Reynsla mín af Stamford Bridge

Sumarið 1998 fór ég til Englands og var þar í nokkra daga. Mig langaði mikið á leik með Arsenal en á þessari viku sem ég var þarna spiluðu þeir engan heimaleik, aðeins einn leik á útivelli gegn Chelsea. Oft fá aðkomuliðin aðeins um 2000 miða á hvern leik og þessir miðar fara yfirleitt alltaf til þeirra sem eiga ársmiða á leiki félagsins. Það var því ekki nokkur leið að fá sæti í gegnum Arsenal. Ég hringdi því í íslenska ferðaskrifstofu sem mér var sagt að seldi miða á leiki í ensku úrvalsdeildinni. Ég fékk næstum því hjartaáfall þegar mér var sagt hvað miðarnir myndu kosta því það var vel yfir tíuþúsund kall. Ég fékk hóstakast og náði að stynja upp úr mér einhverri spurningu um hvers vegna verð væri svona svívirðilega hátt og fékk að vita að ferðaskrifstofan fengi miðana frá söluaðila sem keypti þá af klúbbnum. Það hvarflaði ekki að mér að kaupa miða á þessu verði svo ég ákvað að prófa annað ráð. Ég skrifaði beint til Chelsea og bað um miða á leikinn, ásamt því að gefa þeim upp upplýsingar um vísakortið mitt. Um viku seinna fékk ég miða á ódýrasta stað fyrir skít á priki (um 2000 krónur).

Eini gallinn við þetta var auðvitað að ég sat innan um 40.000 Chelsea aðdáendur með hjartað í buxunum yfir því að ef Arsenal skoraði myndi ég kannski gleyma mér og stökkva upp af fögnuði. Það reyndist ónauðsynlegur ótti því leikurinn fór 0-0. Kannski eins gott fyrir mig. Þar að auki hefði ég aldrei séð mark ef það hefði verið skorað því í hvert sinn sem boltinn nálgaðist annað hvort markið stóðu allir upp og ég sá ekki baun.

En það var auðvitað magnað að fara á leik og ég prófaði meira að segja að borða pylsurnar þeirra sem eru beinlínis pylsa í brauði með sirka fjórum hráum laukum, vaðandi í olíu. Athyglisvert. 


mbl.is Chelsea lækkar miðaverðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband