Ferill Ralph Fiennes

Í kvöld horfði ég á bíómyndina Land of the Blind sem var óhugnaleg og leiðinleg mynd sem fékk lélega dóma á sínum tíma. Eina ástæða þess að ég leigði myndina var sú að Ralph Fiennes var í aðalhlutverki og hann hefur í mörg ár verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. En ég veit eiginlega ekki hvað hefur komið fyrir feril hans.

Hann vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt sem Amon Goeth í kvikmyndinni Schindler's List og fékk að launum óskarstilnefningu. Konur um allan heim sátu í kvikmyndasölum og skömmuðust sín fyrir að hrífast af hinum óhugnalega Goeth. Í kjölfarið fylgdi hlutverk Charles Van Doren í mynd Roberts Redfords, Quiz show og síðan framtíðamyndin Strange Days. Ári síðar fékk hann aðra óskarstilnefningu, að þessu sinni fyrir hlutverk sitt sem Count Laszlo de Almásy í kvikmyndinni The English Patient og enn var kvenþjóðin heltekin. En þá var toppnum eiginlega náð og myndirnar sem á eftir fylgdu hafa verið blanda af ömurlegum myndum eins og The Avengers og Maid in Manhattan, listrænum en fremur leiðinlegum myndum eins og The End of the Affair, Onegin og Oscar and Lucinda, og góðum en vanmetnum myndum eins og Spider og The Constant Gardner. Ég skil reyndar ekki enn af hverju einu verðlaunin sem hann fékk fyrir Spider voru Evrópsku kvikmyndaverlaunin. Hann var stórkostlegur í þeirri mynd og ég var sannfærð um það þegar ég gekk út af myndinni að hann fengi óskarinn fyrir frammistöðuna þar. Sama má segja um The Constant Gardner og ég man að Jay Leno var sammála mér þar því þegar Ralph kom í viðtal hjá honum um það leyti sem myndin var frumsýnd kvaddi Leno hann með orðunum: See you at the Oscars. Margir aðrir voru sammála þar því hann var tilnefndur til alls fjögurra verðlauna fyrir þá mynd og vann þrjú þeirra. Það kom þó ekki nálægt þeim fjölda tilnefninga sem hann fékk fyrir Schindler's List

Ég sá Ralph í fyrsta sinn 1993 og var sannfærð um að hann ætti að verða stórstjarna og eftir vinsældir The English Patient virtist allt stefna í þá átt. En síðan gerðist eitthvað. Ég held að það hluti að hafa með hlutverkaval hans að gera. Hann hefur hreinlega ekki valið vel. Það getur varla verið neitt annað því maðurinn er stórkostlegur leikari og ég efa að nokkur geti neitað því, og að auki er hann gullfallegur. Þegar þetta tvennt fer saman við tvær óskarstilnefningar og getuna til þess að velja á milli hlutverka þá ætti að vera hægt að ná toppnum. En það klikkaði hjá Ralph. Hann er þekktur og vel metinn leikari en telst varla stórstjarna.

Kannski eru ekki allir sammála mér hér og sjálfsagt er það spursmál hvað það er nákvæmlega að vera stórstjarna. En enginn efast um að stórstjörnurnar eru fólk eins og Brad Pitt, Tom Cruise (þótt ég skilji ekki af hverju), Nicole Kidman, Julia Roberts, Denzel Washington, ofl. ofl. Þetta fólk fær aðsókn á myndir sínar, alveg sama hversu lélegar þær eru. Það er sjaldgæft að myndir þeirra fari beint á dvd, eða sama sem. 

Hversu margir hafa séð nýrri myndir Ralph Fiennes (aðrar en Harry Potter)? Hversu margir sáu t.d. Land of the Blind, The White Countess, Chromophobia? Eða myndirnar sem hann gerði undir lok tíunda áratugarins og í byrjun núverandi áratugar; myndir eins og Sunshine, Onegin, The End of the Affair, Spider, The Good Thief? Ég er aðdáandi Ralph en af þessum myndum sá ég aðeins tvær þær síðastnefndu í bíói. Einfaldlega af því að þær stoppuðu svo stutt í kvikmyndahúsunum að það var hætt að sýna þær áður en ég fór í bíó. Ég varð því að fara á leigurnar. 

Ojæja, hann er alla vega nógu stór til þess að fá kvikmyndahlutverk svo maður getur séð hann í nýjum myndum af og til og á þessu ári og hinu næsta fáum við að sjá hann í sex nýjum myndum. Svo ég er svo sem ekkert að kvarta. Ég er bara hissa á því að hann varð ekki stærri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er líka aðdáandi Ralph Fiennes þó það sé eingöngu vegna leikhæfileikanna, hann er af röngu kyni fyrir mig! Einhvern veginn grunar mig að Fiennes hafi farið þessa leið meðvitað - hann hafi leikið í myndum þar sem handrit eða leikstjórar heilluðu hann - ekki möguleikinn á að gera "box office hit". Johnny Depp fór svipaða leið, var á leiðinni að verða stórstjarna þegar hann fór að velja mjög sérstök hlutverk og eiginlega týndist þangað til hann skrapp til karabíska hafsins!

Gulli (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 09:19

2 Smámynd: krossgata

Ég er ekkert voðalega hrifin af Ralphe Fiennes, en finnst hann ágætur leikari, svona það sem ég man eftir að hafa séð.  Kannski er hann ekki nægilega eftirminnilegur eða hefur ekki unnið með leikstjórum sem ná því besta frá honum.  Mér finnst nefnilega oft að það velti svolítið á leikstjórunum hversu vel leikarar skila sínu.  Það er hægt að sjá mjög mismunandi frammistöðu hjá sama leikaranum með mismunandi leikstjórum.

Mér hefur reyndar aldrei þótt sérstæð hlutverk há Johnny Depp og finnst hann frábær leikari, alltaf.  En það tók hann lengri tíma að verða að súperstjörnu en Brad Pitt sem mér finnst vera leikari rétt í meðallagi og Tom Cruise sem mér finnst slakur leikari.

Ætli þetta sé ekki allt blanda af hlutverkunum sem valin eru, leikstjóranum og svo spunavélinni sem auglýsir allt dótið.  Hæfileikarnir virðast ekki skipta mestu máli.

krossgata, 23.9.2007 kl. 17:27

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég tek undir með Gulla, ég held að Ralph vilji þetta. Svo á hann einlæga aðdáendur í þér, Stína, og mér (þótt ég hafi reyndar ekki verið hrifin af myndinni Enski sjúklingurinn). Það hlýtur að duga honum!

Berglind Steinsdóttir, 23.9.2007 kl. 19:21

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég held að þið hafið öll rétt fyrir ykkur. Þetta er svona sambland af ýmsu. Berglind, ég er sammála því að Enski sjúklingurinn var ekki frábær mynd (góð þó) en Ralph var magnaður þar. Ég man þegar ég las fyrst um myndina og sá að hann átti að vera vafinn í sáraumbúðir - ég varð skíthrædd um að hann yrði þannig alla myndina. Vildi fá að sjá í andlitið - hehe. Það voru ekki áhyggur af leikhæfileikunum þar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.9.2007 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband