Stórleikur í Vancouver
20.9.2007 | 06:16
Við rúlluðum Calgary upp eins gömlu teppi og hentum þeim út. 4-0 var staðan að leik loknum eftir að fyrrverandi öndin Ryan Shannon skoraði fjórða markið þegar 21 sekúnda var eftir af leiknum. Það varð allt vitlaust í byggingunni enda ekki amalegt að sjá ungu strákana í liðinu klára dæmið svona.
Vigneault hvíldi marga af hinum eldri og reyndari leikmönnum og gaf ungu strákunum tækifæri enda er enn barist um síðustu sætin í liðinu. Þeir sem ekki standa sig verða sendir til Manitoba og látnir spila í AHL deildinni þar til þeir eru tilbúnir í NHL deildina. Og strákarnir sýndu að þeir voru traustsins verðir. Alex Edler, hinn ungi leikmaður Manitoba sem kom inn fyrir Vancouver í nokkrum leikjum í fyrra, skoraði fyrsta markið stuttu fyrir lok annars leikhluta og rétt eftir að flautað var til þriðja leikhluta skoraði Jason Jaffray mark númer tvö. Hann er glænýr leikmaður með liðinu, var keyptur í júlí í sumar. Michael Grabner, annar ungur leikmaður bætti þriðja markinu við sex mínútum síðar og Ryan Shannon innsiglaði svo sigurinn eins og áður sagði. Þá stóð varamarkvörðurinn Schneider sig einstaklega vel, varði sjö skot og hélt markinu hreinu.
En þrátt fyrir að mörkin hafi öll komið frá hinum óreyndari leikmönnum mátti sjá frábæra takta hjá leikmönnum eins og Ohlund, Burrows, Naslund og Cowan. Og meistaramarkvörðurinn Luongo varði 14 skot áður en hann fór af velli til að hleypa Schneider að. Mér fannst lítið bera á Taylor Pyatt, sem er synd því hann var frábær í úrslitakeppninni í vor, Daninn Jannik Hansen átti þokkalegan leik en ég tók lítið eftir Matt Cooke. Það þýðir þó ekki að hann hafi spilað illa, ég þekki þá bara ekki enn alla í sundur.
Um leið og ég gekk inn í salinn hríslaðist um mig þessi tilfinning sem maður fær þegar maður veit að eitthvað frábært er að fara að gerast. Stemmningin á hokkíleikjum í Kanada er alltaf skemmtileg þó svo að þessu sinni hafi hún varla komist í hálfkvist við það hvernig var ábyggilega hér í úrslitakeppninni í vor. En fólk var í stuði og ánægt með að hokkíið væri aftur byrjað. Ég hafði nokkra öskurapa fyrir aftan mig sem görguðu af og til og voru algjörlega laglausir þegar þeir reyndu að syngja um 'the good old hockey game', en það var bara fyndið og tilheyrði einhvern veginn.
Undarlegast var að í hvert sinn sem slagsmál brutust út á ísnum (og jú, það er ekki óalgengt) varð allt vitlaust og múgurinn gargaði. Ekkert virtist skemmtilegra en tveir, eða fleiri leikmenn að berja hver annan. Þetta er það eina sem ég skil ekki í sambandi við hokkí. En þetta er hluti af leiknum því dómararnir leyfa þeim að berja svolítið hver á öðrum áður en þeir stoppa slagsmálin. Sumir halda því fram að það séu minni meiðsli í hokkíleikjum þar sem slegist er en í hinum þar sem leikmenn verða frústreraðir en fá ekki útrás. Skemmst er að minnast þess þegar Todd Bertuzzi hálsbraut andstæðing sinn í leik. Hann fékk rúmlega árs brottvísun og var að auki dreginn fyrir rétt í skaðabótamáli. Stuðningsmenn slagsmála segja að ef Bertuzzi hefði fengið að slást pínulítið við hinn (þeir voru búnir að atast hver í öðrum allan leikinn), hefði þetta aldrei gerst. Ég veit það nú ekki...ég held að það sé alveg hægt að halda hokkíinu þokkalega meinlausu rétt eins og t.d. fótbolta. En þetta var nú útúrdúr.
En almennt var bara frábært að vera á þessum leik í eigin persónu og sjá leikmennina spila á vel pússuðum ísnum fyrir neðan eftir að hafa horft á þá í sjónvarpinu síðastliðinn vetur. Og að sjálfsögðu spillti ekki fyrir að sjá Vigneault með eigin augum. Hann er alveg jafnmikil dúlla og ég hélt. Og hann hlýtur að vera ánægður með sína menn í kvöld. Þeir sýndu þessu Alberta gengi svo sannarlega hvar Davíð keypti ölið!
Sett inn að lokum lag með uppáhalds grínsveitinni minni, The Arrogant Worms. Ég veit ekkert hver setti inn þessar einföldu teikningar, ekki þeir, en það er textinn sem skiptir máli Njótið:
Athugasemdir
Góð leiklýsing gangi ykkur vel á móti the Oilers í kvöld. Go Canuks
Olgeir Marinósson (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 17:42
Takk kærlega. Við unnum, 5-4 með marki rúmum tveimur sekúndum fyrir leikslok. Ég veit að okkar menn í Arsenal eiga líka eftir að standa sig vel í vetur. Þetta tvennt er á óskalista mínum - góður vetur hjá Arsenal, góður vetur hjá Vancouver Canucks.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.9.2007 kl. 06:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.