Afmælisveislan fína

Jæja,þá er ég vöknuð og komin langleiðina með að þrífa eftir partýið. Það var minna að þvo upp en ætla hefði mátt því gestir áttu það til að skreppa fram í eldhús og þvo nokkra diska þegar þannig lá á þeim. Nei, ég held það sé ekki tákn um að þeim hafi leiðst svona heldur finnst fólki hér almennt hræðilegt að maður skuli sjálfur þurfa að halda sínar afmælisveislur. Þeim finnst að maður eigi bara að slappa af og hafa það gott á meðan aðrir sjá um að þræla. Það hljómar eiginlega vel en ég er svo mikill Íslendingur í mér að ég er vön að sjá bara um mínar veislur sjálf enda þykir mér gaman að baka og bjóða heim fólki.

Dagurinn hófst laust fyrir níu þegar ég skreið á fætur og fór til Rosemary vinkonu minnar í morgunverð. Ég sef vanalega ekki svona lengi en ég hafði komið seint heim kvöldið áður eftir fanta matarboð hjá Halli og Andrea og dundaði mér svolítið í tölvunni þar á eftir, þannig að ég var óvenju syfjuð. Þar að auki var ekki mikill hávaði í vinnumönnunum við hliðina.

Rosemary bauð upp á ekta ammmmrískan morgunverð með bláberjapönnukökum, beikoni og morgunverðarpylsum. Glettilega gott. Þaðan hjólaði ég svo upp í skóla og hitti Lísu kennara minn á kaffihúsi þar. Hún er í rannsóknaleyfi og fer því helst ekki upp í deild (þá yrði hún dregin í vinnu). Hún er samt ennþá í nefndinni minni enda annar tveggja umsjónakennara. Ég hafði hugmynd um lausn á einu vandamáli í ritgerðinni minni og vildi ræða það við Lísu. Henni leist vel á hugmyndina og hjálpaði mér að formúlera hana þannig að við vorum ánægðar með árangurinn.

Ég kom heim og lagaði til, talaði við mömmu og pabba, skrapp svo út í búð að versla - tvisvar, af því að ég gleymdi sumu fyrst. Klukkan var orðin fjögur þegar ég fór í að þrífa íbúðina - eins vel og hægt er á einum klukkutíma. Klukkan fimm hófst matarundirbúningur og á tveimur klukkutímum bakaði ég marens, bjó til tvo heita rétta, bakaði bananaköku, og bjó til rice crispies toppa og túnfisksalat. Og ég náði meira að segja að ryksuga (sem ég hafði geymt þar til síðast) og fara í sturtu innan þessa tveggja tíma. 

Fyrstu gestirnir komu klukkan sjö og allir voru komnir fyrir átta. Þetta var svona sambland af gamla genginu sem er boðið í allar veislur hjá mér (Julianna og Tim, Marion og Ryan, og svo Gunnar, Suzanne og Yrsa), og nýju íslensku (og næstum því íslensku - lesist austurrísku - vinunum, Lína og Alex og svo Hallur, Andrea, Fönn og Dögun). Við getum sagt að þetta hafi verið hámarksfjöldi gesta fyrir íbúðina. Það mætti auðvitað hrúga inn fleirum ef fólk stæði og dreifðist út um allt en þarna gátu allir verið inni í stofu og setið, annað hvort á stólum eða á gólfinu.

Stelpurnar litlu voru að hittast í fyrsta sinn og þótt Yrsa og Dögun væru næstum jafnaldra (hálft ár á milli) tók það þó nokkurn tíma fyrir þær að ná saman. Yrsa er auðvitað óvön því að heyra börn tala íslensku og Dögun er nýbyrjuð á leikskóla og er farin að babla á sinni eigin ensku (sem fæstir skilja ennþá en það mun koma). Þær voru þó farnar að hoppa á rúminu mínu svona undir lok kvöldsins. Svo setti ég bara Wallace and Gromit í tölvuna og litlu gellurnar lágu uppi í rúmi og horfðu á sjónvarp.

Laust fyrir miðnætti voru allir farnir heim (enda partýið þá búið að standa í fimm klukkutíma og Rita fyrir neðan hefði kvartað ef eitthvert næturbrölt hefði verið í gangi) og ég skreið í kojs. 

Fleiri myndir má sjá á Flickr síðunni minni:

http://www.flickr.com/photos/stinamagga/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir okkur!! Þetta var frábært kvöld - bæði veitingalega og félagslega séð. Hefði ekki trúað að þú hafir snarað þessu öllu fram á svona stuttum tíma. Það er endurnærandi að hitta svona skemmtilegt fólk frá mörgum heimshornum. Sjáumst sem fyrst.

Andrea 

Andrea (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:14

2 identicon

Hæ  til hamingju með daginn í gær kveðja Haukur og fjölskylda

'Iris Th. (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 19:46

3 identicon

Sæl Stína og til hamingju með afmælið.  Takk fyrir kveðjuna til mín á bloggi Berglindar.  Vona að þú hafir það gott.  Væri gaman að hitta þig þegar þú ert á landinu.  Marín

Marín Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 08:34

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Til lukku með afmælið!

Wilhelm Emilsson, 16.9.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband