Á ferð og flugi
27.8.2007 | 23:51
Í sumar keyptu mamma og pabbi sér húsbíl. Þetta var gamall draumur og þau létu sig loks hafa það að fjárfesta í slíku tryllitæki. Daginn eftir að þau keyptu bílinn héldu þau með húsbílaklúbbinum á Vestfirðina og voru þar í eina ellefu daga. Þar rættist annar gamall draumur þeirra. Síðan var það Ásbyrgi og Dalvík og einhverjir fleiri staðir sem ég veit ekkert um, enda hef ég varla heyrt í þeim frá því að þau fengu bílinn. Nú fæ ég bara skilaboð af og til sem segja: Við erum að fara til X, verðum komin eftir Y daga. Nú eru þau að keyra hringveginn og ég frétti af þeim síðast á suðurlandinu. Þau létu sig reyndar hafa það að hringja í mig einu sinni og svo komust þau í tölvu einu sinni þannig að ég veit að þau eru í lagi. Þegar þau voru búin að eiga bílinn í mánuð sagði mamma að þau væru búin að sofa í honum í tuttugu daga af þrjátíu. Ég held að hún hafi verið að ljúga að mér. Ég held að þau sofi alltaf í bílnum. Ég stórefa að þau fari inn í húsið. Reyndar sagði mamma að þegar hún hafi átt afmæli um daginn hafi Gunnar frændi og Etienne sonur hans sofið í bílnum. Ég hef sterkan grun um að þau hafi látið strákunum eftir hjónarúmið og sofið sjálf í húsbílnum.
En svona í alvöru talað, ég er alveg himinlifandi yfir því að þau keyptu þennan bíl. Þau eru búin að ferðast svo mikið síðan og gera svo margt sem þau hefur alltaf langað að gera. Ég er alltaf að segja þeim að ferðast og njóta lífsins. Þau hafa þurft að erfiða alla sína ævi til að koma upp þessum afkvæmum sínum, og nú er sko kominn tími til þess að uppskera.
Athugasemdir
Mikið skelfing er ég sammála þér með að foreldrar manns eigi að njóta lífsins, loks þegar þau eru laus við akvæmin úr föðurhúsum. Reyndar eru allar mínar flognar að heiman og ég er að byrja að átta mig á frjálsræðinu (en ég er svo ung sko). Stundum fæ ég svona gleðitilfinningu sem gusast um inni í mér. Eins og í "denn" þegar vorið spriklaði í manni.
Smjúts.
Jenný Anna Baldursdóttir, 28.8.2007 kl. 00:05
Jú Stína mín, það stóð til að við svæfum í bílnum, en þar sem sjónvarpsherbergið uppi var laust, töldu þau betra fyrir okkur að sofa þar inni. Í ljósi þess sem þú sagðir, þá gæti það verið rétt, að þau hafi svo laumast út í húsbílinn til að sofa þar, því þegar við vöknuðum um morguninn, var hjónarúmið eins og enginn hefði sofið þar um móttina.
En þetta er algjör lúxuskerra, með öllum hugsanlegum þægindum og meira að segja sjónvarpi fyrir bílstjórann... sem er tengt við baksýnismyndavél, svo það er hægt að sjá hvað er fyrir aftan bílinn þegar bakkað er.
Gunnar Kr., 28.8.2007 kl. 00:19
Frábært hjá þeim. Þetta ætla ég sko að gera þegar ég verð "gamall" hmm.
Þröstur Unnar, 28.8.2007 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.