Köld nótt og tímaritsgrein
27.8.2007 | 04:58
Það kólnaði ógurlega síðastliðna nótt. Ég vaknaði upp um þrjú leytið og varð að fara í náttföt. Í fyrsta sinn í sumar sem ég hef þurft á því að halda. Vanalega er of heitt til þess að geta verið í slíkum flíkum. Ég þurfti líka að loka glugganum því hann hristist allur í vindinum og hélt fyrir mér vöku. En svo varð dagurinn alveg dásamlegur og hitinn fór yfir 20 stig. Skrítið veður.
Á morgun ætla ég að reyna að vinna við greinina mína. Ó ég var kannski ekki búin að segja ykkur frá því að ég fékk grein samþykkta til birtingar í Nordic Journal of Linguistics. Ég þarf reyndar að laga ýmislegt áður en hún verður birt en samt...alltaf gott að fá birtingu í ritrýndu tímariti (greinar eru sendar í yfirlestur hjá sérfræðingi sem síðan mælir með birtingu eða ekki). Þegar maður sækir um vinnu í háskólum skiptir ekki máli hversu margar greinar maður fær birtar í ráðstefnuritum, það eru ritrýndu tímaritin sem virkilega hafa áhrif.
Ég ætla samt að finna tíma til að klifra og svo þarf ég á fótboltaæfingu. Dagurinn á morgun verður sem sagt fín blanda af íþróttum og málfræði.
Athugasemdir
Innilega til hamingju með þetta. Þú ert ótrúlega "klifrin" líka Kristín. Njóttu dagsins.
Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2007 kl. 08:30
Takk fyrir kommentið Gaman að sjá fréttir af Kanadabúum. Mun fylgjast með...
kv
Bára
Báran, 27.8.2007 kl. 10:42
Til hamingju með birtinguna frænka. Þetta verður þér vafalaust til framdráttar.
Sigurjón, 27.8.2007 kl. 16:12
Til hamingju!
Þú ert rétta manneskjan til að vita eitt sem ég hef stundum velt fyrir mér. Af hverju þýðir "couple of nights..couple of things" nokkrar nætur..nokkrir hlutir, en ekki par af nætum..hlutum? Couple= par , tvennt
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2007 kl. 17:33
Takk fyrir kæru vinir. Alltaf gott að fá notaleg orð.
Gunnar, ég hef reyndar velt því sama fyrir mér og mín niðurstaða er sú að í strangasta skilningi þýða 'couple' alltaf 'tveir'. Merkingin hefur hins vegar hnikað eitthvað til, kannski vegna misskilnings, kannski vegna mállýsku sem hefur dreifst út, og orðið 'couple' hefur fengið víðari merkingu. Þetta er mjög algengt í tungumálum og kallast 'víkkun'. Það er, þröng merking fer að fá víðari merkingu. Sjálf lærði ég þetta svo skilmerkilega í menntó sem 'tveir' að ef ég segi 'couple of nights' þá meina ég alltaf 'tvær nætur' ekki 'nokkrar nætur'. Ég get hins vegar sagt þér að margt af því kórrétta sem maður lærði í menntaskóla er sjaldan eða aldrei notað í enskumælandi menningu. Dæmi um það eru þágufallsleyfarnar í 'whom'. Eina fólkið sem ég hef heyrt nota þetta eru nokkrir háskólaprófessor sem hafa það að reglu að tala sem 'réttast'. Aðrir fussa bara yfir slíku máli! Merkilegt. Vona að þetta svari þér alla vega að hluta.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.8.2007 kl. 18:02
Til hamingju með greinina.
Wilhelm Emilsson, 27.8.2007 kl. 18:45
Frábært hjá þér! Til hamingju
mongoqueen, 27.8.2007 kl. 19:47
Ég dáist alveg af þér Stína mín hvað þú ert dugleg að skrifa fréttir Það er ekkert smá gaman að fylgjast með þér eins mér sýnist nú fleirum þykja enda ertu komin með 822 heimsóknir á síðuna þína bara í dag
Merkilegt en mér fannst ákkúrat það sama og þér með síðustu nótt og er nú frekar langt á milli okkar. Hér í Lettlandi er búið að vera yfir 20°C á næturna en síðustu nótt hefði ég þurft annaðhvort sængina eða náttföt.
Skilaðu nú kveðju til gömlu hjónanna frá mér en mig minnir að ég hafi hitt þau síðast á Fiskideginum mikla fyrir 3 árum sem er þó ekki langur tími síðan miðað við hvenær við hittumst síðast
Til hamingju með greinina þína
Kær kveðja,
Guðný "letti"
Guðný Hansen (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 19:55
Ég veit að í Pittsburgh þá þýðir couple mikið eða margar. Þegar það var sagt við mig couple of minutes þar, þá þýddi það yfirleitt 40-60 mínútur.
Mummi Guð, 27.8.2007 kl. 20:23
hmm já þetta blessaða orð hefur lengi pirrað mig ...(allt í einu farin að tala um ensku, ok kannski bein afleiðing af greininni þinni ;)) ... og ég lærði það sem "nokkrir" ekki "tveir" en svo er það nánast alltaf notað í þeirri meiningu, þ.e. tveir, sem ég bara skil ekki nema kannski smá meira núna eftir þessa útskýringu því couple er jú par og par er alltaf tveir svo hmm ég get ekki verið annað en sátt takk fyrir ;)
Hrabba (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 20:56
Takk kærlega fyrir svarið Kristín.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2007 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.