Kanarnir eru fínir þegar þeir eru ekki saman í hóp
20.8.2007 | 23:22
Það er svo merkilegt með kanann að einstaklingarnir eru alveg yndislegt fólk upp til hópa en þegar þeir koma saman, eða þegar þeir eiga að kjósa, þá eru þeir þvílíkir asnar að maður vill ekkert hafa með þá að gera. Ég er búin að vera á stórPortlandsvæðinu síðan á föstudagskvöld og hef ekki mætt neinu nema almennilegheitum og kurteisi. Í dag þurfti ég t.d. að taka strætó frá klifursalnum og heim til Joanne og ég vissi eiginlega ekki hvar ég átti að fara út úr strætónum. Joanne hafði sagt mér að ég færi út við Osweego point og að það væri bíóhús rétt hjá. Ég spurði ökumann strætósins hvort hann vissi hvar Osweego Point væri en hann vissi það ekki. Ég spurði þá útí bíóhúsið og hann mundi eftir einu sem var svona nokkurn veginn á leiðinni. Ég ákvað að láta á það reyna. Allt í einu sé ég skilti þar sem á stendur Foothills Drive, og ég þekkti að það var nafnið á götu Joanne. Svo ég spurði vagnstjórann hvar næsta stoppistöð væri. Hann sagði sirka tveimur götum ofar. Svo ég sagði að þetta hefði einmitt verið gatan. Og jújú, þarna var kvikmyndahúsið. Heldurðu að þessi elska hafi ekki sagt: Heyrðu, við búum bara til stoppistöð hérna. Og svo stöðvaði hann vagninn og hleypti mér út. Þeir gera þetta nú ekki allir vagnstjórarnir.
Dagurinn var annars fremur rólegur. Ég hafði ætlað í dýragarðinn með Max en það var mígandi rigning þegar ég vaknaði þannig að ég fór í verslunarmiðstöð í staðinn. Alltaf gaman að koma í búðirnar sem ekki eru í Kanada, svo sem Victoria's secret, Nordström, JCPenny, Macy's o.s.frv. Þetta var líklega langgáfaðast í rigningu. Um eitt leitið kom Joanne svo og skutlaði mér í klifurhús sem hún hafði fundið á netinu (ég hafði fundið klifurhús og ætlaði þangað en hún fann annað sem var nær. Þarna var eingöngu verið að bouldera sem hentaði mér því það var einmitt það sem ég ætlaði að gera. Salurinn var risastór og boðið var upp á sirka 200 leiðir. Skalinn var kannski örlítið hærri en hjá Cliffhanger. Ég gat klifrað allar V1 leiðirnar en mér fannst V2 erfiðari en ég er vön. Það sem var verst var að veggirnir voru hærri en í Cliffhanger og dýnan undir þynnri. Mér var því alls ekki vel við að fara alla leið upp. Stundum sleppti ég því hreinlega að klára því ef ég dytti af síðasta haldi var fallið nokkuð hátt og auðvelt að snúa ökklann. Það sem gerði þetta enn erfiðara var að af því að leiðirnar enduðu svo hátt varð maður að klifra aftur niður en gat ekki bara stokkið eins og ég er vön. Maður gat því ekki sett allan sinn kraft í að komast upp. Eitthvað varð að vera eftir fyrir niðurleiðina. Í eitt skiptið þar sem ég þurfti mjög hátt til að klára og næstsíðasta hald var mjög slæmt lenti ég í því að þegar ég reyndi að ná aftur næstsíðasta haldinu á niðurleiðinni missti ég takið og datt alla leið niður. Það hafa líklega verið einir þrír metrar og mér fannst ég heppin að lenda rétt. Þess vegna er ég svo hrifin af Cliffhanger. Mér finnst ég öruggari þar. En þetta var auðvitað þrælskemmtilegt og ég klifraði alveg fjölda leiða. Af nógu var að taka. Þetta er hins vegar ekki eins vinalegt og í Cliffhanger því svæðið er svo stórt að maður situr aldrei og horfir á aðra klifra og það var erfiðara að kynnast nokkrum. Allt hefur sína kosti og galla. Ég klifraði m.a. eina leið þarna á klettinum sam hangir úr loftinu. Þá varð maður að byrja á því að hífa sig upp svo maður fái grip fyrir fæturnar. Gott fyrir magavöðvana.
Á leiðinni til baka keypti ég sætabrauð og ætlaði að koma við hjá Ellen og Peter en hringdi þó á undan því ég vildi ekki bara mæta á svæðið ef ske kynni að þau væru að blunda. Þau svöruðu ekki símanum svo ég fór heim til Joanne í staðinn. Vona að Ellen hringi í mig þegar hún fer á fætur og þá get ég rölt uppeftir.
Athugasemdir
Hæ hæ. Var að lesa Moggann um daginn þegar ég sá að vitnað var í blogg frá þér. Gaman að fá fréttir af "gömlum" vinum, við verðum alltaf ungar hvað sem hver segir, Hafðu það alltaf sem best. Annar þorpari.
Margrét A. Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 00:29
Magga mín kæra. Gaman að heyra frá þér. Hvað er að frétta?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.8.2007 kl. 05:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.