Dauði á Smashing Pumpkins
27.9.2007 | 04:29
Smashing Pumpkins léku hér á PNE Forum á mánudagskvöldið og því miður gerðist sá sorglegi atburður að tvítugur tónleikagestur lét lífið. Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist. Hann var í þvögunni fyrir framan sviðið og tveir menn drógu hann út úr þvögunni og kölluðu á hjálp. Sjúkraliðar komu að skömmu síðar en náðu ekki að bjarga manninum. Hann dó á sjúkrahúsi skömmu síðar.
Fréttum ber ekki saman um aðstæður á tónleikunum. Tónleikahaldarar segja að þvagan hafi verið róleg og lítið hafi verið um svo kallað 'crowd-surfing'. Margir tónleikagestir hafa aðra sögu að segja og vilja meina að töluvert hafi verið um slíkt. Hallur og Birna fóru á tónleikana (þau sendu mér sms stuttu fyrir tónleikana og sögðu mér að enn væri hægt að fá miða en ég fattaði ekki að tónleikarnir voru það kvöld og athugaði ekki málið fyrr en klukkan ellefu um kvöldið). Birna sagði mér að hún hefði skamma stund staðið í þvögunni en að henni þrengdi of mikið svo hún lét öryggisverðina draga sig út úr og flúði í staðinn upp í tröppur. Hallur stóð hins vegar allan tímann fyrir framan sviðið en varð ekki var við það sem gerðist.
Það er alltaf sorglegt þegar svona gerist. Ungur maður fer á tónleika og lifir það ekki af. Þetta er annað dauðaslysið sem verður á Smashing Pumkin tónleikum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.