Svo var það fyrir átta árum / að ég kvaddi þig með tárum

Í dag eru akkúrat átta ár síðan ég fluttist til Kanada. Að sumu leyti virðist svo langt síðan en að sumu leyti er eins og það hafi gerst í gær.

Ég hafði ætlað að nota sumarfríið mitt 1999 í að ferðast um Vestfirðina en í byrjun ágúst var mér sagt að ég hefði fengið kennslustöðu við Manitóbaháskóla og varð að byrja fyrsta september. Sumarfríið fór því í að pakka eigum mínum niður í kassa, finna leigjendur að íbúðinni minni, ganga frá öllum nauðsynlegum plöggum, o.s.frv. Það var þó nokkur hasar. Ég flaug svo með Icelandair til Minneapolis og þaðan til Winnipeg þar sem tók á móti mér David Arnason, yfirmaður minn, sem ég hafði einu sinni hitt á Hótel Sögu þegar hann tók viðtal við mig fyrir starfið. Við fórum heim til hans þar sem ég gisti fyrstu viku mína í ókunnu landi. Þar kynntist ég konu hans Carol sem er alveg yndisleg kona og sem ég hef haldið sambandi við þótt hún og David hefðu skilið einum þremur árum síðar. Nú er ég í raun oftar í sambandi við hana en hann.

Það var erfitt að flytja til nýs lands og fyrstu dagana var ég ótrúlega þreytt. Bæði vegna flugþreytunnar og vegna þess að ég þurfti að tala ensku daginn út og daginn inn. Ég hafði notað ensku á ferðalögum áður en aldrei búið neins staðar annars staðar en heima á Íslandi svo ég hafði aldrei áður þurft að tala erlend tungumál frá morgni til kvölds. Sem betur fer fóru fyrstu dagarnir í afslöppun og það að kynnast fólkinu. Fyrsta helgin í September er alltaf löng helgi því þeirra verkalýðsdagur er fyrsta mánudaginn í mánuðinum og ég fór því með David og Carol og Maureen, systur Davids, yfir á Víðirnes (Willow Island) þar sem fyrstu Íslendingarnir stigu á land á Nýja Íslandi. Þarna á fjölskyldan nokkur sumarhús og þarna dvöldum við þessa fyrstu helgi. Reyndar rigndi ógurlega á okkur en þetta var samt alveg frábær ferð.

David er rithöfundur og meira að segja býsna góður. Ég hef alltaf gaman af bókunum hans. Margir vina hans eru líka rithöfundar og þessa helgi hittast þeir allir í sumarbústað Davids. Þessi helgi var engin undantekning og ég fékk að hitta alla, svo sem Robert Kroetsch, sem er með stærri nöfnum rithöfunda í Manitoba. Merkilegast var þó að við fengum heimsókn frá einum og stærstu rithöfundunum í Kanada, Thomas King. Hann er ekki eins frægur og Michael Ondatje, Margaret Atwood og jafnvel Carol Shields, en bókin hans Green Grass Running Water er alveg stórkostleg. Og ég er líka hrifin af Truth and Bright Water og mæli eindregið  með þessum bókum. Ég vissi auðvitað ekkert hver Tom King var þegar ég  tók þátt í þessu partýi fyrir átta árum, en hinir héldu ekki vatni yfir honum. Ég hafði reyndar keyrt niður til Gimli (af því að ég var sú eina ódrukkna á svæðinu) og lóðsaði hann til baka til Willow Island, þannig að ég get núna montað mig á því að hafa vísað Tom King veginn. En ykkur þykir það auðvitað ekkert merkilegt því enginn þekkir hann á Íslandi.

Einn þessa daga fór ég með Maureen inn í Gimli því hún fór að heimsækja deyjandi vinkonu sína á spítalann. Á meðan fór ég yfir að elliheimilinu í leit að Vestur Íslendingum. Var viss um að ef ég fyndi einhvern sem gæti talað málið þá væri það á elliheimilinu. Fyrir utan heimilið var gamall maður í hjólastól að reykja. Ég tók hann tali og var þar kominn Ragnar Holm og talaði hann þessa fínu íslensku. Ég settist niður hjá honum og við spjölluðum heillengi. Eftir það heimsótti ég alltaf Ragnar á elliheimilið í hvert sinn sem ég kom til Gimli og þar til hann dó einum þremur árum síðar.

Nú eru liðin átta ár. Vá hvað tíminn flýgur stundum hratt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með 8 ára afmælið! já tíminn flýgur sko.... og hraðar og hraðar eftir því sem maður eldist!

Iris (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 16:36

2 identicon

Til hamingju með 8 ára afmælið! já tíminn flýgur sko.... og hraðar og hraðar eftir því sem maður eldist!

Iris (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 16:37

3 Smámynd: Gunnar Kr.

Já, tíminn flýgur hratt (á gervihnattaöld).

Talandi um tíma... það eru 10 ár síðan við héldum ættarmótið góða. Er ekki kominn tími til að endurtaka það? Ertu til í að vera í undirbúningsnefndinni?

Gunnar Kr., 1.9.2007 kl. 19:51

4 identicon

Já, þetta er kunnuglegt með þreytuna fyrstu daga í útlandi!

En ertu ekki farin að hugsa til heimferðar? Tíu ár er alveg hámark - eða því sem næst. Losna ekki einhverjar stöður heima fyrir þig með doktorspróf og hvaðeina? Ekki þar fyrir - það er landi og þjóð til sóma að hafa sendiherra eins og þig á erlendri grund en samt...

Valdimar (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 19:54

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk Íris.

Gunnar, eru virkilega tíu ár frá ættarmótinu? Jú, þá er sko kominn tími til að endurtaka það. Ég var hins vegar í síðustu ættarmótsnefnd svo það er líklega kominn tími á einhvern annan í þetta sinn. 

Valdimar, jú, ég gæti vel hugsað mér að koma aftur heim. En ég er ekki viss um að ég hafi efni á því. Þótt það sé dýrt að lifa í Vancouver er enn dýrara að lifa á Íslandi og ég yrði að fá þokkalega vinnu svo það væri þess virði. Þegar ég bjó á Íslandi síðast átti ég íbúð og bíl, nú á ég ekkert slíkt og yrði að byrja á grunni.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.9.2007 kl. 20:09

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Við erum sem sagt í fyllidreifingu. Ég flutti út þegar þú fluttir heim!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.9.2007 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband