Sitt lítið af hverju

Lasin
Ég er svolítið lasin í dag. Fékk einhverja lurðu og hef verið nokkuð slöpp undanfarna daga en ekki beinlínis veik. Er að reyna að sofa þetta af mér. Svaf í eina fjórtán tíma í nótt og held það hafi verið gott fyrir mig. Miklu betri í dag. 

Enginn fótbolti
Fótboltanum var frestað í dag enda búið að rigna stanslaust síðan um miðjan dag í gær. Það þýðir að stórir pollar höfðu safnast saman á vellinum og þá má ekki spila. Kannski eins gott fyrir mig, þá get ég látið mér batna í staðinn. En samt leiðinlegt að ekkert skuli hafa orðið úr fótboltanum því við vorum komnar á skrið.

Aðeins meira af hokkíinu
Í gær fór ég í mat til Rosemary og Dougs og við horfðum saman á Canucks-Edmonton leikinn í sjónvarpinu. Hann endaði 5-4 fyrir Canucks. Þetta var síðasti æfingaleikurinn í haust en á föstudaginn hefst NHL deildin fyrir alvöru. Það sem helst skyggði á þennan leik var að Rick Rypien, leikmaður Canucks, skellti Mathieu Roy hjá Edmonton illilega í fjalirnar og sá síðarnefndi var borinn af velli. Rypien fékk fimm mínútnur í boxinu fyrir vikið sem bendir til þess að brotið hafi þótt alvarlegra en venjuleg brot en ekki of alvarlegt. Það sem gerir þetta brott ólíkt broti Downie's aðeins degi áður (en hann fékk tuttugu leikja bann) var fyrst og fremst það að fætur Rypiens voru enn á jörðinni en Downie stökk upp til að höggið yrði sem mest. Þar að auki sá Roy Rypien koma en því var ekki þannig farið í leil Senators og Flyers. Vigneault, þjálfari Canucks, segir að Rypien hafi ekki gert neitt rangt og að það hafi verið rétt hjá dómurunum að reka hann ekki útaf það sem eftir lifði leiks. Þetta er hluti af leiknum. Ég segi enn og aftur, mér þykir þetta ljótur hluti af leiknum en ég er víst í minni hluta.

Úr málvísindadeild
Fréttirnar úr deildinni minni eru fremur dapurlegar. Í dag heyrði ég af skólasystur minni sem missti fóstur og aðeins nokkrum mínútum síðar heyrði ég af einum skólabróður mínum sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hún hafði ekki fengið vinnu hér í Vancouver og þau höfðu reynt að halda úti fjarsambandi en það gekk greinilega ekki. Slík eru býsna erfið. En þau eru bæði ung og falleg og verða ábyggilega komin með nýja maka áður en ég skipti um sokka.

Spaugstofan
Ég horfði á Spaugstofuna áðan og fannst þátturinn aðeins betri en sá í síðustu viku. Þar munaði um Ladda sem er alltaf fyndinn. Jafnvel þótt atriðið með Eyjólfi og Magnúsi hafi í sjálfu sér ekki verið svo sniðugt þá get ég ekki annað en hlegið af Ladda sem Magnús. Hann er bara svo hrikalega fyndinn í því hlutverki. Mér fannst líka sniðugt atriðið með konunni sem var í Hagkaup að reyna að versla í Jamie Oliver rétt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mummi Guð

Brotið hjá Downie var sýnt í fréttunum áðan og ég get alveg staðfest það að það var svakalegt. Ekki oft sem það er sýnt frá leikjum í hokkíinu hérna hvað þá frá pre-season. Leiðinlegt að hugsa til þess að svona atvik þurfa að gerast til að hokkíið komist í fréttirnar hérna.

Magnús er alltaf góður og viðtalið sem var tekið við þá félaga Magnús og Eyjólf fyrir ansi mörgum árum þar sem það kemur fram að þeir eru símalausir er sennilega besti brandari Íslandsögunnar.

Mummi Guð, 30.9.2007 kl. 22:29

2 identicon

Þú fékkst eihverja ´´lurðu,,      hvað merkir það?Ég hef einhverstaðar séð þettað orð áður hmmmmmmmmmmmm?

jensen (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 22:40

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér finnst Spaugstofan skemmtilegri núna með gestaleikurunum þótt mér hafi líka fundist hún fyndin áður, oft. Mér fannst hins vegar unglingadrykkjan með unglingum ekki fyndin, t.d. þegar Pálmi Gestsson var í fjarpartíi og fékk sms um að allir skyldu fela áfengið (vísun í aðför að Ólínu Þorvarðardóttur). En skördígördí-búðaratriðið með Halldóru Björnsdóttur verður klassískt og ég hlæ alltaf að Magnúsi þegar hann verður lúpulegur.

Lurða er slæmska (lasleiki, ekki beint veikindi).

Berglind Steinsdóttir, 30.9.2007 kl. 23:10

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já Mummi, undarlegt að aldrei skuli sýnt frá NHL á Íslandi nema þegar eitthvað svona gerist. Hokkí er þó leikið á Íslandi. Á tímabili va verið að sýna reglulega frá ameríska fótboltanum sem ég veit ekki til þess að sé spilaður heima. Þar að auki er hokkíið miklu skemmtilegra en am. fótb.

Já, skördígördíatriðið var magnað. Og Berglind lýsir lurðunni rétt. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.10.2007 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband