11. september
11.9.2006 | 18:02
Í dag eru fimm ár liðin frá árásunum á New York og Washington. Ég hef vekjaraklukkuna mína stillta á CBC (kanadíska ríkisútvarpið) og það fyrsta sem ég geri á morgnana er því að hlusta á fréttirnar. Þennan dag, einhverra hluta vegna, var það ekki svo og ég vissi því ekki hvað hafði gerst fyrr en ég kom í vinnuna. Einhver samstarfsmanna minna kom inn á skrifstofuna mína og sagði að tvær flugvélar hefðu flogið beint á tvíburaturnana í New York. Af því að ég heyrði ekki af þessu fyrr en eftir að síðari flugvélin flaug á turnana vissi ég frá fyrstu stundu að þetta væri ekki hræðilegt slys. Dagurinn fór í að lesa fréttir á netinu af því að ég var hvergi nálægt sjónvarpi en ég átti eftir að fá stóran skammt af fréttaflutningi. Einhvern næstu daga fékk ég hálsbólgu og sat því heima og horfði á sjónvarpið daginn út og daginn inn. Á flestum bandarískustöðunum var ekki fjallað um neitt annað. Venjulegt sjónvarpsefni var sett til hliðar og lítið komst að annað en fréttaflutningur af ástandi mála. Viðtalsþættirnir á morgnana voru yfirfullir af viðtölum við áhorfendur og aðstandendur og sumar lýsingarnar voru hræðilegar. Það sem snerti mig mest var viðtal við fólk sem bjó rétt hjá turnunum og sá þá út um stofugluggann sinn. Þau fylgdust með öllu sem gerðist og konan minntist á að það væri eins og eitthvað væri alltaf að falla niður eftir turnunum. Maðurinn hennar sótti kíkí til að sjá hvað það væri sem virtist alltaf vera að falla niður. Þegar hann lyfti kíkinum fékk hann sjokk. Það sem féll niður var fólk að kasta sér út um glugga. Það vildi frekar hrapa til dauða en að brenna lifandi inni.
Það var ekki hægt að búa í Norður Ameríku og þekkja ekki einhvern sem missti ættingja, vin eða kunningja. Töluverður fjöldi Kanadamanna vann í turnunum og þar að auki vann ég með fjölda Ameríkana þannig að það voru nokkrir í vinnunni hjá mér sem eyddu deginum í símanum til að reyna að fá upplýsingar.
Ég veit að þetta gerðist allt vegna þess hvernig Bandaríkjamenn hegða sér í alþjóðapólitík, en þeir áttu þetta ekki skilið. Allt þetta saklausa fólk sem lést. Öll þessi hörmung.
Þegar ég fór til New York í vetur gekk ég niður að svæðinu þar sem turnarnir stóðu. Þar er nú verið að byggja. Búið var að koma upp neðanjarðarlestarstöð sem þjónar fyrst og fremst þeim lestum sem ferðast til nágrannaborgunna (sem sagt ekki hluti af NY subway kerfinu) og þar ofan á á víst að byggja nýja turna. Ég skil að vissu leyti að Bandaríkjamenn vilji setja nýja turna til að sýna heimsbyggðinni að þeir séu ekki hræddur (þótt auðvitað séu þeir það) en mér finnst þetta lykta örlítið af því sama stolti sem ég sé svo oft hjá Íslendingum - "enginn skal segja okkur hvað við eigum að gera." Þetta er svona eins og: "Við byggjum bara nýja turna og þið getið sko bara reynt að eyðileggja þessa líka." Þegar ég var lítil var bróðir minn að reiða mig á hjólinu sínu án barnasætis. Löggan stoppaði hann og skammaði hann. Bróðir minn var með kjaft við lögguna (þið sem þekkið bræður mína getið reynt að geta hver þeirra þetta var) sem hótaði að taka af honum hjólið. Hann sagði: "þá kaupi ég bara nýtt hjól". Löggan var greinilega ekki mjög þroskuð því þeir létu hann æsa sig og sögðu: "Þá tökum við það hjól líka". Og: "Þá kaupi ég bara nýtt". Þannig gekk það um stund og ég man ekki hver gafst upp fyrst. En þannig virkar það á mig að byggja bara nýja risaturna á sama stað. Þetta er eins og tveir óþroskaðir krakkaskrattar að rífast. Og hugsið ykkur, afgangurinn af heiminum getur ekkert gert.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.