Áfrram Magni
30.8.2006 | 07:18
Þótt veruleikasjónvarp sé ekki beinlínis sjónvarp í hæsta klassa þá er því ekki að neita að það getur verið gaman að fylgjast með. Og rétt eins og það er skemmtilegra að horfa á fótbolta þegar maður heldur með öðru liðinu er ólíkt skemmtilegra að horfa á veruleikaþætti þegar manni er ekki sama um það hvernig fer. Þannig er það með Rockstar Supernova. Við verðum að styðja við okkar mann - sérstaklega þar sem hann er alveg stórgóður. Þessi strákur getur sungið hvað sem er og sviðsframkoman er góð. Mér fannst hann standa sig alveg stórkostlega í kvöld sem endra nær en það voru margir aðrir góðir í kvöld. Eiginlega fannst mér Storm sú eina sem ekki var neitt sérstök. Þetta getur farið hvernig sem er.
En svona keppni er að mörgu leyti ósanngjörn. Við vitum að fólk heldur með sínum heimamönnum. Um það er rætt á hverju ári þegar suðurríkjamenn taka sig saman og kjósa American Idol. Munurinn þar er hins vegar að allir eiga sama möguleika á að kjósa á þokkalegum tíma. Hér vestra er kosið eftir tímabeltum. Símakerfið skráir úr hvaða svæðisnúmeri maður hringir og eingöngu er hægt að kjósa í ákveðinn tíma eftir að þætti lýkur á hverju svæði fyrir sig. Því þýðir ekkert fyrir okkur á vesturströndinni að ætla að kjósa þegar búið er að sýna þáttinn á austurströndinni. Íslendingar eru ekki svo heppnir að fá að kjósa á sínum tíma. Mér skilst að heima sé eingöngu hægt að kjósa um miðja nótt sem er auðvitað fáránlegt. Aðeins hörðustu aðdáendur eyða nóttinni í það að kjósa. Þannig að það er alveg ljóst að Magni þarf mikinn stuðning utan íslands til þess að komast í gegn næstu tvær vikurnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.