Enn um Supernova
6.9.2006 | 07:06
Ég heimsótti Marion og Ryan í kvöld og horfði með þeim á Rockstar Supernova. Marion er kanadísk og Ryan er ástralskur svo okkur var af náttúrunnar hendi úthlutað uppáhöldum. Annars fannst mér Toby bestur í kvöld (svo Ryan og Ástralía fengu eitt stig). Fyrra lagið var kannski ekki sérlega spennandi en hann náði liðinu virkilega með sér í frumsamda laginu.
Mér fannst Magni ágætur en hann hefur oft gert betur. Reyndar er alltaf erfitt að taka Bítlalag. Bítlarnir sjálfir gerðu allt betur en aðrir (nema With a little help for my friend sem Joe Cocker betrumbætti) og því næstum útilokað að hrífa mann með. Magni stóð sig vel en var kannski ekki nógu spennandi. Mér fannst hann gera betur í sínu eigin lagi.
Lúkas tók áhættu og gerð ágætlega en ég held að hann hafi klikkað pínulítið á því að gera bæði lögin svona róleg. Hann hefði átt að taka annað hvort þeirra og rokka. Storm var ágæt. Eins og hinir heldur betri í sínu eigin lagi. Ég missti af Dilönu, en mér sýndist á ummælunum sem hún fékk frá hljómsveitinni og svipnum á henni að hún hafi ekki gert neina sérstaka hluti. Verð að fara og lesa hvað aðrir segja.
Einhverra hluta vegna held ég að Toby og Lúkas séu öryggir á morgun. Ég hélt upphaflega að Storm myndi fara heim næst en nú er ég ekki svo viss. Ég held að Magni sé aftur í hættu. Vona að Íslendingar hafi kosið vel. Það er hins vegar ljóst að öll atkvæðin frá Íslandi duga skammt núna og Magni þarf að hrífa aðra með sér til að halda áfram. Reyndar held ég að hann verði ekki sendur heim næst, hvort sem hann lendir í botnsætunum eða ekki. Og þó, ef tveir fara heim næst þá getur allt gerst. Nú er bara að bíða og sjá.
Af öðrum málum er það helst að frétta að skólinn er byrjaður aftur. Byrjaði í dag. Ég er aðstoðarkennari í hljóðkerfisfræði eins og í fyrra. Kennarinn er Gunnar Hansson og hann nefndi í tíma í dag að þetta væri ábyggilega í fyrsta skipti í sögu UBC og ábyggilega síðasta skipti að bæði kennari og aðstoðarkennari séu Íslendingar. Ég efast um að það gerist oft utan Íslands.
En sem sagt, vetrarvertíðin byrjuð og nú þarf ég bara að halda mér við efnið og skrifa skrifa skrifa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.