Hush var flott maður
13.9.2006 | 05:11
Heilir og sælir Íslendingar! Sérstaklega þið sem sitjið nú sveitt heima og kjósið Magna. Klukkan er loksins orðin tíu hér á vesturströnd Kanada, Supernova þættinum er nýlokið og við erum farin að kjósa hér í dag. Í dag sendi ég póst á INL listann (Icelandic National League of North America), Þjóðernisfélag Íslendinga, og hvatti alla þar til að kjósa. Benti þeim á að kosning væri um miðja nótt og því erfitt fyrir Íslendinga heima að kjósa. Þeir þyrftu því á hjálp Vestur Íslendinga að halda. Vonandi að einhverjir svari kallinu.
Magni var góður í kvöld og þótt ég hafi verið sammála því að lagið hans hafi ekki verið eins gott og hinna, var óþarfi að það væri nær það eina sem sagt væri við hann eftir á. Dave minntist sem betur fer á að hann hafi flutt Hush frábærlega en hinir sögðu ekkert um það. Það er leiðinlegt því að margir láta það því miður hafa áhrif á sig hvað sagt er eftir flutninginn. En við verðum að vona að sem flestir fari eftir eigin tilfinningu og sjái hversu frábærlega hann flutti bæði lögin. Ókei, svo hann er ekki eins góður lagasmiður. Er Magni ekki líka fyrst og fremst poppari? Það sem ég hef heyrt með Á móti sól er miklu fremur popp en rokk. Og það gæti haft áhrif á lagasmíðarnar. En það getur enginn neitað því að hann er fantagóður rokksöngvari og ég myndi segja án efa besta röddin í hópnum.
Annars verð ég að viðurkenna að mér finnst þessi fjögur öll flott og ég held það skipti ekki öllu hver vinnur.
Vinkona mín sem er Kanadísk og gift Ástrala (og var yfir sig hrifin af Toby eftir flutning hans í kvöld) sagði í lokin að henni hafi fundist flutningur Magna á Hush það besta í kvöld. Vonandi að fleirum þyki svo.
Annars verð ég að bæta við að lokum, af því að sumir hafa verið að segja að fáir hér vestra viti af þessum þætti, að Tommy Lee var hjá Ellen í dag og Ellen sagði m.a. að hún elskaði þennan þátt og að hún væri svo sorgmædd yfir því að hann væri næstum búinn. Kanadísku blöðin hafa líka haft Lúkas á forsíðu í dag, þannig að það er greinilega töluverður áhugi á þættinum. Kannski ekki á stærð við American Idol en samt þó nokkuð.
Athugasemdir
Ég er stolt af þér að senda ósk um hjálp. Ég er alveg viss um að það hefur skilað árangri. Mér finnst Magni alls ekki síðri lagasmiður, en lagið hans er flóknara og það er ekkert grípandi og einfalt í viðlaginu. Ætli það hafi ekki aðallega verið það sem TLee var að meina á þann klaufalega hátt sem hann gerði það.
Mér fannst nú óþarfi að vera með einhver neikvæð komment svona á síðasta kosningakvöldinu, en hann vill sennilega hafa áhrif á það hvern fólk kýs.
Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 13.9.2006 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.