Ferðin í Boeing verksmiðjurnar

Ferðin til Bandaríkjanna í gær breyttist pínulítið vegna rigningar og í stað þess að fara í Olympic þjóðgarðinn var ákveðið að fara fremur í Boeing verksmiðjuna í Everett, þrjátíu kílómetrum norðan við Seattle. Lína, Alex og Einar sóttu mig rétt upp úr níu og við lögðum sem leið lá niður að Bandaríkjunum. Það tekur um klukkutíma að keyra að landamærunum en þegar þangað kom runnu á mig tvær grímur. Röðin var lengri en ég hafði nokkurn tímann séð hana. Við sáum ekki einu sinni í kanadísku landamærastöðina sem er þó nokkuð norðar en sú Bandaríska. En það var ekkert hægt að gera nema að koma sér í röð og öfunda liðið með Nexus passann sem gat skellt sér í gegn án sérstakrar biðar. Ég hafði verið búin að segja þeim hinum að við mættum vel búast við klukkutíma bið á landamærunum, þótt ég hefði reyndar yfirleitt verið heppin og yfirleitt ekki þurft að bíða nema í um fjörutíu mínútur eða skemur. Þetta leit hins vegar ekki vel út. Líka vegna þess að það var ljóst að við yrðum aftur að bíða inni þar sem við þurfum alltaf að fylla út tímabundin vísa og borga okkar sex dollara. Til að gera langa sögu stutta þá vorum við komin aftur af stað tveimur klukkutímum og fimmtíu mínútum eftir að við komum í röðina. Það eina góða við þetta allt var að krúttlegi landamæravörðurinn sem ég talaði við síðast þegar ég fór til Bandaríkjanna var að vinna, en því miður fengum við hann ekki. Æi, maður getur nú ekki alltaf verið heppinn.

Við vorum orðin glorsoltin og stoppuðum á eðalveitingastað Bandaríkjanna, MacDonalds, enda ekki til í að fara neitt þar sem maður þyrfti að bíða eftir matnum. Hvað er líka meira við hæfi en að raða í sig kaloríum þegar maður kemur til lands hinna frjálsu.

Þaðan ókum við beint í Boeing verksmiðjurnar, komum þar fimm mínútum rodí þrjú og skelltum okkur beint í næst síðustu ferð dagsins klukkan þrjú (ég hafði grínast aðeins með það að við kæmum of seint og það yrði búið að loka - það var ekkert langt frá því—fjörutíu mínútum seinna og við hefðum verið of sein. Reyndar var túrinn ekkert sérlega merkilegur. Farið var með okkur niður í verksmiðjuna og við fengum að standa á einhverjum palli og horfa niður á gólfið þar sem ekkert var að gerast því það var sunnudagur. Við fengum ekki að fara niður á gólfið eða skoða neitt nánar. Við fengum hins vegar að sjá hina nýju Boeing 787 sem verið er að klára og sem er ein fallegasta flugvél sem ég hef séð. Vængirnir vísa svolítið upp á við eins og hjá sumum fuglum. Ekkert smá rennileg vél (sjá mynd hér á síðunni). Frétti að Icelandair væri búið að panta tvær slíkar. Það verður flott að fljúga í þeim. Eftir túrinn skruppum við í verslunina og síðan í galleríið þar sem má lesa meira um vélarnar og skoða ýmsa hluta. Við fórum á flipp með myndavélina hans Einars og ýmsar merkilegar myndir teknar. Yfirleitt sviðsettar myndir af okkur öskrandi af hræðslu því vélin var að farast. Ég mun kannski setja eina eða tvær slíkar inn ef ég fæ eintök af þeim.

lunaticVið ákváðum að fara beint til baka enda klukkan orðin hálf sex þegar við komum út úr verksmiðjunni. Við vissum að biðin yrði styttri inn í Kanada en vissum ekki hversu stutt. Svo við keyrðum beint í norður án þess að stoppa nokkuð þar til við komumst ekki lengra. Það voru kyrrstæðir bílar fyrir framan okkur. Við vildum ekki alveg trúa þessu en urðum þó, þetta var röðin inn í Kanada. Þessi bið varð þó betri því sólin var að setjast og sólarlagið var dásamlegt. Við tókum því töluvert af myndum, bæði fallegum sólarlagsmyndum og svo öðrum sem kannski voru fremur til skemmtunar. Lína er býsna góð fyrirsæta eins og þið getið sjálf séð hér á síðunni.

Það tók einn og hálfan tíma að komast inn í Kanada og vörðurinn hafði bara áhuga á Einari. Hann leit ekki einu sinni á náms- og atvinnuleyfi okkar hinna. Og ég sem hélt þeir myndu skamma mig fyrir það að leyfið mitt er að renna út í lok mánaðarins og ég er ekki búin að fá nýtt. En hann vildi bara vita hvenær hann losnaði við

Einar úr landi svo ég dreg þá ályktun að hann þyki mun krimmalegri en ég. Og samt höfðum við komist að þeirri niðurstöðu að Alex væri langhættulegastur í útliti með svart hár og skegg og gæti gengið sem Al-Kaida.  

Við fengum kvöldverð klukkan hálftíu og hlógum yfir því að við ferðuðumst í næstum níu tíma til þess eins að stoppa í Bandaríkjunum í þrjá. 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

oh þessi landamæri eru æði pæði saknað þeirra oh .. langar út langar svooo til Seattle og Vancuver og San Fran þær 3jár borgir sem mér finnst mest æði!!!

Ég fór aldrei í Boeing verksmiðjuna bara á safnið og fór inn í CONCORD enda búin að vera fan þeirra véla síðan ég man eftir mér og ætlaði mér alltaf að fljúga í einni!

Olympia þið verðið að fara aftur þessi skógur er frábær! Ég hef reyndar bara séð einn hluta, Hoh, en ég held að það sé sá hluti sem flestir fara að sjá og svo ef þið keyrið áfram frá Hoh (sem sagt í átt inn í Wash.) þá komið þið að Rugby beach soldið kúl strönd að Kyrrahafinu mæli með þar á undan út á skaga er smá indiána þorp hef ekki komið þangað en skilst að það geti verið gaman, man ekki nafnið á því eins og er en sérst auðveldlega á kori ;)

En hefuru komið til Whistler? Hefuru skíðað þar? Það er bara geggjað hefur farið tvisvar og get ekki beðið efitr að komast aftur víííí 

Hrabba (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 20:59

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir heimsóknina á mína síðu og takk fyrir þennan skemmtilega pistil. Ég hef komið til Vancouver og fannst það æði. Var í Seattle í heimsókn hjá vinum árið 2005 og skrapp yfir til Kanada og var í Vancouver. Var um tíma að spá í nám í Vancouver og kannski læt ég verða af því við tækifæri.

Kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.9.2007 kl. 23:41

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já Hrabba, þetta eru flottar borgir og landamærin eru alltaf ævintýri. Að sjálfsögðu er ég búin að fara til Whistler, gamall skíðamaður eins og ég. Og jú, það er rosalega gaman að fara þar á skíði. Verð hins vegar að segja að Lake Louise í Alberta er ennþá magnaðra svæði.

Takk Margrét. Komdu endilega hingað í nám. Hér er gott að vera. Svolítið dýrt reyndar en ekki svo slæmt miðað við Reykjavík. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.9.2007 kl. 04:58

4 identicon

hmm þarf greinilega að prófa fleiri svæði í norður ammeríku ;)  hef reyndar farið á 2 í washington RÍKI hheeh en þau voru ekki spes ... Val Gardena á Ítalíu er það svæði sem mér finnst flottast og best af þeim sem ég hef prófað reyndar það stærsta líka.

Hrabba (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband