Annar sigurleikur hjá Presto

Í kvöld lékum við okkar annan leik í fjórðu deildinni í Vancouver. Þessi leikur átti upphaflega að fara fram 16. september en var frestað vegna verkfalls borgarstarfsmanna. Deildin er að reyna að finna velli fyrir leikina og þess vegna enduðum við á því að spila á þriðjudagskvöldi í Burnaby. Birna kom og spilaði með okkur í fyrsta sinn. Hún er fantagóð.

Við lékum á móti Burnaby Tigers og hófum leikinn mun betur en þær. Það gekk þó ekki að skora lengst af ég er viss um að fyrri hálfleikur var hálfnaður áður en við náðum að pota boltanum inn. Ég tók knöttinn upp hægri kantinn og sendi fyrir markið þar sem Jodi reyndi að sparka boltanum en hann lenti í varnarmanni og barst til Melissu sem þrusaði boltanum inn. Ekkert meira gerðist í þeim hálfleik en bæði lið áttu nokkur ágæt tækifæri.

Eftir hálfleik komu tígrarnir sterkari til leiksins og ég var dauðskelkuð um að við fengjum mark á okkur. Enda gerðist það þegar skammt var liðið á hálfleikinn. Ein þeirra komst ein inn fyrir og skaut boltanum fram hjá Elise í markinu. Næstu tíu mínúturnar eða svo spiluðu þær mun betur en við og boltinn kom varla yfir á þeirra leikhelming. En loksins náðum við að hrista af okkur slenið og fórum að spila almennilega. Annað mark okkar kom svo um miðjan seinni hálfleik. Ég fékk boltann (held ég frá Birnu) og skaut að marki en náði ekki að koma boltanum í gegn, hann barst út aftur, var sparkað til baka og varnarmenn tígrana voru eitthvað klaufalegir og misstu boltann frá sér. Ég var sem betur fer vel vakandi, rauk á boltann og þrumaði honum í netið. Staðan 2-1 fyrir okkur. Um tíu mínútum síðar fékk ég boltann aftur frá Birnu (hún var að spila á miðjunni og náði að stjórna spilinu þar betur en hefur verið gert síðan Connie hætti með liðinu fyrir þremur árum). Ég tók hann upp hægri kantinn (eins og minn er vaninn) en markvörðurinn þrengdi vel að skotinu. Ég var að hugsa um að skjóta samt sem áður en sá þá Benitu koma upp vinstra megin með varnarmann á sér en ég treysti henni til að losa sig við slíka smámuni svo að í stað þess að skjóta að markinu renndi ég boltanum yfir til Benitu sem þrumaði honum inn. Staðan 3-1 og þannig fór leikurinn.  

Við spiluðum ágætlega á köflum en það var margt illa gert líka. Vörnin á enn í vandræðum með að hreinsa og miðjan nær ekki alltaf að tengja vörn og sókn. Birna sem er frábær varnamaður færði sig á miðjuna og breytti því. Hún getur þrusað boltanum lengra en flestir aðrir í liðinu og ég vona að hún haldi áfram og að hún taki miðjuna að sér. Það munar svo ótrúlega miklu að hafa sterka manneskju þar.

En við erum ánægðar. Búnar að spila tvo leiki og vinna þá báða. Markahlutfallið er 7-2 þannig að við getum ekki kvartað. Nú er bara að halda uppteknum hætti. Næsti leikur er á sunnudaginn en það er spurning hvort hægt verður að spila þar. Völlurinn er í Vancouver og við vitum aldrei hvenær hann verður dæmdur ónothæfur. Við vitum að hann var notaður um helgina þannig að við vonum að allt verði í lagi. Það er svo slæmt að missa úr. Sérstaklega þegar maður er í góðum gír. 

Annars lítur veturinn vel út. Við erum í góðum hóp liða sem við höfum spilað á móti áður og ég myndi segja að aðeins eitt þeirra, North Shore Sains sé betra lið en við. Hin liðin eru öll svona svipuð að getu. Við höfum unnið þau öll en líklega einhvern tímann tapað fyrir þeim líka. Það þýðir að spennandi keppni er framundan. Ég held að það sé raunhæft að setja stefnuna ekki neðar en á annað sætið. Á góðum degi getum við líka unnið North Shore. 

Mínir menn í Vancouver Canucks stóðu sig ekki eins vel í hokkíinu um helgina. Töpuðu fyrir San Jose Sharks 1-3 og fyrir Anaheim Ducks 0-5. Það má segja þeim til varnar að þeir spiluðu að mestu með varaliðið sitt. Önnur ástæða þessa var sú að 4 af 6 varnarmönnum Canucks voru meiddir og 3 af 9 sóknarmönnum, og hin ástæðan er sú að Vigneault er enn að prófa ungu strákana því hann er ekki enn viss hverjum hann vill halda í aðal liðinu og hverja hann vill senda til Manitoba í frekari þjálfun. Randy Carlyle hjá Anaheim er hins vegar búinn að gera upp hug sinn og sendi því aðal liðið sitt í leikinn. Miklu munaði líka um það að Luongo stóð ekki á milli stanganna og það munar nú um minna. Almennt voru báðir þessir leikir vonbrigði. Á morgun spila þeir seinni leikinn við San Jose og búist við að meiddu leikmennirnir verði flestir tilbúnir í slaginn. Það er því vonandi að þeir sýni hvað í þeim býr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband