Á leið til Oregon
9.8.2007 | 04:01
Í dag keypti ég miða til Portland, Oregon. Ég mun fara niðreftir á sjötugsafmæli móður minnar, 17. ágúst. Fyrst fer ég með rútu niður til Seattle og skipti svo yfir í lest til Portland. Þetta er rúmlega átta tíma ferð með almenningssamgöngum, sem er um tveimur tímum meira en að keyra þetta á bíl.
Það fer lest á milli Vancouver og Seattle tvisvar á dag. Lestin fer á morgnana til Vancouver og á kvöldin til Seattle. Það þýðir að kanarnir geta komið hingað í dagsferð en Kanadamenn þurfa að gista í Bandaríkjunum. Þetta þýðir líka að ég get engan veginn tekið lest alla leið til Portland því ég hefði þurft að ná lest til Seattle um morguninn og til Vancouver um kvöldið. Asnalegt.
Þetta mun kosta tæpa áttatíu US dollara, sem er hvað, um tæpar fimm þúsund krónur. Það er svo sem ekki slæmt. Það hefði kostað mun meira að fljúga. Rútuparturinn verður reyndar leiðinlegur en ég hlakka til lestarferðarinnar. Ég elska lestir.
Ég get sem sagt ekki verið í afmæli mömmu en ég get alla vega borðað kvöldmat hjá ættingjum í Oregon.
Vildi að ég þekkti klifrara þarna niðurfrá. Það eru frábærir klifurstaðir í Oregon fylki, þar á meðal Smith Rock sem ég hef komið til áður. Kannski ég finni bara sal og skreppi þangað í staðinn.
Klifrið hefur reyndar gengið ágætlega að undanförnum. Ég hef lítið klifrað með reipi en þeim mun meira boulderað. Mér finnst það skemmtilegra. Þegar ég hef farið undanfarið hef ég mikið rekist á sömu strákana sem hafa hjálpað mér alveg helling og kennt mér ýmislegt. Það er líka gott að hafa góðan félagsskap þegar ég klifra. Verst er að þessir strákar eru flestir á þrítugsaldri og ég er ekki viss um að ég sé nógu mikill cougar til að notfæra mér það
Athugasemdir
Hvað er cougar? Tækifærissinni?
Berglind Steinsdóttir, 9.8.2007 kl. 07:32
Á eðaldóttur sem á afmæli 17. ágúst. Flottur dagur. Góða ferð mín kæra. Tækifærissinni hvað?
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.8.2007 kl. 13:41
Aha, Berglind. Nei, cougar er eldri kona sem eltist við sér yngri karlmenn. Sumir hafa skilgreininguna mjög víða þannig að það sé nóg að konan sé töluvert eldri, og Demi Moore er cougar undir þeirri skilgreiningu. Og reyndar svo margar aðrar konur. Aðrir skilgreina cougar þannig að eldri konan stundi skemmtistaðina í leit að sér yngri mönnum. Samkvæmt þeim klæðir hún sig líka á mjög ögrandi hátt, oft í fötum með hlébarðamunstri, og hefur svokallað 'big hair', sem ég held að hafi aldrei fengið íslenska þýðingu. 'Stórt hár' gengur ekki og 'mikið hár' nær ekki merkingunni. Þetta orð er fyrst og fremst notað hér í Kanada en hefur þó verið að ná víðari notkun. T.d. er verið að sýna sjónvarpsþátt núna í Bandaríkjunum, í stíl við bachelorinn, þar sem karl á fertugsaldri á að velja á milli kvenna á þrítugsaldri og kvenna á fimmtugsaldri. Þar eru yngri konurnar kallaðar 'kittens' en hinar eldri 'cougars'. Kannski þetta nái fljótt almennri notkun. Á íslensku gengur varla að kalla svona konur 'fjallaljón'.... en kannski 'ljónynja'.
Jenný, já 17. ágúst er góður dagur og gott fólk sem fæðist þann dag. Hehe, taktu eftir að þeir sem fæðast þá eru ljón!!!!
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.8.2007 kl. 15:20
Kæra Kristín, mikið áttu gott að vera á ferð til Oregon. Ég fékk einu sinni tækifæri til að kynnast mönnum frá þessu merkilega fylki. Þeir voru hér á vegum Rotaryhreyfingarinnar. Þeir heimsóttu alla rótarýklúbba hérlendis. Ég og annar ágætur rótarýfélagi ókum þessum ágætu gestum um nágrannasveitir Borgarness á fögrum sumardegi. Þeir sögðu okkur, að Oregon státaði eins og Ísland af mörgum vatnsmiklum ám og fagurri náttúru. Vonandi áttu góða daga þar vestra. Með kveðju frá Siglufirði, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 9.8.2007 kl. 21:38
En uppsett hár, Stína, fyrir „big hair“? Kannski frekar uppstrílað hár, hehhe?
Er cougar eins konar barnaræningi? Þarf konan að „eltast við“ yngri menn eða nægir að konan sé e.t.v. 15 árum eldri til að vera cougar? Púma, hmm, kom fram í þýðingavél. Hvernig er karlkyns cougar á ensku?
Berglind Steinsdóttir, 10.8.2007 kl. 23:09
Mér skilst að konan þurfi að eltast við yngri menn...að það sé ekki nóg að hún sé með yngri manni ef hann er sá eini yngri sem hún er með. En það virðast ekki allir sammála um það. Jú, púma er annað orð fyrir fjallaljón en það er auðvitað tökuorð. Karlkyns cougar fær ekkert heiti því öllum virðist finnast það eðlilegt að gamlir karlar eltist við ungar stelpur. Alltaf sami tvískinnungurinn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.8.2007 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.