Þegar birnir eru annars vegar
7.9.2006 | 18:02
Ég lofaði fyrir löngu að segja aðeins frá ferðinni til Kispiox. Kispiox er langt norður í Bresku Kólumbíu - um það bil tuttugu tíma keyrsla þangað. Þið getið ábyggilega ekki séð það á korti en ef þið eruð með þokkalegt kort getið þið ábyggilega fundið Smithers og Terrace sem liggja við Skeena ána út frá Prince Rupert (og út frá Queen Charlotte eyjunum). Hazelton er mitt á milli Smithers og Terrace og Kispiox er í um það bil tíu mínútna keyrslu þar norður af.
Við Yoko, sem er með mér í málvísindunum, fórum norður saman. VIð ákváðum að fljúga til Prince George og leigja bíl þar og keyra norður eftir. Það er um sex tíma keyrsla þaðan. Þetta var dýrara en að keyra alla leiðina en sparaði tveggja daga keyrslu. Við hefðum getað flogið til Smithers eða Terrace en það var bara mikið dýrara (um 100% dýrara).
Við gistum í húsi John og Helen Heit. John er sonur Margrétar sem við vinnum með þar nyrðra og systursonur Barböru og Doreen sem við höfum unnið með hér í Vancouver. John og Helen voru reyndar þarna mestan tíma en okkur kom vel saman svo það var allt í lagi. Þau búa annars í Vancouver.
Verst var að við misstum af Chuck. Chuck er bróðir Johns og við kynntumst honum í fyrra. Hann er listamaður, sker út í við, málar og býr til skartgripi. Ég er að vona að ég muni hafa efni á því að eignast eitthvað eftir hann áður en ég flyt frá Vancouver. Ég er búin að ræða það við hann að hann skeri eitthvað út fyrir mig - helst hrafn eða björn. En Chuck var á ráðstefnu þessa helgina - hann var með totel pole á sýningu á AIDS ráðstefnunni sem var haldin í Toronto. Það var vegna þess að hann missti vini úr AIDS fyrir mörgum árum og skar út þennan totem pole í þeirra minningu. Hann var því í Toronto þegar við Yoko vorum nyrðra. En Margret og Peter, foreldrar hans voru heima og við vorum heilmikið með þeim.
Við unnum með fjórum konum á meðan við vorum nyrðra. Utan við Margaret Heit við unnum með Thelmu systur hennar en einnig Doris Weget og Rowz Muldon. Doris og Rowz eru á sextugs aldri en hinar tvær á áttræðisaldri og það var ágætt að fá þennan aldursmun því það eru greinilega breytingar í gangi í málinu.
Rétt til útskýringar: Málið sem talað er í Kipiox gallast Gitxsan. Það eru ábyggilega til yfir tvöþúsund málhafar sem er býsna gott miðað við mörg indjánamál í Kanada. VInir mínir sem vinna með Squamish og sérstaklega þeir sem vinna með Halkomelem eru miklu verr staddir. Það er ábyggilega ekki nema um tíu Squamish málhafar eftir og ég er ekki viss um sstöðuna með Halkomelem. Síðast þegar ég vissi voru tvær manneskjur sem töluðu málið og önnur var mjög veik og hin er eitthvað reið við málfræðinga og vill ekki vinna með þeim. En sem sagt, Gitxsan er betur stat, líklega af því að málið er einangraðra þarna norður í rassi. Annars talar yngra fólkið ekki málið þótt verið sé að kenna það núna í skólum.
Ég er að reyna að skilja hvernig Gitxsan fólkið gerir grein fyrir tíma í málinu. Það þýðir að líta á tíðarkerfið (þeir gera ekki greinarmun á nútíð og þátíð en merkja framtíð) og horfkerfið (dvalarhorf, lokið horf o.s.frv.) Það er alltaf flókið að vinna að merkingarfræði í máli sem maður talar ekki. Það er svo erfitt að fá nákvæmlega réttar upplýsingar. Maður athugar kannski hvort hægt er að segja einhverja setningu en ef ekki þá veit maður ekki endilega hvers vegna það er slæmt. Kannski er setningin fullkomin en passar ekki alveg í samhenginu sem maður setti upp. maður þarf því að spyrja margra spurninga og athuga margt. Það er heilmikil tækni í sjálfu sér.
Við unnum næstum allan tímann sem við vorum nyrðra en fórum einu sinni niður til Hazelton og átum kvöldmat á veitingastað með Margréti og Peter. Við löbbuðum niður að Skeena ánni og á hinum bakkanum var birna með hún með sér. Það var frábært að horfa á þau þótt þau væru langt í burtu. Við horfðum á þau í nokkurn tíma áður en þau hurfu inn í skóginn.
Við sáum aftur björn þegar við fórum í berjaferð. Við fórum að týna stykkilsber (en Finnur var ekki nálægt). Það var alveg hellingur af þeim þarna. Miklu meira en ég hef nokkurn tímann séð af bláberjum heima. Mamma hefði veirð í essinu sínu. Það hefði ekki verið hægt að fá hana heim. Annars er möguleiki að það gengi ef við segðum henni að það væru birnir í nágrenninu og að í eftirmiðdaginn koma þeir á svæðið til að borða berin. Og það er alveg satt. Margrét fór að ókyrrast um þrjú leytið því þá koma birnirnir. Svo við héldum til baka. Og mikið rétt, Yoko sá björn á tveimur fótum rétta úr sér og skima yfir svæðið. Ég missti af því af því að ég var að keyra bílinn og var vonsvikin yfir því. Ég vona bara að fókið sem var enn þarna að týna hafi ekki lent í birninum. Annars ráðast svartbirnir yfirleitt ekki á fólk.
Þegar við keyrðum yfir brúna yfir ána inn til Kispiox sáum við björn að kíkja eftir fisk. Það hefur verið töluvert um birni í þorpinu í sumar. Einn kom á hverjum degi inn í garðinn hjá Walter, bróður Barböru, Doreen og Margrétar. Hann át eplin á trénu hans. Okkur var því sagt að vera ekki mikið að þvælast um aleinar. Ég gat því ekki farið og hlaupið á morgnana eins og ég gerði þarna í fyrra. Ekki sniðugt að vera einn að hlaupa þegar birnir gætu verið á vappi.
En ég elska birni. Þeir eru svo fallegir og svo máttugir. Málið er bara að horfa á þá úr fjarlægð eða alla vega úr öruggu fylgsni. Það er óþarfi að setja sig í hættu því þótt birnir séu fallegir eru þeir villt dýr og það stór og sterk villt dýr.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.