í síma í nokkra stund og svo kom Marion og við fórum og klifruðum. Hvorug okkar hefur klifrað mikið í sumar svo við vorum nú ekki mjög góðar en við verðum bara að komast aftur í gott horf. Seinni partinn bakaði ég eplakrömp úr eplunum í garðinum mínum og í kvöld talaði ég heillengi við Martin. En þess á milli skrifaði ég, lagaði og breytti ritgerðinni. Ritstjórnarþátturinn er alltaf stór og það leiðinlegasta við svona vinnu. Það er miklu skemmtilegra að hugsa um vandamálin og finna lausnir.

Ég var annars að hlusta á fréttir og það var verið að segja frá enn einni fjallaljónaárásinni. Eins og kettir eru nú fallegir og skemmtilegir þá eru stóru frændur þeirra hættulegir. Þessi réðst á lítinn fjögurra ára dreng en sem betur fer var pabbi hans þar og náði hann að hrekja köttin á burtu. Árásir fjallaljóna á fólk eru ekki algengar en gerast þó af og til. Fyrst og fremst eru það börn sem eru í hættu, en þeir hafa líka ráðist á fullorðna og jafnvel drepið þá. Já, Íslendingar eru nú heppnir að refir skuli vera stærstu villtu rándýrin í landinu.

Seinna segi ég ykkur frá Kispiox og björnunum sem ég sá þar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband