Velvet Revolver - Alice in Chains

Jæja, eins og ég lofaði um daginn kemur hér frásögn mín af tónleikunum í gær, Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chains.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá missti ég af fyrstu lögunum með Alice in Chains, sem er svolítið sorglegt af því að ég fór fyrst og fremst á tónleikana til að sjá þá. En það var grillpartý í deildinni hjá okkur svo ég ákvað að sleppa upphitunarbandinu og mæta barra þegar Alice in Chains byrjaði. Nema hvað strætó kom ekki á réttum tíma - alveg eins og þegar ég fór að sjá Godsmack. Sama leið, á sama stað, en næsti strætó á eftir. Vagninn kom ekki fyrr en næstum því tuttugu mínútum yfir átta (upphitunarhljómsveitin byrjaði klukkan hálf átta) og við vorum því ekki komin að Colosseum - þar sem tónleikarnir voru haldnir - fyrr en um hálf níu. Hávaðinn í vagninum var ógurlegur enda vagninn fullur af unglingsstrákum á leið á tónleikana. Þegar fréttist í gegnum farsíma að Alice in Chains væru komnir á svið varð allt vitlaust. Ég dauðvorkenndi gömlum kínverskum kerlingum sem stóðu þarna dauðskelkaðar og vissu ekki hvar þær voru lentar.

Komst loks á staðinn, fann sætið mitt en truflaði ekki eins mikið og þetta lið á Noruh Jones tónleikunum því hávaðinn var yfirgnæfandi. Alice in Chains rokkuðu og hápunkturinn var án efa uppklöppunarlögin tvö, Would og Rooster, bæði af plötunni Dirt. Jerry Cantrell er greinilega aðalmaðurinn í AiC og ég mundi allt í einu eftir því að ég sá hann hita upp fyrir Creed fyrir nokkrum árum, áður en AiC kom aftur saman. AiC voru góðir í gær og ég fann ekki mikið fyrir því að söngvarinn væri annar en maður þekkir frá plötum þeirra. Þeir lögðu hins vegar ekki  mikið í sjóið sjálft. Notuðu ekki mikið myndavélar, ljósin voru ekki mikið notuð og sviðsframkoman var heldur tilbreytingalaus. Söngvarinn þarf að finna sig aðeins betur á sviði. Maður sá það svo vel þegar Scott Weiland hamaðist um síðar um kvöldið. Það versta við AiC var samt að þeir voru allt of stutt á sviðinu. Það var að hluta vegna þess að ég missti af byrjuninni en líka vegna þess að þeir voru þarna bara sem gestir en ekki sem aðalnúmerið. Ég hefði viljað snúa þessu við. Lög AiC eru miklu betri en lög Velvet Revolver.

Eftir um hálftíma bið slökknuðu ljósin á ný og út úr myrkrinu heyrðust tónar frá Rock Superstar, sem ég held að sé Cypress Hill lag. Lagið var flutt í heild sinni án þess að nokkur maður sæist, eða að nokkuð sæist - þarna var algjört myrkur. Að því lagi loknu kviknuðu ljós á bak við tjald og um leið og byrjað var á nýju lagi féll tjaldið niður og meðlimir Velvet Rolver stóðu á sviðinu. Ég veit ekki hvaða lag kom fyrst, eitthvað af Libertine (þekki þau svo fá). Hef séð annars staðar að þeir byrja oft á Let it roll.

Fyrsti hlutinn var helgaður VR sjálfum og skiptust þeir á að spila lög af bæði Libertine og Contraband. Mér fannst hljóðið ekki alveg nógu gott. Hljóðfærin yfirgnæfðu röddina og ég heyrði ekki alltaf í Scott Weiland, sem er synd því hann er fantagóður söngvari. Svo kom frábær kafli þar sem þeir settust allir á stóla og tóku svo lög með Stone Temple Pilots og Guns and Roses. Toppurinn fyrir mig var Interstate love song, en þarna mátti líka heyra lagið Patience sem var hrikalega flott. Ég vona að ég móðgi ekki Guns and roses aðdáendur of mikið þegar ég segi að Scott Weiland er mun betri söngvari en Axl Rose. Og samt líktist hann Axl þegar hann söng G'N'R lögin. Hann hefur bara svo mikið vald á röddinni, mikla breidd, og svo auðvitað fallegri rödd en Axl. Í heild held ég að þeir hafi tekið um þrjú G'N'R lög og tvö eða þrjú STP lög. Af eigin lögum stóðu upp úr lagið Slither sem er glettilega gott og að sjálfsögðu Fall to pieces.

Sviðsframkoma Scott Weiland er alveg mögnuð. Hann hlykkist einhvern veginn um sviðið í Mick Jagger stíl og maður veit ekki alveg hvort þessar hreyfingar eru kynþokkafullar eða undarlegar. Kannski hvort tveggja. Hann skiptir ekki um föt á sama hátt og Jagger en kom fram í svo mörgum lögum (bolur, skyrta, vesti, jakki) að með því að fara úr einni og einni flík (þar til hann var nakinn að ofan) breyttist útllit hans stanslaust. Á höfði hafði hann húfu líkri þeirri sem sést hérna á myndunum. Slash leit út alveg eins og á þessum myndum. Með sítt svart hárið og pípuhattinn.

Ég verð að segja að mér fannst bæði Stone Temple Pilots og Guns and Roses betri hljómsveitir en Velvet Revolver. Tónleikarnir í heild voru skemmtlegir en ég held að ég hafi skemmt mér betur á Godsmack tónleikunum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

takk fyrir þessa lýsingu og færslu. Maður sér þetta svo vel fyrir sér. Þetta eru nú ekki uppáhaldshljómsveitir mínar, en maður hefði sko farið á tónleika með þeim, ef maður hefði getað.

bestu tónlistar-kveðjur frá Akureyri!

og meðan ég man: Benni H. (Bernharð Haraldsson) kom á safnið (er þar auðvitað oft) og minntist á þig, þannig að ég vildi endilega koma því að. Þetta er skemmtilega lítill heimur. 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Úps, sorry Bárður. Hehe. Annars las ég í viðtali við Slash þegar hann var spurður að því hverng það væri að vinna með Scott Weiland, að það væri bara fínt...mun betra en það sem hann hafi áður unnið við. Held að Slash hafi guðlastað þar líka. Annars vildi ég gjarnan sjá Axl sameinast hinum og að G'N'R komi saman aftur - og Stone Temple Pilots.

Er nokkuð viss um að þeir tóku ekkert Nirvana lag.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.9.2007 kl. 14:27

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir ritdóminn, Kristín. Ég er sammála þér að Guns and Roses séskemmtilegri hljómsveit en Velvet Revolver.Sviðsframkoma Scotts er vissulega áhugaverð og hann, Duff og Slash hafa rokkútlitið með sér--hinir tveir eru svolítið lúðalegir--en mér finnst að þá vanti fleiri betri lög. "I Fall to Pieces" er það langbesta sem ég hef heyrt með þeim.

Ég held að það sé bara tímaspursmál þangað til Guns and Roses koma saman aftur. Allar grúppur snúa aftur--nema ABBA.

Wilhelm Emilsson, 10.9.2007 kl. 06:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband