Garðpartý hjá Sam

Ég fór í nokkuð merkilegt partý í gær - árlega grillveislu hjá náunga sem heitir Sam. Ég þekki hann ekki neitt en hann er vinur Tonyu og Toby sem eru vinir Ryans og Marion. Þannig er þetta partý einmitt. Sam býður vinum sínum og segir þeim að bjóða sínum vinum og þeim vinum sínum... Tvennt gerir þessa veislu ólíka öðrum sem ég hef farið í.

Í fyrsta lagi var svínakjötið grillað í jörðu. Sam hafði sem sagt grafið holu í jörðina, sett þar brennandi viðarkubba og síðan svínakjöt í  járngrind umvafið grænmeti. Síðan mokaði hann yfir og þarna mallaði þetta í marga klukkutíma. Hann var einnig með lambakjöt grillað á venjulegu tunnugrilli. Fólk kom svo með meðlætið, salöt, flögur, kökur...

Í örðu lagi var fólkið þarna ólíkt því fólki sem ég hitti vanalega. Sumir þarna eru miklir áhugamenn um miðaldadót, þið vitið, eins og víkingaliðið sem kemur til Hafnafjarðar á hverju ári. Hér eru mörg slík félög og þessi Sam er í einu slíku(ekki víkingafélagi heldur miðaldafélagi). Ég talaði við nokkra úr þeim félagsskap og þótti náttúrulega stórmerkileg fyrir það eitt að vera Íslendingur. Kannski vegna þess að íslensk sögukennsla hefur undirbúið mann vel undir samræður um landnám og víkinga. Sam vinnur líka sem smiður hjá kvikmyndaverunum hér og ég talaði við nokkra sem hann vinnur með. M.a. hjón sem bæði vinna við kvikmyndir. Hann er smiður og hún sér um að skreyta leikmyndirnar (hengja upp myndir og gluggatjöld o.s.frv.) Þau sögðu að skemmtilegasta myndin sem þau hefðu unnið við hefði verið myndin An unfinished life eftir Lasse Helmström með þeim Robert Redford, Jennifer Lopez, Morgan Freeman og Josh Lucas í aðalhlutverkum. Redfords karakter heitir Einar. Þeim fannst líka merkilegt þegar þau nýlega unnu við mynd með Sissy Spacek í aðalhlutverki. Strákurinn sagðist hafa hugsað: Er hún enn á lífi?

Skemmtilegast var þó að tala við náunga sem heitir Andrew og er gítarsmiður. Hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur árum eða svo og fór að smíða kassagítara. Það sem er kannski merkilegast við þetta er að hann lærði eðlisverkfræði á sínum tíma og áður en hann fór í smíðarnar vann hann í rúm tíu ár við að búa til forrit fyrir ýmis fyrirtæki. Hann fékk hins vegar leið á því og langaði að gera eitthvað allt annað.  Það er ekki oft sem þú hittir þannig fólk - sem hreinlega þorir að breyta svona til og taka áhættu. Hann kunni ekkert að smíða gítar þegar hann tók þessa ákvörðun. Langaði bara að gera það. Frábært. Það minnir mig á stelpu sem ég þekkti þegar ég var á Gamla Garði. Hún var þá í læknanámi. Gerðist síðan læknir, vann við það í nokkur ár og hætti loks og gerðist listamaður. Þetta er fólk sem þorir. Þau eru ekki bara að hætta í einni vinnu og byrja í annarri. Þessi tvö eru búin að eyða mörgum árum í hámenntun, fá svo vel launuð störf með atvinnuöryggi og ákveðinn status, en komast svo að því að kannski er þetta ekki það sem þau vilja gera það sem eftir er ævinnar. Þau eru því tilbúin til þess að hætta fjárhagslega örygginu fyrir listamannslífið sem er þeim meira gefandi en óneitanlega meiri áhætta. Ég hef ekki heyrt nýlega hvernig hefur gengið hjá Margréti, og Andrew segir að ekki sé enn komin nægileg reynsla á fyrirtækið sitt til að vita hvort það muni ganga til framtíðar. Hann er enn að byggja það upp. En ég dáist að svona fólki. Það er eitthvað svo auðvelt að festast í örygginu ef maður öðlast það. Og oft endar fólk á því að vinna allt sitt líf við eitthvað sem því finnst í raun ekkert skemmtilegt, bara af því að það hefur ekki þor, eða getu , til að stefna því öryggi í hættu. Oft er það vegna þess að það er komið með börn og getur því ekki tekið slíka áhættu.  

P.S. Gítarinn á myndinni er smíðaður af Andrew.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Unnar

Er hægt að kaupa gítar af smiðnum?

Ég er ávanafíkill í svona tól.

Þröstur Unnar, 26.8.2007 kl. 17:36

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, hann er með vefsíðu hér: http://www.andrewlarkinguitars.ca/

Þar má finna ýmsar upplýsingur um gítarana, hvernig þeir eru gerðir o.s.frv., M.a. notar hann 'split saddle'. Hann sagði mér líka að hann hefði nokkrum sinnum smíðað gítar eftir pöntun. Þetta virðast vera mjög fallegir gítarar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.8.2007 kl. 17:44

3 Smámynd: Þröstur Unnar

Kærar þakkir Kristín. Alltaf gaman og fróðlegt að lesa bloggið þitt.

Bestu kveðjur frá Akranesi West Iceland .

Þröstur Unnar, 26.8.2007 kl. 17:48

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þarna hefði ég viljað vera. Áhugavert fólk.  Hvernig smakkaðist holusteikin?

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.8.2007 kl. 20:27

5 identicon

Hæ Stína fína!! Þú átt litskrúðugra félagslíf en ég.  Ætlaði í bíó í kvöld, komum kortér í átta og viti menn, svona líka langa biðröðin.  Allt í lagi með það, við spjölluðum bara við vin okkar á meðan.  Svo er komið að mér að kaupa 3 miða, Nei sagði skvísan, bara einn miði eftir. Nú voru góð ráð dýr.  Þetta var í Smárabíó svo við brunuðum yfir í Álfabakka og mættum sorgmæddum múg þar sem uppselt var á þessa mynd, Bourne ultimatum.  Þannig að áður en kl var 21.00 var ég komin í náttbuxur :) Annars allt gott að frétta, farin að hlakka til eftir 2 ár, kemstu þá? Sævar er í hljómsveit sem heitir því skemmtilega nafni Ljótu hálfvitarnir :) spurning hvort þeir haldi ball fyrir okkur þá?! Jæja, best að minna unglingana mína að fara að sofa (þá er ranghvolft í sér augunum og sagt þungt: jájá

Hafðu það rosalega gott.

Hulda Magg (IP-tala skráð) 26.8.2007 kl. 22:23

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Holusteikin var fín...en veistu, ekkert jafnast á við íslenskt grillkjöt - og þá meina ég ekki bara lambið okkar.

Æ æ Hulda. Ég held ég hafi bara ekki upplifað það að komast ekki í bíó síðan ég var á Íslandi. Hér kemst ég alltaf á myndir ef ég ætla mér það. Held það sé vegna þess að stóru  myndirnar eru sýndar svo oft á dag...Harry Potter var held ég sýnd á klukkutíma fresti (eða var það hálftíma fresti).

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.8.2007 kl. 05:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband