Djammið í Portland
20.8.2007 | 05:35
Í gærkvöldi (laugardagskvöld) fór ég á djammið með Joanne frænku minni og ég get sagt ykkur að hún er snillingur í djamminu. Hún hefur allt sem mig vantar (kjark og þor) þegar kemur að þeirri hlið lífsins. Hún húkkaði fyrsta gæjann í bílastæðahúsinu þegar við vorum að leggja. Eftir um einnar mínútu spjall ákvað hún að við ætluðum að fara með honum á pöbb sem við og gerðum. Hittum tvo vini hans sem reyndust vera hjón. Við vorum að vona að vinirnir væru tveir karlmenn. En þá vantaði sko ekki og Joanne óð á milli þeirra, talaði við alla og daðraði eins og henni væri borgað fyrir þetta. Ég held hún sé núna átrúnaðargoðið mitt. Enda hef ég aldrei talað við eins margt fólk á djamminu, hvorki karla né konur (við töluðum nefnilega við nokkur pör og þannig komu konurnar inn í þetta líka). Það komu upp mörg ferlega fyndin atriði. Við fórum fyrst á bar sem hét Henry's og síðan á The Vault og þegar við komum á síðari staðinn rákumst við á stelpu sem við höfðum rekist á nokkrum sinnum á Henry's. Svo við spjölluðum aðeins við hana. Ég sá þá geysilega myndarlegan strák og nefndi það við stelpurnar. Þá sagði nýja vinkona okkar: "Heyrðu, ég skal fara og segja honum að þér finnist hann sætur." Og með það fór hún og mér leið eins og ég væri tólf ára og stakk af inn á klósett. Einhverjum klukkutímum seinna var ég sem oftar í röðinni eftir klósettinu þegar einhver náungi fer að spjalla við mig. Og hvað segir hann: "Heyrðu, heitirðu Kristín?" (Já) "Vinkona þín kom til vinar míns fyrr í kvöld og sagði að þér þætti hann sætur. Hann var í brúnni skyrtu!" Ég sökk niður í jörðina en var enn og aftur bjargað af klósettinu! Ég var í alvöru komin aftur í grunnskóla. Ég sá hvorugan þessa stráka aftur. En það þurfti nú ekki að kvarta yfir karlmannaúrvalinu því Joanne laðaði þá til sín eins og mykja laðar til sín flugur. Og ef ég var ekki alltaf að tala við einhvern fór hún og sótti karlmenn og sagði: "Þú verður endilega að hitta frænku mína frá Íslandi."
En ég verð að segja ykkur frá dásamlegustu tilviljun síðustu ára. Joanne elskar dýr og langar mikið að búa í sveit og hafa dýr. Ég var að stríða henni á að hún þyrfti bara að auglýsa eftir góðum bónda. Þá fengi hún mann og sveitabæ í einu. Fremur stuttu eftir að við komum inn á The Vault sér Joanne mann standa við barinn og horfa á hana. Svo hún gefur honum merki um að koma og setjast hjá sér, sem hann og gerir. Um fimm mínútum inn í samtal þeirra segir hann við hana: "Joanne, hvað er það sem þú vilt?" (og á við svona almennt - út úr lífinu, sambandi, etc) Og Joanna svarar: "Æ, ég held ég vilji bara nokkrar hænur." Og hann svarar: "Og ég á einmitt hænur". Í ljós kom að hann er býsna vel settur vínekrueigandi og á víngerð og ekrur út um alla Oregon. Hann á líka búgarð í Montana þar sem hann er með hænur ásamt öðru. Þvílík tilviljun. Þarna fann Joanne sinn bónda. Þau tvö töluðu saman allt kvöldið og knúsuðu hvort annað svolítið. Hann hringdi svo í dag að láta vita að hann hefði þurft að fara til Eugene en að hann vildi hitta hana aftur. Kannski eitthvað meira eigi að gerast á eftir þeim.
Og rétt eins og við byrjuðum á því að húkka stráka í bílahúsinu endaði strákastandið líka þar. Bruce hænsnabóndi fylgdi okkur að bílnum eins og góðum dreng sæmir og við hittum líka tvo mexíkóska stráka á leiðinni þangað sem enduðu á því að labba með okkur að bílnum líka. Og þar hoppuðum við upp í jeppann hennar Denise, vinkonu Joanne og keyrðum heim. Ég held ég hafi aldrei upplifað annað eins djamm og með henni frænku minni.
Dagurinn í dag var rólegur enda við þreyttar. Við borðuðum síðbúinn hádegisverð með Ellen og Peter og Max, sonur Joanne kom líka í heimsókn. Hann er 22 ára og algjör dúlla. Við þrú fórum síðan aðeins út í sveit á lítinn bændamarkað og fundum meira að segja lítinn bæ þar sem voru hænur, endur, kalkúnn, gæsir og eitthvað fleira. Joanne hafði tekið með sér brauð og varð umsvifalaust umkringd af fiðurfé. Þetta var alveg stórskemmtilegt. Á bændamarkaðinum var líka hægt að kaupa blóm. Þá fór maður sjálfur út með klippur og klippti bara þau blóm sem maður vildi. Það kostaði um 700 krónur að kaupa fulla fötu af blómum. Gott verð og skemmtilegt að gera þetta svona.
Á morgun þarf Joanne að vinna en Max vinnur á veitingahúsi á kvöldin svo hann á frí á daginn. Þannig að við frændsystkinin ætlum að skreppa í Oregon dýragarðinn á morgun og njóta lífsins aðeins. Á þriðjudaginn held ég að ég fari svo og prófi klifurhús í Portland. Ég held að ég stoppi of stutt hérna. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera. Ég verð bara að koma aftur og þá get ég farið aftur á djammið með Joanne. Ég verð hvort eð er að safna kröftum áður en ég get gert það aftur.
Athugasemdir
Mér finnst þetta æðislega sæt saga - þetta með djammið sérstaklega. Því ég kannast við þetta. Auðvitað á maður að heita fullorðinn og geta "spurt" sjálfur og allt það, en ég stóð mig nú að því um daginn að segja við félaga minn: Vá, hvað þessi er sæt! Og við pískruðum eins og skólastrákar (já já, ég veit að ég er trúlofaður, en maður má horfa .... )
En svona hittir maður annað fólk, og kynnist því. Ég vona fyrir þína hönd að annað djamm sé í vændum ... Joanne hljómar eins og frábær djammfélagi.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.