Íslendingapartý númer tvö

Hið óopinbera Íslendingafélag Vancouverborgar hélt samkomu númer tvö í gær. Að þessu sinni var haldin grillveisla á Spanish Banks ströndinni, enda hver orðinn síðastur að njóta góða veðursins. 

Partýið var skipulagt á Fésbókinni og ákveðið að hver kæmi með sitt. Engin grill eru á ströndinni svo ráðið var að koma með einnota grill. Halldóra og Sveinbjörn voru reyndar þau einu sem fundu slíkt enda sumarið búið og flestar verslanir búnar að læsa niður grillvörum. En þau gripu með sér þrjú, Eiríkur kom með venjulegt kolagrill og Lína og Alex bjuggu til sitt eigið (hafið samband við þau ef þið viljið skoða snilldina). Þetta dugði vel og ekkert vandamál var að grilla ofan í alla. Ég greip með mér þessa fínu nautasteik og borðaði hana með grilluðum aspas og sænsku kartöflusalati (auk þess sem ég stal frá öðrum Íslendingum - nei ég stal því ekki, allt var bara sett á borðið til almenningsnota).

Við vorum heldur fleiri en á Bimini kvöldinu því nú var hægt að koma með börnin. Gunnar og Suzanne komu með Yrsu en unglingurinn Elísabet nennti ekki að mæta. Hallur og Andrea komu með Fönn og Dögun og Eiríkur kom með sinn litla Trausta. Svo voru það Lína og Alex, Halldóra og Sveinbjörn, Birna og svo ég, af þeim sem áður höfðum mætt. Í hópinn bættust svo Katrín, Ómar og Wilhelm. Ómar hafði ég reyndar hitt nokkrum sinnum áður en hann kom hingað í fyrra.

Þetta var hin fínasta veisla. Ég held að allir hafi náð að kynnast nokkuð, maturinn var góður og félagsskapurinn auðvitað súper. Þegar sólin settist kólnaði töluvert og flíspeysur og annar kuldafatnaður var dreginn fram (af þeim sem voru viðbúnir kvöldinu). Það er orðið dimmt fyrir átta núna. Þetta breytist svo ótrúlega hratt. Næsta mánuðinn verður dimmra með hverjum deginum því þegar klukkunni verður breytt í lok október verður orðið dimmt um sex leytið (og þar af leiðandi um fimm leytið um leið og klukkunni er breytt). En kuldinn gerði það að verkum að okkur leið eins og við værum heima á Íslandi. Annars læt ég þetta hljóma eins og við höfum verið óheppin með veður. Það er alls ekki rétt því í raun var veðrið alveg frábært því það var sól og blíða þegar við mættum á svæðið um miðjan dag, eftir alla rigninguna síðustu viku og eins og sjá má á myndum vorum við fremur léttklædd. Það var bara þegar myrkrið skall á sem kólnaði. Það var meira að segja dögg í grasinu og bakpokinn minn var blautur þegar ég setti hann á bakið. En smá kuldi er ekkert fyrir Íslendinga. Þetta var frábær dagur. Og til að toppa þetta allt þá komu tónlistarmenn og söfnuðust saman rétt hjá okkur þannig að við höfðum tónlist til að hlusta á allt kvöldið. Þetta fólk safnast víst saman á hverju sunnudagskvöldi allt sumarið og spilar saman. Og hver sem er getur tekið þátt. Sniðugt.

Ég saknaði þess aldrei sérlega að hafa ekki fleiri Íslendinga í kringum mig en nú þegar ég hef fleiri í nágrenninu er ég ákaflega ánægð. Það er svo margt sem við eigum sameiginlegt og sem greinir okkur frá Kanadamönnunum. Þótt ég verði oft ógurlega pirruð á íslensku þjóðfélagi þá eru Íslendingar upp til hópa gott fólk og ég er ánægð með að geta talað móðurmálið oftar.

Nú er bara spurningin hvað hið óopinbera Íslendingafélag gerir næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það hljóta að vera fleiri ísl í vanc en þetta!! En allavega já það að hafa landasýna náælgt sér í útlöndum er gott en getur líka verið vankostur sérstaklega ef maður umgengst þá meira en þjóðina sem maður býr hjá!!  ég á svo sem ekki við það vandamál að stríða sem betur fer ... ef maður er í stuttan tíma í öðru landi er alveg nauðsynlegt að umgangast "útlendingana" meira svo að maður þrói málið betur og svona ... en eins og ég segi alveg nauðsynlegt að baka pönnukökur einstaka sinnum og njóta með íslendingum ;D

Hrabba (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 09:46

2 identicon

Við söknum þess alveg rosalega að fara á ströndina í Kits.  Við höfðum pottþétt mætt - ef við værum ekki flutt :(  Sennilega keypt hrikalega girnileg kjötspjót í Urban Fare (gott fyrir lata íslendinga sem nenna ekki að búa til sýn eigin spjót).  Frábært að þetta heppnaðist vel.
Sendum okkar bestu (saknaðar)kveðjur - Haltu áfram að vera dugleg að deila með okkur hvað er að gerast í Vancouver!

Óli, Kristbjörg og Húgó Máni (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 23:55

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir þennan pistil um líf okkar Vesturfara!

Wilhelm Emilsson, 27.9.2007 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband