Godsmack voru alveg magnaðir
14.8.2007 | 00:33
Tónleikarnir voru hreint út sagt frábærir.
Það var reyndar svolítið vesen að komast þangað. Ég var búin að reikna út vandlega hvenær ég yrði að leggja af stað til að komast á svæðið á þokkalegum tíma og ferðamátinn innihélt strætó, lest og annan strætó. Fyrsti strætó var á réttum tíma og ég náði lestinni sem ég þurfti að ná (gat meira að segja gripið mat á hlaupum þar sem ég hafði ekki haft tíma til að borða kvöldmat eftir fótboltann). Ég var því mætt á síðustu strætóstöðina hálftíma áður en Godsmack átti að stíga á svið. Það tekur ekki nema um tíu mínútur að keyra niður götuna þannig að þetta átti að vera fínt. Nema hvað strætó kom ekki. Eitthvað hefur gerst og þessi tiltekna ferð verið felld niður því ég talaði við unglingsstráka sem einnig voru á leið á tónleikana og þeir voru mættir á stöðina tíu mínútum áður en von var á strætó þannig að vagninn gat ekki verið á undan áætlun. Næsti vagn þar á eftir var líka seinn þannig að í stað þess að ná strætó fimm mínútur yfir hálf átta kom hann ekki fyrr en á slaginu átta. Þá áttu Godsmack að byrja að spila.
Ég spjallaði við þessa ungu stráka í vagninum og þeir sögðu mér að PNE forum, þar sem tónleikarnir voru, væri besti tónleikastaður borgarinnar. Hljómgæðin væru hreinlega frábær og ef maður stæði á gólfinu þá titruðu í manni hljóðhimnurnar. Þeir voru sirka sextán og þeim fannst þetta mikilvægt. Ég er hins vegar orðin svo gömul að tilhugsunin um að hljóðhimnurnar titruðu var ekki svo spennandi. Við komumst loks á svæðið um fimmtán mínútum yfir átta en sem betur fer var hljómsveitin ekki komin á sviðið ennþá þannig að ég gat komið mér aftast í hrúguna. Það var svolítið skrítið að líta í kringum sig því ég var greinilega af allt öðru tagi en megnið af tónleikagestum. Ég var í fyrsta lagi ekki svartklædd. Ég var ekki með svartar neglur eða svartan eyeliner, og ég var aðeins með göt í eyrunum, ekki í nefi, tungu, nafla, geirvörum, vörm, augabrúnum eða öðrum undarlegum stöðum. Flestir virtust vera á þrítugsaldri og karlmenn voru í augljósum meirihluta. Þó voru nokkuð margir karlmenn þarna augljóslega yfir þrítugu og sumir yfir fertugu. Ekki sá ég þó neinn mikið eldri og þarna voru engin börn eins og á svo mörgum tónleikum. Það var heldur ekki mikið um unglinga.
Rétt upp úr hálfníu slöknuðu ljósin í salnum og tónlist kom úr hátölurunum. Um leið var nokkurs konar bíó sett í gang þar sem sýndar voru myndir frá tónleikum Godsmack, bæði áhorfendum og hljómsveitinni á sviði, og einnig voru sýndar myndir úr búningsherberginu. Um leið og myndinni lauk hóf Shannon Larkin að berja húðirnar og bandið skellti sér í The Enemy. Krafturinn var ógurlegur og strákarnir höfðu ekki verið að grínast. Hljóðhimnurnar titruðu og það sem meira var, ég held að barkakýlið hafi hoppað upp og niður. Það var ekki bara að maður heyrði tónlistina, maður fann hana með öllum skrokknum. Eftir The Enemy skelltu þeir sér beint í Livin in Sin, annað stórkostleg lag af nýju plötunni. Ég þekkti ekki þriðja lagið enda hef ég ekki heyrt allar plöturnar með Godsmack en ég notaði tækifærið til að hlaupa á klósettið enda hafði ég ekki nennt að bíða í biðröð áður en þeir komu á sviðið. Ég ákvað svo að sætta mig við það að ég væri orðin gömul og löt og tölti upp á pallana við hliðina og settist niður. Reyndar varð ég svo þreytt þá, enda nýbúin að spila tvo fótboltaleiki í sandi, að ég varð að drekka flatt kók (ekki boðið upp á annað) til þess að vekja mig upp. Og nei, það þýðir ekki að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, þvert á móti, ég var bara svona hrikalega þreytt.
Godsmack hélt áfram á fullu og tók sér enga pásu, þótt reyndar hafi þrír meðlimir getað slappað af aðeins á meðan við fengum langt gítarsóló frá Tony Rambola sem er geggjaður gítaristi. Það var almennt alveg rosalega skemmtilegt að fylgjast með Larkin á trommunum. Hann var stundum eins og í transi og ég hef sjaldan séð trommara eins flottan. Ég veit ekkert hvort hann er góður enda veit ég lítið um tónlist þótt ég hafi gaman af að hlusta á hana, en það er víst ábyggilegt að það er skemmtilegt að fylgjast með honum. Hann henti trommukjuðunum til og frá og greip þá aftur án þess að missa slag.
Flottasta atriði tónleikanna tengdist líka trommum og er víst hluti af hverjum Godsmack tónleikum. Það var alveg magnað. Larkin sat og trommaði á settinu sínu sem allt í einu flaut fram sviðið. Rétt á eftir opnaðist veggur á bak við hann og út kom söngvarinn Sully Erna á öðru setti. Um stund spiluðu þeir þannig að Larkin barði trommurnar en Erna (ekki Erna mágkona) spilaði á bongó trommur. En síðan var báðum trommusettum snúið þannig að trommararnir tveir sneru hvor á móti öðrum og trommuðu. Þetta er nokkurs konar trommueinvígi sem kallast Batalla de los Tambores. Ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af löngum instrumental lögum eða sólóum en þetta var einfaldlega allt of flott. Það var ekki hægt annað að hrífast með, þótt þetta trommuspil hafi tekið heila eilífð. Þeir voru bara svo magnaðir. Um miðjan hluta einvígisins komu stórir stafir á skjáinn að baki þeim þar sem stóð: "Nú er komið að þeim hluta tónleikanna þar sem við syngjum." Við átti greinilega við okkur áhorfendur því þar á eftir kom texti á skjáinn eins og í karaoki og salurinn fór að syngja. Þetta var hreint magnað.
Ég er ekki alveg viss hvort ég myndi segja að þarna hafi hápunktinum verið náð en helsti keppinautur um þann titil er án efa lagið Voodoo. Það er einfaldlega magnað lag og þeir fluttu það svo flott á tónleikunum. Það jók líka á áhrifin að svarhvítar myndir voru sýndar á bakvið. Ef okkur hefði verið sagt að við ættum öll að taka Wicca trú hefðum við líklega gert það. Ætli það sé ekki þannig sem tónlist getur náð tökum á fólki. Ég veit ekki hvað það er við Goth tónlist en hún hefur hreinlega öðruvísi áhrif á mann en önnur tónlist.
Eina sem mér leiddist á tónleikunum var þegar Erna skammaðist yfir þeim sem sátu. Hann var líka fremur orðljótur og notaði f-orðið mikið. Ég hugsaði með mér að hann væri æðislegur þegar hann syngi en hann ætti helst ekki að tala of mikið. Yfirleitt var Erna býsna góður þó og hann talaði mikið við áhorfendur. Hann gerði einnig töluvert af því að láta fólk syngja með, svo sem í lögum eins og Speak og Keep away.
Uppklapp lögin voru tvö en ég þekkti þau ekki. Held ég hafi hugsanlega heyrt annað þeirra en er ekki alveg viss. Ég held að alla vega annað þeirra hafi verið Serenity af Faceless plötunni en það er eina platan með þeim sem ég hef ekki heyrt.
Ég hélt ánægð heim á leið þó það væri nokkuð kalt úti miðað við hitann inni í salnum. Mig langaði reyndar í laukhringi enda hafði ég ekki borðað almennilega síðan um miðjan dag en það var búið að loka A&W þegar ég skipti úr lestinni yfir í strætó svo ég varð að fara svöng heim.
Ég setti tvö Godsmack lög í spilarinn hér á síðunni, annars vegar Voodoo, enda þurfa allir að heyra það lag, og hins vegar The Enemy.
Ef einhver sem les þetta á þess kost að sjá Godsmack á tónleikum skulið þið endilega fara. Þetta trommu einvígi eitt og sér gerir það þess virði, hvort sem maður er Godsmack aðdáandi eða ekki.
Eftir nokkrar vikur koma hingað Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chain. Ég held ég myndi sjá eftir því ef ég færi ekki. Ég verð bara að láta mér nægja ódýrustu miðana í verstu sætunum. En það er yfirleitt allt í lagi. Aðalatriðið er að vera á staðnum.
Athugasemdir
Ég öfunda þig hræðilega mikið en fékk heilmikið út úr því að lesa þessa umsögn um tónleikana, fann stundum meira að segja fyrir kraftinum og hreinlega heyrði Voodoo og merkilegt nokk ég heyrði líka Sick of life af Awake þó þú hafir ekki nefnt það.
krossgata, 14.8.2007 kl. 00:45
Mig dauðlangar á tónleika yfirhöfuð, bara til að sjá live band - alltof langt síðan. Hef ekki heyrt í Godsmack en takk fyrir flotta lýsingu.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 01:57
Doddi, hlustaðu á lagið Voodoo í spilaranum hjá mér. Það er vel þess virði. The Enemy er það reyndar líka.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.8.2007 kl. 03:48
Þetta er ekki svo slæmt, en ekki samt alveg skv. mínum smekk...
Sigurjón, 15.8.2007 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.