Um svala nagla og biblíumyndir
5.9.2007 | 17:38
Í fyrradag fór ég í bíó, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað ég fór að sjá týpíska strákamynd, War. Vanalega hef ég ekki gaman af byssumyndum en síðan ég horfði á Bruce Lee sem barn hef ég alltaf haft gaman af góðum bardagamyndum. Ástæður þess að ég fór á þessa mynd, þrátt fyrir að hafa heyrt fremur slæma dóma, voru tvær. Annars vegar Jet Li, hins vegar Jason Statham. Hvor um sig er magnaður en saman í mynd...hvaða máli skiptir handritið. Þetta eru náttúrulega svölustu náungarnir á hvíta tjaldinu í dag. Ekki myndarlegustu, en langflottustu. Þetta reyndist hin mesta biblíumynd og ég þurfti nokkrum sinnum að líta undan.
Mér fannst eiginlega verst að vera ekki á stefnumóti því svona myndir eru langbestu stefnumótamyndirnar. Sumir halda að það séu rómantískar gamanmyndir en nei, blóðugar hasarmyndir eða hrollvekjur. Sko, þá getur maður verið litla viðkvæma konan sem getur ekki horft á öll atriðin og í staðinn þarf maður að grafa andlitið í fanginu á deitinu og grípa um hönd hans. Og svo þegar atriðið er búið sér maður hvort hann sleppir hendinni eða ekki. Rómantísk gamanmynd getur þetta ekki, onei.
P.S. Ef einhver skildi ekki tilvísunina í biblíumyndir þá læt ég útskýringuna fljóta með. Þegar elsti bróðir minn bjó enn heima þá fór hann alltaf á vídeóleigurnar um jólin og kom heim með slatta af myndum sem síðan var horft á í jólafríinu. (Af því að sjónvarpið var alltaf að sýna myndir gerðar eftir biblíunni svo og ballett.) Þetta voru allt hasarmyndir með blóðugum bardögum og misþyrmingum. Einhvern tímann varð einhverjum fjölskyldumeðlimi á orði að svona væru nú biblíumyndirnar sem við horfðum á um jólin, og síðan hafa slíkar myndir verið kallaðar biblíumyndir á mínu heimili.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Það þarf ekki annað en að horfa á Passion of the Christ til að sjá "biblíumyndir" ... þ.e. blóð og ofbeldi. En annars er það hárrétt hjá þér að hasarmyndir og hrollvekjur eru bestu deit-myndirnar ... einfaldlega vegna þess sem þú minnist á.
Maður á kannski eftir að sjá þessa mynd (War) síðar meir ... maður er soddan svalur nagli!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 20:55
ég fíla nú eiginlega engar svona bardagamyndir, nema Apocalypto, en mér finnst ágætt að sjá ljósmyndir af Jet Li
halkatla, 5.9.2007 kl. 21:14
Ég bauð Fjólunni minni á svona "deit-mynd" og fór með hana á Kill Bill. Hún hló mestan hluta myndarinnar. Þannig að næst fór ég með hana á rómantíska gamanmynd og það gekk betur fyrir mig.
Mummi Guð, 5.9.2007 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.