Ótrúlegt...

...að þeim skyldi líka við íslenska matinn. Ég hélt alltaf að þetta væri svona matur sem maður yrði að borða frá blautu barnsbeini til þess að geta látið ofan í sig. Mér finnst reyndar margt alveg dásamlegt í íslenskri matargerðarlist. Það er t.d. fátt eins gott eins og soðin lifrapylsa með svolitlum syktri og kartöflustöppu. Íslensk kjötsúpa er frábær og saltkjöt náttúrulega magnað. Mér þykir meira að segja hákarl algjör sælgæti, hefur alltaf fundist það. En það er líka margt hræðilega bragðvont eins og flestur þorramatur (allur súrmatur) og svo bölvuð skatan.

Annars sverja mamma og pabbi og sárt við leggja að þeim þyki skata í alvörunni vera góð. Ég held því fram að þau séu að ljúga að mér. Sjálf snerti ég ekki á henni. Vil helst ekki vera í húsinu  þegar hún er borðuð. Fyrir nokkrum árum fór þáverandi kærasti minn, kanadískur, með mér til Íslands um jólin og ég var mikið búin að lýsa fyrir honum þessum fiski sem köttur hefur pissað á. Hann var alveg harðákveðinn í að prófa en kveið nú samt svolítið fyrir. Mamma hefur alltaf skötuna daginn fyrir Þorláksmessu og svindlar svolítið þannig. Það er til þess að vera laus við lyktina úr húsinu fyrir jólin (mig hryllir við tilhugsunina). Soðinn var hellingur af fiski enda komu bræður mínir og fjölskyldur þeirra í mat. Pantaðar voru pizzur fyrir þá sem ekki vildu skötuna og pizzuliðið borðaði inni í stofu með kyrfilega lokað inn í eldhús þar sem skatan réð ríkjum. Það var margbúið að segja Tim að hann þyrfti ekki að borða skötuna en hann þráaðist við. Fannst hann gæti ekki verið á Íslandi um jól og ekki borðað skötu.

Eftir nokkurn tíma kom mamma inn í pizzustofuna og tilkynnti að Tim væri búinn að fá sér aftur á diskinn. Mér létti mikið enda benti til þess að honum þætti  maturinn góður og að þetta væri sem sagt engin pína fyrir hann. Að mat loknum spurði ég hann því hvort honum hafi þótt þetta svona gott. "Nei", sagði hann. "Þetta var það ógeðslegasta sem ég hef nokkurn tímann borðað." "En af hverju fékkstu þér þá aftur á diskinn?" spurði ég. "Nú, allir hinir fengu sér tvisvar og ég gat nú ekki verið minni maður." Svo mörg voru þau orð.  

 


mbl.is Undarlegur matur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband