Vinnudagur

Dagurinn í dag hefur verið rólegur og gagnlegur en ekki sérlega skemmtilegur. Ég ætlaði mér að sofa út en bölvaðir iðnaðarmennirnir virðast vinna í húsinu hér við hliðina hvern einasta laugardag núna. Ég get aldrei sofið út því þeir eru alltaf mættir eldsnemma á morgnana með hávaða og læti. Stundum vinna þeir bara í nokkra klukkutíma en byrja samt alltaf snemma. Ég held líka að þeir geri allt það hávaðasamasta um leið og þeir mæta og dunda sér svo við hljóðlegri vinnu þegar líður á. Rétt svona til að tryggja að enginn í nánasta nágrenni fái að sofa mikið lengur en þeir.

Ég skreið sem sagt á fætur í morgunsárið, lagaði svolítið til, bloggaði um afmælisveisluna mína og fór svo að vinna. Ég er að reyna að ljúka grein sem ég er að vinna að með Bryan, hljóðfræðikennaranum mínum. Þarf að ljúka mínum hluta ekki síðar en á þriðjudaginn því Bryan þarf svo að lesa einu sinni yfir áður en við sendum inn greinina, og hann fer úr bænum á fimmtudaginn.

Það er reyndar ekki mikið eftir. Ég er fyrst og fremst að prófarkalesa greinina og einnig þarf ég að sjá til þess að hún sé í samræmi við staðla tímaritsins sem við ætlum að reyna að koma henni í. Það er fremur nýlegt rit sem heitir Journal of the Acoustic Society of America Express Letters (eða JASA Express Letters). Þetta er tímarit sem er fyrst birt á netinu, áður en það er prentað, og því er biðin eftir birtingu ekki eins löng. Ég þarf á fleiri birtingum að halda eins fljótt og hægt er því ég þarf að huga að vinnu fljótlega. Ef maður sækir um prófessorsstöður í háskólum þarf að sækja um með um það bil árs fyrirvara. Umsóknafrestur fyrir stöður sem hefjast næsta september rennur oftast út í nóvember eða um það leyti.

Ég vann líka svolítið að öðru verkefni sem ég er að hugsa um að taka að mér sem svona pínulítið aukaverkefni. Veitir ekki af peningunum. En áður en ég get tekið verkefnið að mér þarf ég að sýna fram á að ég sé hæf til þess. 

Núna er verið að sýna The Mexican í sjónvarpinu. Ég skrifa þetta blogg í hvert sinn sem gert er auglýsingahlé. Þetta er ágætismynd - það eina sem horfandi var á í kvöld. Mikið rosalega sakna ég hinn tvöhundruð stöðvanna sem ég hafði í sumar. En bráðum koma allir vetrarþættirnir aftur og þá getur maður farið að horfa á Aðþrengdar eiginkonur og alla hina þættina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það hlýtur að vera alveg rosalegur pakka að sakna tvöhundruð stöðva! OMG

Hér er sjaldnast eitthvað bitastætt í sjónvarpinu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.9.2007 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband