Komin til Oregon
18.8.2007 | 15:32
Ég sit nú í gestaherbergi frænku minnar í Lake Osweego, Oregon, lítilli borg í nágrenni Portland. Ég ætlaði að sofa út en vaninn er líklega orðinn sterkur svo ég vaknaði upp klukkan átta eins og flesta daga. Hefði reynt að kúra mig nema ég þurfti að að losa mig við svolítið vatn. Svo í staðinn kveikti ég á tölvunni og komst að því að einhver í nágrenninu er með WiFi tengingu svo ég komst inn á netið. Í stað þess að skrifa meira nú set ég inn það sem ég var að dunda mér við að skrifa í lestinni í gær.
-----------------------
Þessa stundina sit ég í lest á leið frá Seattle, Washington til Portland, Oregon. Ég er búin að vera á ferð í sjö klukkutíma.
Ég varð að taka daginn snemma og vaknaði klukkan sex, kláraði að pakka niður og borðaði morgunverð á meðan ég spjallaði við mömmu á Skypinu. Hún var eldhress þrátt fyrir sjötíu árin og var farin að undirbúa partýið. Klukkan sjö var ég mætt út á strætóstöð og tók vagninn niður að VC Clark þar sem ég skipti yfir í lest yfir að Broadway, skipti yfir í aðra lest niður að Main þar sem aðal umferðamiðstöð borgarinnar er. Þar tók ég svo rútuna niður til Seattle. Klukkan var orðin átta og rútan full þegar lagt var af stað.
Það tók rúman klukkutíma að komast niður að landamærunum og þar urðu allir að fara úr rútunni og fara í gegnum vegabréfa- og tollskoðun. Það gekk alveg ótrúlega hægt og sérstaklega töfðu fyrir hópur unglingsstúlkna og kínverskt part. Þessi sex voru næstum því fimmtán mínútur að fara í gegnum vegabréfaskoðunina og á meðan komst enginn eitt né neitt. Það kom loks að mér og ég var alveg ótrúlega heppin með tollvörð. Hann var nýtekinn við og þetta var pottþétt almennilegast embættismaður Bandaríkjanna sem ég hef nokkurn tímann þurft að eiga við. Hann brosti og hló (sem maður sér næstum því aldrei), spurði mig út í námið og við enduðum á löngum samræðum um stöðu indjánamála í Norður Ameríku á meðan hann skráði inn allar upplýsingar um mig. Ég held hann hafi meira að segja daðrað pínulítið því hann sagði að það væri eitt af því góða við starfið að hann fengi að hitta skemmtilegt og áhugavert fólk. Ég hafði orð á því að hann hitti víst ansi marga á dag og hann svaraði því að það væri rétt en ekki væru allir skemmtilegir! Ég tók þessu að sjálfsögðu sem hóli. Svona eiga landamæraverðir að vera, ekki yfirlætisfullir leiðindarpúkar eins og þeir eru flestir. Ég gæti sagt margar sögur af við ræðum mínum við landamæra- og tollverði.
Við komum loks til Seattle og þar höfðum við klukkutíma áður en lestin legði af stað til Portland. Lestarstöðin er nógu falleg utan frá en er eins og lítið og ljótt vöruhús að innan. Þar að auki er plássið lítið og erfitt að fá nokkrar upplýsingar án þess að fara í langa röð. Ég settist niður og borðaði samlokuna mína. Það minnir mig reyndar á að ég gleymdi að segja frá því hvernig ég óvart smyglaði bannvöru inn í Bandaríkin. Eftir að ég var búin að fá samþykki frá vegabréfaeftirlitin varð ég að fara í gegnum tollskoðun. Tollvörðurinn spurði mig hvort ég væri með ávexti eða nautakjöt. Ég hafði borðað bananann minn áður en kom að landamærunum, enda vissi ég að Bandaríkjamenn eru viðkvæmir fyrir slíku, en ég var hins vegar með samloku með mér sem ég hafði gripið í gær í Safeway (löglega). Ég mundi ekkert hvað var á henni svo ég dró samlokuna upp úr töskunni og í sameiningu komumst við tollvörður að því að ekkert nautakjöt væri á henni. Bara skinka. Þegar ég kom aftur í rútuna var ég orðin svolítið svöng en vildi ekki borða samlokuna mína strax svo ég rótaði í bakpokanum og komst að því, sem ég hafði gleymt, að ég var með stóran poka af beef jerky, sem er þurrkað nautakjöt!!! Hm hm. Ég er sem sagt orðin smyglari. Eins gott að ég var ekki handtekin. Annars hafði ég mestar áhyggjur af klifurkrítinni sem ég var með mér. Fullur poki af hvítu dufti! Ef þeir hefðu bara séð það held ég hefði verið dregin inn í eitthvert herbergi og látin afklæðast!
En ég var í Seattle áður en kom að þessum útúrdúr. Ég sá að fólk fór að raða sér upp mjög snemma, tæpum klukkutíma áður en lestin átti að leggja af stað. Ég vissi ekkert af hverju en datt í hug að þetta hefði eitthvað með sæti að gera. Þegar röðin var orðin virkilega löng fór ég loks og spurði einhvern. Þar var mér sagt að sætin væru ekki númeruð og að fólk væri búið að raða sér upp til þess að ná sem bestum sætum. Mér þykir gott að hafa gluggasæti á slíkum ferðum svo ég skellti mér í röðina, enda gat ég alveg eins beðið þar eins og einhvers staðar annars staðar. Notaði tækifærið til þess að hringja til Akureyrar og tékka á stöðu sjötugsafmælisins. Þar var búið að vera gargandi stuð í allan dag, og þarna um kvöldmatarleytið var bara pása. Von var á fleira fólki um kvöldið. Svona eiga afmæli að vera.
En sem sagt, nú sit ég í lestinni á leið til Seattle og verð að dunda mér eitthvað í fjóra klukkutíma. Ég veit ekkert hvenær ég get sett þessa færslu inn en vonandi verður þess ekki langt að bíða.
---------------------------------
Joanne frænka mín tók á móti mér við lestina og við stoppuðum heima hjá henni (ég fór í sturtu eftir langa ferð) áður en við fórum til Ellenar og Peters í kvöldmat. Við sátum og spjölluðum í nokkra klukkutíma en fórum heim um níu leytið því Ellen og Peter voru orðin þreytt. Þau er bæði 82 ára og orðnir heilmiklir garmar. Ellen þjáist af Pulmunari Fibrosis sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku en þýðir að hún á erfitt með að anda og er í súrefni. Fæturnir á Peter eru orðnir slæmir og hann á erfitt um gang. Þetta gerist víst þegar fólk eldist.
Við Joanne spjölluðum í nokkurn tíma eftir að við komum til baka en fórum líka snemma í háttinn. Ég svaf afskaplega vel og hluta næturinnar með eitt stykki kött undir rúminu. Veit ekki hvenær hann yfirgaf mig.
Í kvöld ætlum við Joanne á djammið að kíkja á stráka. Það er tími til kominn. Orðnir tveir mánuðir síðan við Martin hættum saman og ég hef ekki gert neitt í málinu.
Athugasemdir
Gaman að lesa ferðasöguna hjá þér Stína. Þú klykkir (er það skrifað svona?) út með því að tala eins og tveggja mánaða sambandsleysi sé eitthvað stórmál. Prófaðu 30 ára sambandsleysi!
Skál í boðinu!
Sigurjón, 18.8.2007 kl. 21:51
Heh, ég prófaði það fyrst!!!! Eða sama sem.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.8.2007 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.